Brennivínið komið aftur í borgina

Úlfar Árdal hefur flutt framleiðslu á Brennivíni í höfuðstöðvar Ölgerðarinnar. …
Úlfar Árdal hefur flutt framleiðslu á Brennivíni í höfuðstöðvar Ölgerðarinnar. Hann er hér við eimingartækin sem voru sérsmíðuð í Þýskalandi. Ljósmynd/Hari

Um þessar mundir eru 30 ár liðin frá því íslenska ríkið hætti að framleiða Brennivín. Við afléttingu áfengisbannsins árið 1935 var þessi kunni drykkur búinn til að undirlagi yfirvalda og vörumerkið Brennivín og framleiðsla þess var á forræði ríkisins allt til ársins 1992. Undanfarin ár hefur Ölgerðin Egill Skallagrímsson farið með eignarhald á Brennivíni og alfarið framleitt það í sterkvínsverksmiðju í Borgarnesi. Þessa dagana er verið að flytja hluta framleiðslunnar aftur til höfuðborgarinnar í nýtt og glæsilegt framleiðslurými í húsnæði Ölgerðarinnar við Grjótháls. Það má því segja að Brennivínið sé komið aftur á kunnuglegar slóðir en ríkið hélt úti framleiðslu á Brennivíni að Stuðlahálsi um árabil og var gatan þá gjarnan uppnefnd Flöskuháls.

Þroskað á sérrítunnum

„Mér finnst það mikill heiður að fá að vinna við framleiðslu Brennivínsins. Það þekkja allir Íslendingar Brennivín og margir eiga sínar sögur af því, einkum þeir eldri sem byrjuðu að drekka áður en bjórbanninu var aflétt. Ég hef talað við marga og heyrt ansi skrautlegar sögur,“ segir Úlfar Árdal, framleiðslustjóri Brennivíns hjá Ölgerðinni.

Hann er ánægður með nýtt heimili framleiðslunnar. „Þetta er verkefni sem hefur verið nokkur ár í undirbúningi og loksins sjáum við fram á að geta hafið framleiðslu. Við létum sérsmíða fyrir okkur eimingartæki hjá Arnold-Holstein í Þýskalandi sem við höfum komið upp í nýjum heimkynnum Brennivíns í höfuðborginni og eigum við von á að hefja eimingu á Brennivíni þar á næstunni. Við munum þó enn þá úthýsa áfyllingu á flöskurnar en einbeita okkur að þróun og sköpun í nýja húsnæðinu,“ segir Úlfar.

Úlfar Árdal er sáttur við nýjustu afurðina, Brennivín sem fékk …
Úlfar Árdal er sáttur við nýjustu afurðina, Brennivín sem fékk að þroskast á Hot Sauce-tunnu. Ljósmynd/Hari

Á liðnum árum hefur ímynd Brennivíns breyst talsvert. Bæði hefur orðið vinsælt hjá barþjónum að nota það í kokteila og eins hafa bruggmeistarar Ölgerðarinnar prófað sig áfram með ýmsar útgáfur þess.

„Við höfum unnið markvisst í þróun á tunnuþroskun Brennivíns frá árinu 2014 en í lok þess árs kom einmitt fyrsta útgáfan í „Brennivín Jólin“-seríunni sem hefur verið mjög vinsæl alla tíð síðan. Frá því það ferðalag hófst hefur ýmislegt verið brallað. Við höfum árlega frá 2015 sent út tunnuþroskaða útgáfu sem nefnist „Special Cask Selection“ og er blanda sem hefur annars vegar þroskast í bourbon-tunnum og hins vegar Oloroso-sérrítunnum. Upphaflega seldum við hana eingöngu til Bandaríkjanna og Þýskalands en hún hefur einnig verið fáanleg hérlendis undanfarin ár. Viðtökurnar á þessu hafa verið mjög góðar erlendis en varan fékk meðal annars 96 stig hjá Wine Enthusiast í Ameríku sem var mikill heiður fyrir okkur,“ segir Úlfar en á dögunum var sett á markað nýjasta tilraunin: Brennivín Hot Sauce Edition.

„Þessi útgáfa hefur fengið að liggja í meira en tvö ár á Hot Sauce-tunnu sem við fengum frá Bandaríkjunum og hafði áður það hlutverk að þroska sterka chilisósu, eins og nafnið gefur til kynna. Einungis voru framleiddar 234 flöskur og eru þær allar númeraðar. Það er óhætt að segja að þroskunin og ferlið hafi komið okkur verulega á óvart að þessu sinni og fullyrða má að það hafi haft afgerandi áhrif bæði á bragð og lykt. Þessi útgáfa er eitthvað sem áhugafólk um framsækið bragð, sterkan mat og auðvitað pipar má ekki láta fram hjá sér fara.“

Spennandi verk fram undan

Úlfar segir að endingu að hann sé spenntur fyrir því að halda áfram tilraunamennsku með Brennivín auk þess að færa landsmönnum hinn sígilda drykk sem fylgt hefur þjóðinni í hátt í heila öld.

„Hugmyndin er að halda áfram að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín með þroskun á Brennivíni á hinum ýmsu tunnum, en einnig kynna til leiks útgáfur sem tefla fram öðrum hráefnum og hafa verið í þróun hjá okkur undanfarin misseri. Þá eru þegar komin á teikniborðið spennandi verkefni utan Brennivínsins sem byggja á nýjum hugmyndum sem verður gaman að kynna betur síðar. Að lokum eru spennandi samstarfsverkefni með flottum erlendum aðilum sem við förum loks að vinna að þegar sett verður í gang. Það er því óhætt að segja að það sé nóg fram undan,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »