Vikumatseðill Hönnu Þóru

Matarbloggarinn og listakonan Hanna Þóra á heiðurinn að vikuseðlinum.
Matarbloggarinn og listakonan Hanna Þóra á heiðurinn að vikuseðlinum. mbl.is/Mynd aðsend

Matarbloggarinn og listakonan Hanna Þóra, á heiðurinn að vikumatseðlinum sem er einstaklega girnilegur að okkar mati.

„Það er varla byrjuð ný vika áður en við erum farin að spá í vikumatseðilinn og þá sérstaklega hvaða helgargúmmulaði eigi að hafa. Matur er mjög mikilvægur þáttur í samveru fjölskyldunnar og eldhúsið er klárlega vinsælasti staðurinn á heimilinu“, segir Hanna Þóra. „Það er alltaf ferskt salat á borðum en markmiðið á nýju ári var að nota meira grænmeti sem meðlæti í staðinn fyrir kartöflur og hrísgrjón. Þetta hefur verið skemmtilegt og þá hefur komið á óvart hvað steikt blómkál og hvítkál passa með mörgum mat og er mikið namminamm“.

Uppskrift númer 600
„Þessa dagana eiga pottarnir mínir hug minn allan - ef ég er ekki að búa þá til þá er ég að spá í hvað hægt sé að elda í þeim. Það hefur tekið mig nokkur ár að þróa þá eins og t.d.  að finna hvaða leir og glerunga er best að nota. Ég hef líka verið að búa til litlar útgáfur af pottalingum sem bæði er hægt að matreiða í og framreiða í. Það er bara svo frábært hvað hægt er að nota þá í margskonar matargerð og bakstur en svo er það bónus að lokið er líka skál.  Svo spillir ekki fyrir hvað maturinn bragðast vel í þeim. Það er gaman að geta tengt saman þessi tvö áhugamál, matseld og pottagerð, en núna 1. apríl eru sex ár liðin frá því að matarbloggið mitt fór í loftið. Markmiðið er að þann dag muni uppskrift nr. 600 líta dagsins ljós“, segir Hanna Þóra.

Mánudagur:
Mánudagar eru nú yfirleitt afgangadagar, en ég sé fyrir mér að það væri upplagt að eiga afgang af kjúklingi sem hægt væri að nota til að skella í eitt svona girnilegt sesar salat.

Þriðjudagur:
Þriðjudagar eru oft fiskdagar en þá þarf rétturinn að vera súper fljótlegur þar sem eldamennskan hefst seint þá daga. Ég er búin að prófa þennan rétt í leirpottunum mínum – gerði smá breytignar en karrýfólkið á heimilinu varð mjög sátt

Miðvikudagur:
Ég held að þessi réttur myndi klárlega hitta í mark á miðvikudegi.

Fimmtudagur:
Á fimmtudögum sæki ég 4 ára ömmustrákinn minn í leikskólann og við eldum saman. Það er svo skemmtileg og nærandi samverustund - mæli með að setja svuntu á börnin og fá þau með sér inn í eldhúsið. Ég held að hann væri til í þennan rétt og við myndum klárlega prófa að nota leirpott.

Föstudagur:
Þessi uppskrift er vinsæl á heimilinu og frábær föstudagsmatur.

Laugardagur:
Laugardagar eru sparidagar og þá steinliggur þessi í pottunum góðu.

Sunnudagur:
Á sunnudögum mæta allir í mat sem fluttir eru að heiman og við borðum saman. Yfirleitt er ekki fiskur á sunnudögum en ómæ, hvað mér finnst þessi líta vel út.

mbl.is