Biðjast afsökunar á klaufalegu málfari

Nammið umtalaða.
Nammið umtalaða.

Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lenskri mál­fræði við Há­skóla Íslands, hefur fengið svör frá sælgætisframleiðandanum Nóa Síríusi, við áskorun sinni um að umbúðum á nýrri vöru hans verði breytt sem fyrst.

Greint var frá áskoruninni á laugardag, en á umbúðum vör­unn­ar, sem nefnist Bíó kropp, seg­ir að hún sé með „butter og salt bragði“. „Ég þykist vita að stjórnendum fyrirtækisins sé kunnugt um að butter heitir smjör á íslensku. Ef þeim finnst eitthvað óheppilegt eða ólystugt að tala um smjörbragð ætti kannski frekar að huga að því að breyta vörunni en láta íslenskuna víkja,“ skrifaði Eiríkur í Facebook-hópnum Mál­spjall.

Eiríkur vakti máls á nafninu á laugardag.
Eiríkur vakti máls á nafninu á laugardag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breyta þurfi hugarfarinu

Hann bregður penna að nýju nú í hádeginu og tekur fram að svar hafi borist frá Nóa Síríusi í tölvupósti:

„Við viljum þakka þér fyrir ábendinguna. Kexið sem við notum í kroppið kemur til okkar merkt „butter&salt“ og okkur fannst það passa vel við vöruna. Þetta var klaufalegt málfar og við biðjumst afsökunar. Við munum passa okkur betur á þessu í framtíðinni.“

Eiríkur segir að ástæða sé til að hrósa framleiðandanum fyrir þessi viðbrögð.

„En jafnframt er rétt að benda á að skýringin, „okkur fannst það passa vel við vöruna“, staðfestir einmitt það sem ég sagði – að enskt heiti þyki „smart og söluvænlegt og líklegt til að höfða betur til neytenda“. Við þurfum að breyta því hugarfari,“ skrifar hann.

„Satt að segja finnst mér ekki líklegt að þau breyti þessum umbúðum og það er auðvitað slæmt,“ bætir hann aðspurður við, í athugasemdum við færslu sína.

mbl.is