Vinsælt súkkulaði í nýjan búning

Ást þjóðarinnar á súkkulaði og lakkrís er löngu þekkt og þar hefur Eitt Sett notið mikillar lýðhylli enda sameinar það þessi tvö hráefni með snilldarhætti.

Nú er komin á markað ný útgáfa af Eitt Sett sem kallast Eitt Sett Drumbar og eru súkkulaðihjúpaðir karamelludrumbar með mjúkum lakkrískjarna.

„Eitt Sett hefur í áratugi verið eitt eftirlætis sælgæti Íslendinga og það hefur verið mjög gefandi vinna að þróa nýjar vörur í þessa vörulínu sem má segja að sé nú orðin fullvaxta fjölskylda. Þær vörur sem bæst hafa í hópinn undanfarin misseri hafa hlotið afar jákvæðar viðtökur og ég er þess fullviss að Drumbarnir eigi eftir að slá í gegn,“ segir Alda Björk Larsen markaðsstjóri Nóa Síríus.

„Vöruþróun er auðvitað eitt af aðalsmerkjum okkar hjá Nóa Síríus. Það er skemmtilegt að vinna með rótgrónar vörur, eins og Eitt Sett, og finna nýjar leiðir fyrir fólk til þess að njóta þeirra,“ bætir Alda við að lokum.

Það eru orðnir nokkrir áratugir síðan íslensk ungmenni tóku upp á því að að para saman gómsætar Síríuslengjur og mjúka lakkrísborða. Í kjölfarið fæddist Eitt Sett. Nú telur Eitt Sett fjölskyldan fimm vörur. Fyrst ber auðvitað að nefna höfuð fjölskyldunnar, hina klassísku Síríuslengju með lakkrísborðanum. Svo er það hin stórmyndarlega Eitt Sett súkkulaðiplata að ógleymdum Eitt Sett Töggum sem eru gómsætar lakkrískaramellur hjúpaðar Síríus súkkulaði. Eitt Sett bitarnir í endurlokanlegum pokum, sem mörgum hefur reynst erfitt að loka, eru á góðri leið með að verða klassískir og svo er það auðvitað nýjasti fjölskyldumeðlimurinn sem var að lenda í verslunum, Eitt Sett Drumbar, að því að fram kemur í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert