Einfaldasta páskamáltíðin

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Kalkúnn er vinsæll veislumatur og hér gefur að líta uppskrift sem er mögulega ein sú einfaldasta sem við höfum rekist á. Kalkúnabringurnar eru einstaklega meirar og góðar og sósan er síðan í algjörum keppnisflokki. Það er eldhúsgyðjan Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari tímamóta máltíð sem getur ekki klikkað. 

Sous Vide kalkúnabringa og meðlæti

Fyrir 4-5 manns

Ofnbakað grænmeti

  • Um 800 g sætar kartöflur
  • Um 500 g rósakál
  • Um 80 g pekanhnetur
  • Um 40 g þurrkuð trönuber
  • Salt, pipar, hvítlauksduft
  • Ólífuolía
  • Hlynsýróp

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Flysjið og skerið sætu kartöflurnar í teninga.
  3. Snyrtið rósakálið og skerið til helminga.
  4. Veltið upp úr ólífuolíu og kryddið eftir smekk.
  5. Bakið í um 30 mínútur og veltið 1-2 x á meðan.
  6. Takið út, bætið pekanhnetum og trönuberjum saman við og bakið áfram í um 5 mínútur.
  7. Setjið á fat og setjið smá hlynsýróp yfir allt saman.
  8. Á meðan grænmetið er í ofninum má útbúa sósuna og undirbúa kalkúnabringuna.

Sous Vide kalkúnabringa

  • 1 stk. Sous Vide kalkúnabringa frá Ali
  • Smjör til steikingar

Aðferð:

  1. Látið sjóðandi vatn renna í vaskinn og komið pokanum með kalkúnabringunni þar fyrir og leyfið að liggja í um 15 mínútur (til að hita hana aðeins).
  2. Takið bringuna næst úr plastinu og bræðið væna klípu af smjöri á pönnu, steikið hana skamma stund á öllum hliðum.
  3. Skerið í þunnar sneiðar um leið og hún er borin á borð.

Sveppasósa 

  • 250 g sveppir
  • 70 g smjör
  • 500 ml rjómi
  • 150 g rjómaostur með pipar
  • 1-2 tsk. Dijon sinnep (eftir smekk)
  • 1 msk. sveppakraftur (fljótandi)
  • 1 msk. nauta- eða kalkúnakraftur (fljótandi)
  • 1-2 tsk. rifsberjahlaup
  • Salt, pipar, hvítlauksduft
  • Sósulitur (ef vill)

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í sneiðar og steikið upp úr smjöri, kryddið eftir smekk.
  2. Bætið rjóma og rjómaosti í pottinn og pískið saman þar til kekkjalaust.
  3. Leyfið sósunni að malla á meðan grænmetið bakast og bætið krafti, sinnepi, rifsberjahlaupi og sósulit saman við. Kryddið eftir smekk.



Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert