Vikumatseðillinn að þessu sinni er í höndum þungavigtarstjörnu í veitingabransanum. Maðurinn á bak við seðilinn er enginn annar en Sigurður Laufdal. Sigurður sem hefur víða komið við á sínum ferli; allt frá því að vera kosinn matreiðslumaður ársins, keppa í Bocue D'Or og vinna sem sous chef á einum þekktasta veitingastað heims, Geranium í Kaupmannahöfn. Nú hefur Sigurður opnað sinn eigin veitingastað í miðborg Reykjavíkur og nýtur þess að taka á móti matargestum og galdra fram sælkerakræsingar.
Sigurður tók því fagnandi að fá að vera með vikumatseðilinn í upphafi júnímánaðar, fullur tilhlökkunar. „Það er gríðarlegur heiður að fá að gera vikumatseðilinn og ég mun gera hann þrátt fyrir miklar annir. Þessa dagana er ég á fullu á nýja veitingastaðnum mínum OTO á Hverfisgötu 44 en þar gerum við mat sem er undir áhrifum frá Ítalíu og Japan. Það er búið að vera ótrúlega skemmtilegt verkefni og við erum mjög þakklát fyrir alla okkar viðskiptavini og viðtökurnar hafa verið afar góðar. Við erum með fjölbreyttan matseðil þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og skemmtilegan kokteilseðil sem hefur fallið vel í kramið hjá gestum,“ segir Sigurður sem hefur verið á fullu síðustu vikur að þróa rétti á matseðilinn með sínu teymi.
Grænmetis- og fiskréttir verða oftast fyrir valinu
„Vikumatseðillinn samanstendur yfirleitt af réttum sem eru fljótlegir og einfaldir. Svo er kærastan mín grænmetisæta/pesci þannig að matargerðin tekur oft mið af því og grænmetisréttir eru vinsælir á heimilinu og einnig réttir sem hægt er að nota kjöt eða grænmeti sem aðalhráefni. Það er samt sjaldan sem við erum með tvíréttað, kjöt og grænmeti í aðalrétt. Langoftast eru það grænmetis- og fiskréttir sem verða fyrir valinu,“ segir Sigurður. Hér gefur að lita guðdómlega girnilega vikumatseðil þar sem grænmeti og sjávarfang eru í forgrunni.
Mánudagur – Bleikja og geitarostur
„Á mánudögum fer ég í að plana vikuna í rólegheitum og á kvöldin er það oftast fiskur sem verður fyrir valinu. Mér finnst bleikur fiskur mjög góður og ratar hann mjög oft á borð hjá mér.“
Þriðjudagur - Burritos með grænmeti og sterkri sósu
„Mér finnst gott að gera burritos með nóg af grænmeti og sterkri sósu, með chipotle eða habanero. Svo ræður hver og einn hvað hann vill setja í burrito og sem er þess vegna fljótlegt og hentar vel fólki með mismunandi matarþarfir.“
Miðvikudagur – Pastasalat með þistilhjörtum
„Eitt af mínu uppáhalds eru þistilhjörtu. Ég á alltaf til þistilhjörtu í olíu heima og mér finnst þau gera allt betra.“
Fimmtudagur – Guðdómlegur blómkálsréttur
„Það er alltaf blómkál einu sinni í viku. Það er mjög auðvelt, einfalt og fljótlegt og svo er það mjög gott líka. Hægt að velja krydd eftir því hvað maður vill og gera góða dressingu sem passar með kryddblöndu blómkálsins.“
Föstudagur - Pitsakvöld
„Föstudagar eru eiginlega búnir að ná að stimpla sig inn sem pitsadagur vikunnar. Þá geri ég gott deig, geri pitsaasósuna frá grunni og set oft klettasalat yfir pitsuna þegar hún kemur út úr ofninum.“
Laugardagur – Djúsí pasta með risarækjum
„Djúsí pasta með risarækjum er ljúffengur og bragðgóður réttur þar sem einnig má leika sér með og bæta við ferskum jurtum, rifnum sítrónuberki eða jafnvel smá chilli ef maður er í stuði og vill fá smá meira “kick”.“
Sunnudagur - Pönnuköku-bröns
„Ég elska sunnudaga og byrja daginn rólega á góðum bröns, góðar pönnukökur eru ómissandi hluti af því. Með þeim fæ ég mér síróp, smjör og skreyti þær með alls konar berjum.“