Fæðingin tók 27 klukkustundir

Gabriela Líf eignaðist son sinn Hlyn Loga í desember í …
Gabriela Líf eignaðist son sinn Hlyn Loga í desember í fyrra. ljósmynd/Valdimar Steinþórsson

Gabriela Líf Sigurðadóttir eignaðist Hlyn Loga í desember í fyrra en fyrir utan það að blogga hjá Lady.is er hún með BSc-próf í sálfræði og er að fara starfa sem sérkennari á leikskóla. Smartland spurði Gabríelu út í móðurhlutverkið. 

Hvernig mamma vilt þú vera?

Fyrst og fremst vil ég vera góð mamma, ég vil gefa barninu mínu allt það besta og ég vil eiga í heilbrigðu og góðu sambandi við son minn. Ég er ekkert búin að ákveða hvernig „týpa“ af mömmu ég verð, það fer í rauninni bara eftir því hvernig sambandið milli mín og sonar míns verður.

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

Ég er mikið búin að kynna mér RIE-uppeldisstefnuna og er margt þar sem ég er að leggja áherslu á. Eins og er þá er strákurinn minn bara átta mánaða og er ekki mikið farinn að reyna á uppeldið. Ég reyni að leggja mesta áherslu á að það að koma fram við strákinn minn af virðingu og hef gert frá því að hann fæddist. Mitt hlutverk er í rauninni bara að búa til aðstæður sem eru öruggar og leyfi ég honum svolítið að ráða ferðinni.

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

Meira en ég gat gert mér grein fyrir! Ég fór að hugsa um hlutina meira út frá fjölskyldunni minni. Ég er enn þá bara að átta mig á því hversu mikið lífið er búið að breytast en ótrúlegt en satt þá finnst mér eins og hann hafi alltaf verið í lífi mínu. Get eiginlega ekki hugsað til þess hvernig allt var áður en hann kom.

Hvað kom þér á óvart við móðurhlutverkið?

Það er kannski pínu klisja en bara hversu mikið ég elska strákinn minn, maður heyrir alla foreldra segja þetta en þetta er eitthvað sem er ekki hægt að gera sér grein fyrir fyrr en maður upplifir þetta sjálfur.

Gabriela Líf og Hlynur Logi.
Gabriela Líf og Hlynur Logi.

Finnirðu fyrir pressu frá samfélagsmiðlum sem móðir?

Já og nei, ég finn ekkert sérstaklega mikla pressu varðandi uppeldið enn sem komið er en ég finn þó fyrir pressu með að halda heimilinu hreinu og oft hef ég dottið í þá gryfju að halda að ég þurfi að eiga allt það besta og nýjasta fyrir strákinn minn þegar kemur að fötum, dóti eða öðru.

Hvernig voru fyrstu mánuðirnir með ungabarn?

Fyrstu vikurnar voru mjög erfiðar bæði fyrir mig og strákinn minn. Fæðingin var erfið og tók mjög langan tíma. Ég var orðin mjög langþreytt á síðustu mánuðunum þegar ég var ólétt og var því ekki á mjög góðum stað þegar hann fæddist. Brjóstagjöfin gekk mjög illa og fóru áhrifin af því ekki vel í mig. Eftir að ég tók ákvörðunina um að hætta með hann á brjósti þá fór mér og honum að líða mun betur og gengu hlutirnir betur eftir það.

Varstu í mömmuklúbbi?

Ég var í bumbuhópi á Facebook eins og margar konur eru í og fannst það hjálpa mjög mikið bæði áður en hann fæddist og núna eftir að hann fæddist.

Hvernig komstu þér í form eftir meðgöngu?

Ég er enn að koma mér í form eftir meðgönguna og á það eftir að taka þann tíma sem það tekur. Ég var búin að ákveða það að ég ætlaði að gefa mér að minnsta kosti 9 mánuði til að ná mér og var búin að undirbúa mig undir það að ég myndi líklegast aldrei líta nákvæmlega eins út og ég gerði áður og var það bara í góðu lagi.
Ég mátti eiginlega ekkert hreyfa mig á meðgöngunni vegna þess að ég fékk svo reglulega samdrætti og mjög slæma grindargliðnun. Það var mjög erfitt að mega ekki hreyfa mig þar sem ég var í mínu besta formi áður en ég varð ófrísk.
Ég æfi crossfit hjá Crossfit Reykjavík og reyni að mæta reglulega þar og reyni að passa mataræðið mitt.

Fannstu fyrir fæðingarþunglyndi?

Já, ég fékk mikið fæðingarþunglyndi sem tengdist aðallega því að ég var orðin langþreytt eftir meðgönguna, erfiða fæðingu og brjóstagjöf sem gekk illa. Ég átti mjög erfitt með að tengjast stráknum mínum meðan ég var með hann á brjósti og ég vildi helst ekki halda á honum þegar hann var ekki á brjósti. Eftir að ég hætti með hann á brjósti þá gekk strax mun betur og með tímanum þá kom tengingin milli mín og hans og hægt og rólega fór mér að líða mun betur.

Hvernig er fæðingarsagan þín?

Fæðingin mín var mjög löng og erfið. Ég missti vatnið morguninn 19. desember, ég hringi niður á deild og bjóða þær mér að koma í skoðun ef ég vil og ég ákvað að gera það. Við ákveðum þó að vera ekkert að gera þetta í neinu stressi, við förum með blað sem ég átti eftir að skila niður í Fæðingarorlofssjóð og förum og fáum okkur að borða. Þegar ég er komin á bílaplanið fyrir utan Landspítalann finn ég fyrsta hríðarverkinn. Ég bjóst ekki við því að vera lengi uppi á spítala, hélt ég yrði send heim strax þar sem þetta var nú fyrsta barn og ég hafði heyrt að fæðingarnar taki sinn tíma. Við tókum þó allt með sem betur fer því í skoðuninni kom í ljós að strákurinn var ekki alveg skorðaður og þorðu þær ekki að senda mig heim vegna þess. Ég fæ því mitt eigið herbergi og erum við þar þangað til strákurinn fæddist. Til að gera langa sögu stutta prófa ég hláturgasið (sem mér fannst ógeðslegt), baðið og nudd til að lina verkina en ekkert af því virkaði á mig og endaði ég með því að fá mænudeyfingu. Ef ég hefði ekki fengið mænudeyfinguna þá hefði ég líklega ekki komist í gegnum þetta. Þegar það kom að því að rembast þá var hann svo ofarlega og sáum við fram á að þetta tæki langan tíma, sem það gerði. Ég man ekki hvað það tók langan tíma frá fyrsta rembing en það endaði þannig að hann var tekinn með sogklukku. Fæðingin tók 27 klukkustundir frá fyrsta verk og þar til hann var kominn í heiminn. Hann fæddist um hádegið 20. desember.

Hægt er að lesa nánar um fæðingarsögu Gabrielu hér. Þeir sem vilja fylgjast með Gabrielu og Hlyni Loga geta gert það á Instagram: gabrielalif90 og á Snapchat:gabrielalif90.

Gabriela leggur áherslu á að koma fram við son sinn …
Gabriela leggur áherslu á að koma fram við son sinn af virðingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál