Fékk betri yfirsýn yfir lífið

Friðrika Hjördís Geirsdóttir.
Friðrika Hjördís Geirsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Friðrika Hjördís Geirsdóttir eða Rikka eins og hún er kölluð tók sér pásu frá starfi í fjölmiðlum og lærði að vera Dale Carnegie þjálfari. Hún segir að þjálfaranámið hafi verið erfitt á köflum en á sama tíma kennt henni svo ótalmargt. Hún segir að það hafi til dæmis hjálpað henni að minnka streitu. Nú ætlar hún að fara nýja leið og fara með hóp af fólki til Alicante á Spáni þar sem námskeiðið mun fara fram. 

„Þjálfaranámið sjálft var mjög krefjandi og mikil áskorun að takast á við en skilaði dýpri þekkingu á lífinu og mannverunni. Það er í raun ómetanlegt að fá það tækifæri til að kryfja þessi fræði sem eru þegar öllu er á botninn hvolft einföld en á sama tíma svo flókin. Dale hjálpaði mér að ná betri tökum á streitu og fá betri yfirsýn yfir mitt líf, hvaða áherslur eru mér mikilvægar og hvers vegna þær eru það. Námið hefur fært mér þekkingu til að koma hlutum betur frá mér í ræðu og riti en ekki síður hefur það einnig gefið mér tækifæri til að vera betur í stakk búin að hjálpa öðrum. Það eitt að sjá þátttakendur blómstra sem áður voru að fölna er töfrum líkast,“ segir Rikka. 

Hvernig hefur líf þitt breyst eftir að þú kynntist Dale?

„Lífið er sífellt að breytast frá degi til dags en Dale hefur kennt mér að taka betur á móti breytingum og óvissu. Ég, eins og margir aðrir Íslendingar, hef þjáðst af stressi og streitu sem hefur haft gríðarlega mikil áhrif á mitt líf. Stress getur verið gott upp að vissu marki og virkað sem hvetjandi afl en sé farið í sífellu yfir ráðlagðan dagskammt er landslagið fljótt að breytast og streitan farin að vinna á móti þér. Stundum áttar maður sig ekki á því hvað streitan er farin að hafa mikil áhrif á mann fyrr en það kemur fram í líkamlegum einkennum eða stirðari samskiptum í kringum mann. Þá er líka tími til kominn að staldra við og endurmeta aðstæður. Ég vil meina að streitustjórnun sé án efa eitt af því mikilvægara sem maður getur tileinkað sér í lífinu.“

Áttu einhver góð ráð til þess að ná betri tökum á lífinu?

„Til þess að ná betri tökum á lífinu er fyrst og fremst mikilvægt að gera sér grein fyrir hvert maður vill stefna og ekki síður spyrja sig hvers vegna. Þegar löngun til breytinga kemur frá hjartanu þá er líklegra að við náum árangri með það sem við erum að vinna með hverju sinni. Það eru engir töfrar á bakvið betra líf, þetta er hreinlega bara vinna og hún hættir aldrei. Við þurfum í sífellu að vera að endurskoða ferðalagið okkar, þakka fyrir það sem er og breyta því sem betur má fara. Á námskeiðinu fá þátttakendur í hendur verkfæri sem þeir búa að alla ævina og mætti segja að þeir útskrifist með verkfæratösku sem uppfull er að lausnum og leiðum að betra lífi.“

Rikka segir að hugmyndin á bak við námskeiðið á Alicante sé margþætt. 

„Það er oft gott að fá næði til sjálfsvinnu og sjá lífið frá öðru sjónarhorni. Við festumst stundum í því að sjá ekki upp úr hnútunum okkar, en örlítið fjarlægð getur hvatt okkur til að sjá heildarmyndina í skýrara ljósi. Þarna um miðjan apríl erum við líka að koma undan vetri og því tilvalið að þjófstarta sumrinu í nærandi umhverfi.“

Á námskeiðinu verður dagurinn tekinn snemma og byrjar þjálfun klukkan hálfníu á morgnana og er unnið hörðum höndum til hádegis. 

„Á þessum fimm dögum styrkjum við sjálfsmyndina, eflum leiðtogahæfileika, bætum samskipti og náum betri tökum á streitu. Eftir hádegi er ansi margt í boði á þessu svæði, þátttakendur hafa valkosti um að liggja og hvíla lúin bein á ströndinni, fara í hjólaferðir um svæðið, leika golf nú eða versla og njóta góðs matar.“

Telur þú að fólk nái meiri árangri með því að vera í öðru umhverfi?

„Það er í rauninni mjög persónubundið í hvaða umhverfi einstaklingar blómstra helst. Það er nú aftur á móti svo að flestir ná betri árangri þegar þeir upplifa ró og næði til að einbeita sér að þeim verkefnum sem mestu máli skipta. Þessi ferð bíður einmitt upp á það að taka sér frí frá amstri dagsins og vinna í grunnstoðum hamingjunnar. Ég held að fólk muni alltaf ná meiri árangri í lífinu almennt með því að mæta á Dale Carnegie námskeið hvort sem það er hér heima eða á suðrænum slóðum. Dale Carnegie námskeiðin hafa verið kennd víða um heim í tæp hundrað ár með góðum árangri og mætti segja að þau ættu í raun aldrei eins vel við og einmitt í dag. Við búum í heimi þar sem þróun er ör og sífellt harðnandi samkeppni á vinnumarkaði, á sama tíma hafa mannleg samskipti breyst og jafnvel þó svo að samskiptaleiðirnar séu einfaldari og fleiri, þá upplifa fleiri sig einangraðri en áður.“

Hvers vegna heillaðist þú af Dale?

„Frá því ég man eftir mér þá hef ég heillast af mannlegu eðli og þá sérstaklega því sem tengir okkur sem manneskjur. Þó svo að við séum öll ólík á yfirborðinu þá erum við samt sem áður ansi lík, flest okkar bera sömu byrðarnar í bakpokanum en höldum samt að við séum eina fólkið í heiminum sem hefur upplifað það sem við geymum í nestisboxinu. Það er ekki fyrr en við förum að opna okkur og tala saman að við komumst að því að við erum ekki ein í heiminum. Hugmyndafræðin að baki Dale Carnegie endurspeglar á svo margan hátt einmitt hvað við erum lík, færir okkur verkfæri í hendur sem hjálpa okkur að vera það sem við erum í raun og veru og um leið eflandi leiðtoganám sem leggur áherslu á að hvetja aðra á jákvæðan máta í kringum okkur í samfélaginu.“

Rikka er víðförul og hefur ferðast út um allan heim. Hún kann vel að meta svæðið í kringum Alicante því það sé svo skemmtilegt að stunda útivist þar. 

„Ég vil helst alltaf vera á iði og finnst skemmtilegast að skokka meðfram ströndinni eða hjóla upp í hæðir og hvíla mig svo á ströndinni seinnipartinn. Mér finnst líka gaman að rölta á óhefðbundnari slóðir og uppgötva nýjar litlar götur, setjast niður með heimafólki og fá mér kaffi. Ég er svo heppin að búa að því að eiga sælkeravinkonu þarna úti sem er kölluð Saffran-drottningin en hún á og rekur tvo yfirburða veitingastaði þarna úti sem ómissandi er að heimsækja.“

Friðrika gekk upp grunnbúðir Everest fyrir rúmu ári síðan.
Friðrika gekk upp grunnbúðir Everest fyrir rúmu ári síðan. Ljósmynd/Einkasafn

En að öðru, nú ertu alveg að verða 40 ára. Hvernig leggst það í þig? Ætlar þú að gera eitthvað í tilefni dagsins?

„Jah, ég komst á snoðir um það að það væri verið að skipuleggja einhverja óvænta veislu fyrir mig á afmælisdeginum sjálfum, sem er að mestu ekkert óvænt lengur. Við vinkonurnar ætlum út að borða saman um helgina og svo næstu helgi þá erum við svo að fara hópur af frábærum stelpum á gönguskíðanámskeið á Ísafirði. Ég er svo að skipuleggja aðra veislu þannig að þetta verður heljarinnar afmælisár.

Það er skrýtið að hugsa til þess að ef ég myndi taka upp á því að týnast uppi á öræfum þá væri lýst eftir mér sem konu á fimmtugsaldri að öðru leyti leggst þetta ár alveg sérstaklega vel í mig.“

Sérstakur kynningartími verður haldinn fyrir þetta námskeið þann 7. febrúar nk. í húsnæði Dale Carnegie við Ármúla 11. 

Friðrika Hjördís Geirsdóttir.
Friðrika Hjördís Geirsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál