Áhuginn kviknaði í veðurfræði

Erna Katrín Árnadóttir flugumferðarstjóri segist vera í draumastarfinu sínu.
Erna Katrín Árnadóttir flugumferðarstjóri segist vera í draumastarfinu sínu. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Erna Katrín Árnadóttir flugumferðarstjóri í flugstjórnarmiðstöð segir að símenntun sé nauðsynleg. Hún segist vera alsæl með að hafa ákveðið að læra flugumferðarstjórn og segir að það sé alltaf gaman í vinnunni.

Orðið flugumferðarstjóri skýrir sig nokkurn veginn sjálft. Við sjáum til þess að umferð flugvéla og annarra loftfara gangi smurt og örugglega fyrir sig. Flugumferðarstjórar fá snemma í náminu sérhæfingu í turni, aðflugi eða yfirflugi. Í stuttu máli hefur starfsmaður í turni yfirumsjón með allri umferð á flugvellinum sjálfum, sem og flugtaki og lendingu. Aðflugið tekur þá við og kemur vélum annaðhvort inn til lendingar eða frá flugvellinum. Í áframhaldandi klifri véla tekur yfirflugið við og stýrir vélum í næsta aðliggjandi flugstjórnarsvæði.“

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að læra flugumferðarstjórn?

„Frá því að ég var barn hef ég verið heilluð af flugi, litið upp þegar ég heyrði í flugvél og skimað. Áhuginn hjá mér kviknaði þó fyrst af alvöru í kennslustund í veðurfræði við Háskóla Íslands þar sem kennarinn var að kynna okkur flugveðurfræði. Ég sótti um starf sem fluggagnafræðingur hjá Isavia en þar kynntist ég flugumferðarstjórninni betur. Að vinna í þessu skemmtilega umhverfi jók áhugann og þegar Isavia auglýsti eftir nemendum í flugumferðarstjórn sló ég til og sé ekki eftir því.“

Hvernig er þetta nám?

„Námið er þannig uppsett að nemendur byrja í almennu bóklegu námi. Að því loknu er bekknum skipt í hópa sem sérhæfa sig í turni, aðflugi eða yfirflugi. Bóklega náminu er áfram haldið í sérnáminu en þar er einnig rík áhersla lögð á verklega þáttinn sem fer fram í hermi. Þá tekur að lokum við starfsnám þar sem nemendur stýra flugumferð undir umsjón kennara.“

Hvernig líkaði þér í náminu?

„Þetta er mjög krefjandi og erfitt nám. Nemendur vinna náið með kennurum og fá stöðugt að kynnast nýjum raunverulegum verkefnum. Námið er ólíkt því sem ég hef áður kynnst en það er mjög lítið svigrúm gefið fyrir mistök og það þarf alltaf að hafa 100% einbeitingu. Námið er samt sem áður það skemmtilegasta sem ég hef stundað, gríðarlega fjölbreytt og engir tveir dagar eins.“

Hvaða eiginleikum þarf maður að vera gæddur til þess að geta orðið góður flugumferðarstjóri?

„Starfinu fylgir mikil ábyrgð og mikilvægt er að geta tekið réttar ákvarðanir hratt. Flókin vandamál geta komið upp undir mikilli pressu og þá þarf oft að grípa í plan B, C eða jafnvel D.“

Hvernig er andrúmsloftið í vinnunni?

„Stemningin í vinnunni er mjög góð og félagslífið öflugt. Einnig er gaman að eiga í samskiptum við flugmenn og aðra flugumferðarstjóra um allan heim.“

Hvernig líkar þér að vinna sem flugumferðarstjóri?

„Ég er með sérhæfingu í yfirflugi og starfa því í flugstjórnarmiðstöðinni sem staðsett er í Reykjavík. Staðsetningin og vaktavinnan henta mér mjög vel. Ég hlakka til að mæta í vinnuna og geri mér grein fyrir því að það er ekki sjálfgefið.“

Hvar sérðu sjálfa þig eftir fimm ár?

„Símenntun er mikilvægur hluti af starfinu, enda reglur og tækni í sífelldri þróun. Ég verð komin með aukna reynslu og meiri réttindi og held áfram að rokka þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál