Er hægt að taka barnið af mér?

Íslensk kona veltir fyrir sér staðgöngumæðrun og hverjar reglurnar séu.
Íslensk kona veltir fyrir sér staðgöngumæðrun og hverjar reglurnar séu. mbl.is/Thinkstock

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er að velta fyrir sér staðgöngumæðrun. 

Sæl

 

Ég er 35 ára kona sem á ekki börn en hef áhuga á að eignast mín eigin börn, a.m.k. eitt. Ég komst að því fyrir stuttu að ég gæti ekki gengið með börn og fór því að „googla“ staðgöngumæðrun. Ég veit að það er ekki löglegt á Íslandi en ef við förum í gegnum ferlið í útlöndum lendum við þá í vandræðum þegar við komum til Íslands? Væri hægt að taka barnið af mér?

 

Bestu kveðjur,

Ein barnlaus

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl Ein barnlaus!

Það er rétt hjá þér að staðgöngumæðrun er óheimil samkvæmt íslenskum lögum. Hins vegar eru dæmi um íslensk pör sem hafa þegið þjónustu staðgöngumóður erlendis þar sem hún er víða viðurkennd og lögleg. Þú gætir hins vegar þurft að horfast í augu við það að íslensk yfirvöld viðurkenni ekki slík foreldratengsl ákveðir þú að fara þá leið.

Það er dæmi um hugrakkt íslenskt par sem leitaði þessarar leiðar. Þá var gjafakynfrumum úr karli og konu komið fyrir í móðurlífi staðgöngumóður í ríki Bandaríkjanna þar sem staðgöngumæðrun er fullkomlega lögleg. Parið lenti hins vegar í vandræðum þegar heim var komið en Þjóðskrá Íslands neitaði að skrá parið sem foreldra barnsins. Málið fór alla leið fyrir Hæstarétt Íslands sem staðfesti ákvörðun Þjóðskrár og ræddi sérstaklega um að fjölskyldutengsl hefðu ekki skapast á milli parsins og barnsins að íslenskum lögum.

Persónulega finnst mér þetta heldur gamaldags viðhorf þar sem fjölskyldutengsl geta verið alls konar og stofnast með ýmsum hætti. Lögin eru hins vegar svona.

Þú segir ekki hvort notast verður við eggfrumur úr þér við staðgöngumæðrunina en það gæti skipt máli.  Í máli parsins sem ég nefndi var m.a. horft til þess að engin líffræðileg tengsl væru á milli pars og barns. Ef notuð væri eggfruma úr þér þá væru líffræðileg tengsl til staðar við barnið og því stæðirðu mögulega sterkari að vígi gagnvart skráningu á foreldratengslum. Ég get þó ekkert fullyrt í þeim efnum.

Þú spyrð hvort að barnið verði tekið af þér. Í framangreindu máli fékk parið ekki forsjá barnsins. Barnaverndarnefnd tók við forsjá þess en parið hafði hins vegar barnið hjá sér áfram á grundvelli fóstursamnings, þ.e. barnið er enn í umsjá parsins (foreldra sinna) en það hefur ekki formlega forsjá þess. Það er erfitt að segja til um hvort að þetta yrði reyndin en það er hins vegar mögulegt.

Margir telja að þetta algjöra bann við staðgöngumæðrun hér á landi sé tímaskekkja. Það er sérstaklega áhugavert að horfa á þetta úrræði sem staðgöngumæðrun er í tengslum við ættleiðingar. Við ættleiðingu eru oftast nær engin líffræðileg tengsl á milli ættleidds barns og foreldra en sú leið til barneigna er þó að fullu lögleg og viðurkennd hér á landi. Ég tel aðeins tímaspursmál þar til þessu verður breytt.

Gangi þér allt í haginn!

Kær kveðja, Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu á smartland@mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál