Fótbraut sig á ögurstundu

Svanlaug Jóhannsdóttir er syngjandi markþjálfi sem opnaði nýverið OstreoStrong stöð …
Svanlaug Jóhannsdóttir er syngjandi markþjálfi sem opnaði nýverið OstreoStrong stöð í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Svanlaug Jóhannsdóttir er syngjandi markþjálfi sem hefur sinnt alls konar spennandi verkefnum með það að markmiði að gleðja og bæta líðan fólks. Hún og eiginmaður hennar, Örn Helgason, hafa opnað OsteoStrong í Borgartúni. Hún þekkir skin og skúrir í lífinu, en á síðasta ári braut hún sig illa á fæti, á sama tíma og henni fannst hún tilbúin fyrir allt í lífinu. 

„Í söngnum hef ég alltaf verið að hvetja fólk til þess að fara vel með kjarnann, tilfinningarnar, sem fólk er oft ekkert að pæla mikið í. Á einhvern stórskrýtinn hátt, en í mínum huga algerlega í beinu framhaldi, er mér ekkert ofar í huga þessa dagana en að hvetja fólk til þess að styrkja annan kjarna, beinagrindina, sem fæstir gefa mikinn gaum áður en upp kemur vandamál.“

Á námskeiði hjá Tony Robbins

Svanlaug var ásamt Erni eiginmanni sínum á námskeiði hjá Tony Robbins í apríl á síðasta ári þegar hún heyrði fyrst minnst á OsteoStrong-stöðvarnar. „Ég er ein af þeim sem eru alltaf að læra eitthvað. Ef ég er ekki í skóla, þá er ég að taka námskeið eða í söngtímum. Tony Robbins var með frábært námskeið og í lokin kynnti hann fyrir fólki alls kyns leiðir til þess að efla heilsuna því ef hún er góð verður allt annað svo miklu auðveldara. OsteoStrong hefur þróað tækni sem styrkir bein og vöðva. Með einungis 60 sekúndna átaki einu sinni í viku sjá meðlimir ótrúlegan árangur. Tækin hafa verið í þróun í ein tuttugu ár en fyrirtækið er nýtt. Það eru um sjötíu stöðvar í Bandaríkjunum en þær fyrstu í Evrópu voru opnaðar á síðasta ári.“

60 sekúndur vikulega

Svanlaug hefur ásamt eiginmanni sínum opnað OsteoStrong-stöð í Borgartúni 24 fyrir fólk sem vinnur löngum stundum við tölvur.

„Mér finnst svo skemmtilegt að fara á námskeið því þau opna fyrir manni heim sem maður hefði ef til vill annars aldrei kynnst. Ég fór til dæmis ólétt og komin níu mánuði á leið á tveggja daga námskeið í argentínskum tangósöng. Þá leið mér eins og ég væri komin heim, tónlistarlega séð. Ég fæddi dóttur mína og svo sex mánuðum síðar vorum við litla fjölskyldan komin til Argentínu að læra allt um tangó í nokkra mánuði. Sama gerðist á þessu námskeiði hjá Tony Robbins. Sem hluti af verkefnum námskeiðsins höfðum við Örn séð fyrir okkur ýmislegt sem við vildum sjá í okkar framtíð. Við vildum til dæmis skapa tækifæri til þess að vera meira saman og vanda okkur við heilbrigðan lífsstíl. Ég hélt að hugmyndin að því sem við værum að tala um myndi kannski koma til okkar eftir svona nokkur ár en um leið og við heyrðum fjallað um fyrirtækið vissi ég að þetta væri eitthvað sem mig langaði að fá að deila með samferðafólki mínu. Fólk á Íslandi vinnur yfirleitt mikið og tíminn okkar er dýrmætur. Ég reyni að vera jafn mikið og mögulegt er með börnunum mínum fyrir utan vinnu en svo á ég mér líka mörg verðmæt áhugamál og vini. Með OsteoStrong erum við með mörg stutt inngrip sem bera árangur svo um munar fljótt frá upphafi ástundunar.“

Vildi verða leikkona þegar hún var ung

Það er augljóst að Svanlaug hefur gaman af því að skapa, búa til og miðla. „Það er í rauninni sama í hvaða iðnaði ég er. Þegar ég var ung vildi ég verða leikkona eftir að ég kynntist því að leika á móti Eddu Heiðrúnu Backman í Stundinni okkar. Mér var greitt, ég fékk förðun, skemmtilega búninga, góðan mat og síðan þótti mér toppurinn yfir i-ið að fá kaup fyrir að skemmta mér. Afa mínum fannst það ekki góð hugmynd og sagði að leikkonur gætu varla gefið börnunum sínum að borða fyrir kaupið sitt. Ég svaraði afa því síðar að ég ætlaði að verða leikkona með hlutverk. Ætli ég hafi ekki meint það að ég ætlaði að vera listræn á eigin forsendum.

Ég lærði viðskiptafræði eftir menntaskóla því ég vildi geta stýrt eigin verkefnum. Síðar tók ég meistaranám í Listaháskólanum í sköpun og frumkvöðlastarfi (New audiences and innovative practice). Ég lærði markþjálfun í Opna háskólanum og svo kom ég að rekstri skóla fyrir frumkvöðla. Í raun hafa flest verkefnin miðað að því að fá fólk til að líða á einhvern hátt betur. Í listinni á það sama við nema ég fæ pláss til að vera einbeittari til að bjóða öllum að stíga inn í draumana sína og njóta þess að vera tilfinningaverur. Það var því ekki langt frá mínum plönum um að auka vellíðan fólks að setja á laggirnar OsteoStrong. Mér finnst það fullkomið framhald fyrir mig til að láta gott af mér leiða í heiminum.“

Hvernig muntu áfram flétta saman leiklist, markþjálfun og söng?

„Tækifærin æxluðust bara þannig að ég er óvart að opna fyrirtæki í janúar og frumsýna í Tjarnarbíói verk eftir sjálfa mig í mars. Það heitir „Í hennar sporum“ og þar segi ég sögur af konum sem ég lít upp til, fer í skóna þeirra og syng lög sem tengja sögurnar saman. Það er ofboðslega metnaðarfullt starf unnið í Tjarnarbíói og meðal sjálfstæðra hópa í sviðslistum á Íslandi. Það er mér ótrúlega mikill heiður að fá að taka þátt í því. Hefði ég valið að hafa þetta svona á næstum því sama tíma? Nei. Er ég samt klikkað spennt yfir því? Já! Það eru flestir listamenn í fleiri en einni vinnu á Íslandi. Mér finnst ekkert verra að fá að brenna fyrir fleirum en einu starfi.“

Svanlaug frumsýnir verk í mars á þessu ári sem heitir …
Svanlaug frumsýnir verk í mars á þessu ári sem heitir „Í hennar sporum“. Þar segir hún sögur af konum sem hún lítur upp til, fer í skóna þeirra og syng lög sem tengja sögurnar saman. Ljósmynd/Aðsend

Flutti til Spánar árið 2011

Svanlaug og Örn fluttu til Spánar árið 2011 þar sem hann stýrði öflugu kjötverkunarfyrirtæki og hún lagði stund á fjarnám frá Listaháskóla Íslands í meistaranáminu sínu ásamt því að syngja og koma fram á Spáni. Einhvern veginn nær hún síðan að sameina allt sem hún hefur lært í því sem hún tekur sér fyrir hendur hverju sinni.

Þau hjónin eiga tvö börn saman; Ísgerði sem er fædd árið 2010 og Starkað sem er fæddur 2013. Fjölskyldan er samrýnd og börnin leika stórt hlutverk í lífi foreldra sinna.

„Það var gott að vera á Spáni um tíma. Ég stundaði söngnám hjá flottri óperusöngkonu í Madríd. Ég kynntist einnig aðila hjá sinfóníuhljómsveit í bæ stutt frá þar sem ég bjó. Í gegnum þann kunningsskap fékk ég tækifæri til að koma fram og syngja reglulega með heilli sinfóníuhljómsveit. Fékk að klæða mig upp í stóra fallega kjóla, sem ég hef kunnað að meta frá því ég var ung að taka mín fyrstu spor í sviðslistum. En mér fannst gott að koma aftur heim árið 2016.“

Fótbraut sig á ögurstundu

Svanlaug er þakklát fyrir lífið og vill gera vel við sig og aðra. En verkefnin hafa verið bæði stór og smá í hennar lífi. „Ég er svo ótrúlega vel gift. Við höfum lent í ýmsu á okkar tæpu tíu árum saman en alltaf tekist að komast svo dásamlega í gegnum það þó að sorg eða vonbrigði hafi bankað upp á. Í ágúst vorum við nýbúin að fá samþykkt einkaleyfið okkar fyrir Ísland á OsteoStrong. Í tæp þrjú ár var ég búin að eiga erfitt með hreyfingu út af erfiðri mjöðm í kjölfar fæðingar. Hún var loksins hætt að trufla mig. Mér fannst ég pínulítið eiga heiminn, minn tími væri kominn og sá fyrir mér að ég myndi stofna þetta fyrirtæki í frábæru formi og allt skipulagt í þaula. Ég var að fara að sýna sýningu og halda fyrstu tónleikana mína í Hörpu. Ég fór í sjö tíma myndatöku fyrir sýninguna og svo beint upp í vél til Las Vegas þar sem ég fór á ráðstefnu OsteoStrong um sterk bein. Ráðstefnan var frábær og það var yndislegt að vera umkringdur allri þessari hlýju sem eigendur OsteoStrong velja að sýna náunganum. Ég var svo óheppin að misstíga mig og brjóta mig mjög illa á sléttu gólfi og sléttbotna skóm um hábjartan dag. Ég endaði í þriggja tíma aðgerð og var í tæpa viku á spítala í Las Vegas. Þar bjargaði Örn minn mér alveg með ótrúlegri hlýju og umhyggjusemi. Svo kom ég heim og hélt að ég gæti haldið í gamla planið, bara á hækjunum. Þetta var slæmt beinbrot, ég þurfti að halda fast í æðruleysið og það er enn langt í að fóturinn jafni sig. En það leynast gjafir í allri reynslu. Ég hlakka til að opna stöðina sem er búin til með það í huga að fólki hlakki til að mæta til okkar, að vinna í heilsu sinni fyrir ókomin ár. Ég ætla allavega aldrei aftur að brjóta bein!“  

„Ég var svo óheppin að misstíga mig og brjóta mig …
„Ég var svo óheppin að misstíga mig og brjóta mig mjög illa á sléttu gólfi og sléttbotna skóm um hábjartan dag. Ég endaði í þriggja tíma aðgerð og var í tæpa viku á spítala í Las Vegas.“ Ljósmynd/Aðsend
„Þetta var slæmt beinbrot, ég þurfti að halda fast í …
„Þetta var slæmt beinbrot, ég þurfti að halda fast í æðruleysið og það er enn langt í að fóturinn jafni sig.“ Ljósmynd/Aðsend

Rannsóknir hafa sýnt að með reglulegri ástundun OsteoStrong losnar fólk við mikið af verkjum í stoðkerfinu, hnjám og baki. Ástundun styrkir bein og vöðva og hefur jákvæð langtímaáhrif á blóðsykur. OsteoStrong er ekki síst fyrir íþróttamenn sem vilja ná samkeppnisforskoti. „Þegar við vinnum með innsta kjarnann okkar, beinin, hefur það áhrif á svo margt annað því að styrkur vöðvanna takmarkast af styrk beinanna,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál