Hvað er framtíðarleiðtoginn að hugsa um?

Tinna Traustadóttir var fundarstjóri á ráðstefnunni.
Tinna Traustadóttir var fundarstjóri á ráðstefnunni.

Ráðstefnan RumMBA var haldin á dögunum á Nauthóli og var þema hennar Framtíðarleiðtoginn. Ráðfstefnan var ætluð fyrir nemendur og fyrrverandi nemendur MBA í Háskólanum í Reykjavík. Tinna Traustadóttir viðskiptastjóri hjá Landsvirkjun var fundarstjóri en hún kláraði MBA-námið 2017. Hún segir að margt forvitnilegt hafi komið fram á ráðstefnunni eins og til dæmis að framfaramiðað hugarfar skipti mjög miklu máli.

„Eitt af því sem fjallað var um er framfaramiðað hugarfar (e. growth mindset) en kjarninn í því er að láta hugarfarið ekki koma í veg fyrir að við náum árangri og settum markmiðum. Einstaklingar sem búa yfir framfaramiðuðu hugarfari kunna að meta áskoranir, sýna þrautseigju þegar á móti blæs, sækja í endurgjöf og læra af gagnrýni. Framfarir geta tekið á en fókusinn þarf að vera á að vera stöðugt að læra og bæta sig. Einnig þarf að vera skilningur fyrir hendi á því að mistök séu nauðsynlegur hluti af lærdómsferlinu. Leiðtogar sem búa yfir framfaramiðuðu hugarfari líta á áskoranir sem tækifæri og eru lausnamiðaðir. Þeir sem eru með fastheldið hugarfar (e. fixed mindset) hafa tilhneigingu til þess að einblína meira á vandamál og líta á áskoranir sem ógn,“ segir Tinna.

Einn af þeim sem var með erindi á ráðstefnunni var Haukur Ingi Guðnason sálfræðingur hjá Gallup.

„Hann fór enn fremur yfir það hvernig samskipti eru lykillinn í að skapa framfaramiðað hugarfar. Þannig væri mikilvægt að í starfsumhverfinu væri litið jákvætt á breytingar og lögð áhersla á hið jákvæða í áskorunum. Einnig að lögð væri áhersla á ferlið að markmiðinu og að stjórnendur hrósuðu fyrir ferlið, ekki bara niðurstöðuna. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það hugarfar sem ríkir á vinnustöðum hefur áhrif á líðan, frammistöðu og samskipti starfsmanna. Þannig er ávinningurinn af framfaramiðuðu hugarfari m.a. jákvæð áhrif á viðbrögð við mótlæti, viðhorf til breytinga, sköpunargleði og liðsheild innan vinnustaða.“

-Hvað þurfa framtíðarleiðtogar að hafa í huga til að ná árangri?

„Framtíðarsýn og skýr stefna skipta miklu máli. Það sem einkennir þá leiðtoga sem ná árangri við innleiðingu stefnunnar og breytingastjórnun eru þættir á borð við samskipti og tilfinningagreind. Ytri samskipti eru mikilvæg en oft á tíðum er ekki nægilegur fókus á innri samskipti, sem er ekki síður mikilvægt. Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, talaði á þessum nótum og lagði áherslu á mikilvægi þess að vera með stöðugt upplýsingaflæði. Í teymisvinnu eru opin og hreinskiptin samskipti lykilatriði en rannsóknir hafa sýnt að um 70% starfsfólks sitja á skoðunum sínum. Þannig ná teymi mestum árangri þar sem náðst hefur að byggja upp traust og ólík sjónarmið fá að takast á. Framtíðarleiðtoginn þarf að hafa góða tilfinningagreind, þ.e. búa yfir sjálfsþekkingu, sjálfsstjórn, ástríðu, félagsfærni og síðast en ekki síst að geta tekið tillit til annarra við ákvarðanatöku,“ segir hún.

-Hvernig hefur tæknin áhrif á framtíðarleiðtogann?

„Samfara hraðri framþróun í upplýsingatækni hefur vinnumarkaðurinn tekið breytingum. Þannig þarf framtíðarleiðtoginn að vera gæddur mikilli aðlögunarhæfni og vera tilbúinn til þess að læra upp á nýtt. Starfsfólk gerir ríkari kröfur um t.d. tilgang með starfi sínu, að þróast og eflast, nánum samskiptum við yfirmanninn, endurgjöf og stuðningi. Gerðar eru kröfur um að yfirmaðurinn sé ekki bara stjórnandi heldur leiðtogi og þjálfari. Þannig mætti segja að mannlegir eiginleikar eigi eftir að skipta meira máli í þeim hvirfilbyl breytinga sem aukin sjálfvirknivæðing hefur í för með sér.“

- Hvaða nýju hugmynd fékkstu af því að hlusta á erindin?

„Elísabet Margeirsdóttir vann það ótrúlega afrek að ljúka keppni í 400 km hlaupi í Gobi-eyðimörkinni í Kína, á innan við 100 klukkustundum. Aðstæðurnar voru mjög krefjandi þar sem umhverfið var framandi, kalt og dimmt var á köflum og lítið sofið. Elísabet brýndi áheyrendur til þess að hugsa stórt og setja sér nógu geggjuð markmið. Held að það standi upp úr hjá mér en vandast málið hvaða markmið skuli verða fyrir valinu,“ segir Tinna.

Sindri Sigurjónsson, meðeigandi og stjórnarformaður Expectus.
Sindri Sigurjónsson, meðeigandi og stjórnarformaður Expectus.
Alda Sigurðardóttir, stjórnendaþjálfi og eigandi Vendum
Alda Sigurðardóttir, stjórnendaþjálfi og eigandi Vendum
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Eva Einarsdóttir og Jarþrúður Ásmundsdóttir mættu.
Eva Einarsdóttir og Jarþrúður Ásmundsdóttir mættu.
Edda Hermannsdóttir leiðir markaðs- og samskiptasvið Íslandsbanka.
Edda Hermannsdóttir leiðir markaðs- og samskiptasvið Íslandsbanka.
Elísabet Margeirsdóttir, ofurhlaupari og næringarfræðingur.
Elísabet Margeirsdóttir, ofurhlaupari og næringarfræðingur.
Haukur Ingi Guðnason, viðskiptastjóri hjá Gallup.
Haukur Ingi Guðnason, viðskiptastjóri hjá Gallup.
mbl.is