„Þetta nám er gott veganesti fyrir hönnuði“

Sigrún Kristjánsdóttir Lyngmo umsjónarmaður Fatatæknináms.
Sigrún Kristjánsdóttir Lyngmo umsjónarmaður Fatatæknináms. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nám í fatatækni opnar margar dyr, að sögn Sigrúnar Kristjánsdóttur Lyngmo. Sumir hafa það í puttunum að vera lagnir í saumskap en æfingin skapar meistarann.

Það er ekki að ástæðulausu að heimur tísku og fatagerðar heillar marga enda sameinast þar handverk og listsköpun. Þá er um vaxandi grein að ræða og ótal tækifæri í boði fyrir fólk sem kann að sauma föt, útbúa snið og þekkir undirstöður fatahönnunar og fatagerðar.

Er því ekki að furða að nám í fatatækni við Tækniskólann skuli njóta mikilla vinsælda. Sigrún Kristjánsdóttir Lyngmo, kennari og fagstjóri við fataiðnbraut, segir leiðir útskrifaðra nemenda hafa legið víða: „Ég veit t.d. til þess að þeir hafi starfað í lengri eða styttri tíma hjá íslenskum framleiðendum útivistarfatnaðar eins og 66°Norður og Cintamani, og svo eru margir sem reka litlar saumastofur, ýmist sjálfstætt eða í samvinnu við tískuverslanir og sinna þar breytingum og sérsaumi,“ segir hún og bætir við að þá séu ótaldir þeir sem hafa farið í framhaldsnám bæði innanlands og erlendis.

Fatatæknisnámið spannar tvö ár og geta nemendur bætt við sig iðnnámi í klæðskurði eða kjólasaum sem tekur fjórar annir til viðbótar, þar með talið 16 vikna starfsþjálfun í viðeigandi fyrirtæki.

„Á fyrstu tveimur árunum þurfa nemendur að ljúka átta vikna þjálfun á vinnustað við hæfi og að auki leggja stund nokkur grunnfög eins og íslensku, ensku og stærðfræði. Velja sumir að bæta við sig bóklegum fögum og þannig fullnægja skilyrðum stúdentsprófs,“ útskýrir Sigrún en tekur fram að margir nemendur hafi þegar lokið stúdentsnámi annars staðar og fari í nám í fatatækin til þess að öðlast dýpri þekkingu á fatagerð s.s. til að standa betur að vígi þegar kemur að því að sækja um námsvist við erlenda hönnunarskóla.

Taka mál og gera snið

„Nemendur taka áfanga í saumskap, efnisfræði, búningasögu og tískuteikningu og þegar sá grunnur er kominn hefst verklegt nám í sníðagerð dömu og herra, og æfingar í að sauma herra- og dömufatnað eins og pils, skyrtur, og buxur. Þessu fylgir að læra að taka mál og yfirfæra yfir á snið fyrir ýmiss konar flíkur.“

Óhætt er að mæla sérstaklega með náminu fyrir þá sem vilja leggja fatahönnun fyrir sig. „Þetta nám er gott veganesti fyrri hönnuði enda öðlast þeir betri skilning á hvað er gerlegt eða praktískt þegar kemur að því að setja sjálfa flíkur saman,“ segir Sigrún. „Auk þess að starfa við hönnun og saumaskap hafa margir nemendur okkar fundið áhugaverð störf s.s. við stjórnun innkaupa hjá heildsölum og sem verslunarstjórar tískubúða. Þar nýtist þeim vel að hafa m.a. góða þekkingu á efnum, vönduðum saumskap og sniðum.“

Þegar litið er yfir sviðið er ekki annað að sjá en að mörg áhugaverð tækifæri muni bíða þeirra sem hafa menntun á sviði fatatækni. Sigrún nefnir sem dæmi aukinn áhuga á íslenskri fatahönnun og sérsaumi og vaxandi áherslu neytenda á að kaupa fatnað sem er í senn vandaður, einstakur og framleiddur þannig að valdi sem minnstri sóun og sem minnstum neikvæðum áhrifum á samfélag og náttúru. „Samhliða þessu er fólk farið að gera sér betur grein fyrir, og lærir um leið að meta, þá vinnu sem liggur að baki vandaðri flík, og þá hæfileika sem þarf til að taka mál, útbúa snið og sauma pils eða jakkaföt.“

Sinna náminu af dugnaði

Til að vera tekinn inn í námið er ekki gerð krafa um neina sérstaka þjálfun eða menntun að grunnskólaprófi undanskildu og segir Sigrún að allur gangur sé á því hve mikla æfingu nýnemar hafa í saumi og hönnun. „Sumir hafa fengið gott tækifæri til að sauma í handavinnutímum í grunnskóla á meðan aðrir hafa útskrifast frá textíldeild frá framhaldsskóla – sumir eru nýbúnir með grunnskólann og aðrir búnir að útskrifast úr háskóla,“ útskýrir hún. „Árangurinn í fatatæknináminu ræðst þó fyrst og fremst af því að nemendur séu duglegir að vinna og leysa þau verkefni sem þeim eru sett fyrir, að þeir kunni að skipuleggja tíma sinn vel og hafi mikinn áhuga á náminu.“

Sigrún segir aga og gott skipulag vera ómissandi þegar kemur að því að vinna störf tengd fatatækni, kjólasaum og klæðskurði. „Þar skiptir öllu að geta staðið við þau loforð sem búið er að gefa viðskiptavininum og boðar ekki gott ef að flíkin hans er ekki tilbúin á umsömdum tíma.“

Þá skemmir ekki fyrir að hafa ákveðna hæfileika frá náttúrunnar hendi þegar kemur að saumskap og segir Sigrún að það sjáist stundum strax í fyrstu tímunum hverjir „hafa þetta í puttunum,“ eins og hún orðar það. „En það breytir ekki því að allir geta náð góðum tökum á þessu fagi og eins og með allt annað er það æfingin sem skapar meistarann.“

Nemendur þurfa ekki, frekar en þeir vilja, að fjárfesta í saumavél. „Hér við skólann hafa þau greiðan aðgang að iðnaðarsaumavélum og öðrum vélakosti sem nýtist við námið. Nemendur þurfa aðeins að kaupa pakka með nokkrum ómissandi saumaáhöldum sem kostar um 15.000 kr. og nýtist þeim alla ævi. Við sköffum efni fyrir skólaverkefni en á seinni stigum námsins þegar nemendur byrja að sauma á sjálfa sig eða á viðskiptavini þá skaffa þau efnið sjálf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál