6 ráð fyrir þá sem vinna heima

Finndu þér góðan stað til að sinna vinnunni heima.
Finndu þér góðan stað til að sinna vinnunni heima. Ljósmynd/Unsplash

Æ fleiri hafa brugðið á það ráð að vinna heima til að forðast það að smitast af kórónuveirunni. Aðrir eru heima í sóttkví og þurfa því að sinna vinnunni heiman frá sér.

Það sjá það kannski margir í hillingum að vinna heima hjá sér og það hljómar kannski einstaklega vel; sitja með kaffibolla á náttfötunum að sinna verkefnum dagsins. Það verður hins vegar þreytt til lengdar og kannski verða afköstin töluvert minni. 

Takmarkaðu truflanir

Ef þú hangir ekki á Instagram í vinnunni eða ert með Netflix í gangi þar, þá ættirðu ekki að gera það þegar þú vinnur heiman frá þér. Truflanir eru alltaf truflanir, sama hvar þú sinnir vinnunni. Best er að setja sjálfum sér skýr mörk til að sinna vinnu sinni almennilega. 

Ekki festa þig við 9-5

Þetta ráð fer reyndar eftir því hvernig vinnu þú sinnir. Ef það skiptir ekki máli fyrir þig hvort þú vinnur á hefðbundnum skrifstofutíma ættirðu að finna út á hvaða tíma dags þú ert með mesta orku og einbeitingu.

Ekki hanga á náttfötunum allan daginn 

Gerðu þig tilbúinn í daginn, farðu á fætur, klæddu þig og burstaðu tennur. Þá sendirðu líkamanum skilaboð um að þú sért að fara að' vinna en ekki hanga heima og hafa það notalegt. Þú þarft ekkert að fara í kjól eða jakkaföt, bara föt sem þú gætir farið út úr húsi í. 

Taktu pásu reglulega

Það getur verið freistandi að hamast áfram án allra truflana þegar þú ert heima. Það er þó betra að taka sér almennilegar pásur og standa upp. Það er líka lykilatriði að borða hádegismatinn ekki ofan í vinnunni og hugsa um eitthvað annað en vinnuna á meðan þú borðar. Fyrst þú ert heima, kannski klæddur í þægileg föt, gætirðu líka tekið þér pásu til að teygja á og gera jógaæfingar. 

Hafðu sérstakan vinnustað heima

Sumir geta unnið í sófanum eða jafnvel uppi í rúmi. Fyrir marga veit það ekki á gott og afköstin verða ekki eins og þau eiga að vera. Til að tryggja góð afköst ættirðu að finna þér góðan stað heima hjá þér til að sinna vinnunni. Ekki allir eru svo heppnir að eiga skrifstofu heima hjá sér, en borðstofuborðið eða eitthvert annað herbergi ætti að duga.

Nýttu þér sveigjanleikann 

Reglur eru gerðar til að brjóta þær. Veldu þér þau viðmið sem henta þér og þínum lífsstíl best. Ef það hentar þér mjög vel að taka æfingu í hádeginu er það fínt fyrir þig. Ef það hentar þér að vinna uppi í rúmi fyrir hádegi, gerðu það.

Ljósmynd/Unsplash
mbl.is