„Hjarta mitt er hjá fólkinu mínu á Ítalíu“

Ástríður Jósefína hefur teiknað og málað frá því hún man …
Ástríður Jósefína hefur teiknað og málað frá því hún man eftir sér. mbl.is/Árni Sæberg

Listmálarinn Ástríður Jósefína Ólafsdóttir ber það með sér að hafa fengið alþjóðlegt uppeldi. Hún er bein í baki, talar íslensku með ítölskum hreim og segist vera barn tveggja landa; Íslands og Ítalíu. 

Hún ákvað að flytja til Íslands í lok ársins 2019. Þá hafði hún kynnst ástinni á Íslandi, Eyþóri Arnalds, en upprunalega ætlaði hún að flytja hingað til að vinna að nýjasta verki listaverkinu sínu; um dyggðirnar sjö.

Hún segist kunna að meta allt við Ísland, þó að hugur hennar sé að stórum hluta hjá fjölskyldu sinni og ástvinum á Ítalíu í dag. 

„Ég er fædd á Íslandi. Foreldrar mínir, sem störfuðu báðir sem óperusöngvarar, fluttu þegar ég var eins árs okkur fjölskylduna til Þýskalands, þar sem við bjuggum í fimm ár saman. Eftir þann tíma fluttum við til Ítalíu, þar sem ég hef búið þar til nýverið.“

Var hamingjusamt barn sem elskaði náttúruna

Ástríður Jósefína segir æskuminningar sínar frá Ítalíu einstakar. Þar sem hún óst upp í náttúruparadísinni í Appennini Tosco-Emiliani. 

„Ég var einstaklega hamingjusamt barn sem elskaði náttúruna meira en allt annað í lífinu. Æska mín einkenndist af leik úti í náttúrunni, þar sem ég gekk á fjöll, lék mér í trjánum og gerði það sem hugurinn leitaði í hverju sinni.“

Ástríður segir að þótt hún hafi verið ánægð sem barn hafi hún fundið að hún væri aðeins öðruvísi en hinir krakkarnir á Ítalíu. 

Ástríður Jósefína er hæfileikaríkur málari sem flutti nýverið til landsins …
Ástríður Jósefína er hæfileikaríkur málari sem flutti nýverið til landsins frá Ítalíu. mbl.is/Árni Sæberg

„Á Ítalíu var ég alltaf öðruvísi. Ég var í raun skrítna íslenska stelpan sem átti óperusöngvara sem foreldra og borðaði harðfisk sem snakk. Það fyndna er að svo þegar ég er komin hingað, þá er ég skrítni málarinn sem bjó á Ítalíu sem talar íslensku með ítölskum hreim!

Þrátt fyrir þetta þá gera tuttugu og fjögur ár á Ítalíu það að verkum að maður verður Ítali. 

Ég á dásamlega fjölskyldu hér og fallegar minningar úr Mosfellsdalnum úr æsku. Þar sem ég og bræður mínir tveir, lékum okkur á sumrin hjá ömmu og afa. Fyrir mér var það að koma til Íslands á sumrin eins og fyrir aðra krakka að heimsækja Disney-garðinn. Þar sem við lékum okkur úti í náttúrunni, veiddum fisk og böðuðum okkur í ánum, gengum á fjöll, bökuðum kökur úr deigi eða mold og aðstoðuðum fullorðna fólkið í garðinum. Er það ekki einmitt svona sem paradís á jörðu er lýst? Það var einmitt þessi tilfinning sem dró mig til landsins.“

Móðurmissirinn kenndi henni að lífið er ekki sjálfsagt

Ástríður Jósefína bjó fyrst í Monghidoro í Appennini sem er lítið þorp sem hefur orðið frægt fyrir íbúa á borð við Gianni Morandi. Hún var fjórtán ára að aldri þegar hún byrjaði að ferðast með strætó til Bologna, þar sem menning og listir, menntun og iðandi mannlífið heillar fólk víða um heiminn. 

„Það tók mig þrjár stundir að komast í og úr skólanum. Þannig að þegar ég varð átján ára, ákvað ég að flytja til borgarinnar. Í Bologna bjó ég með þremur öðrum stúlkum sem voru  aðeins eldri en ég. En dagarnir voru langir og vikan ströng, þar sem ég vann með skólanum þrisvar í viku til að eiga í mig og á.“

Eftir námið brá til tíðinda í fjölskyldunni þar sem móðir Ástríðar Jósefínu var komin með krabbamein. 

„Á þessum tíma hafði mamma greinst með krabbamein og um sumarið eftir útskrift varð hún veikari svo ég ákvað að flytja til hennar og aðstoða eins vel og ég gat. Veikindi mömmu voru mér rosalega erfið. En þau kenndu mér líka margt. Þau kenndu mér að lífið er hér og nú og að maður skyldi ekki taka því sem sjálfsögðum hlut. Eins kenndi þetta mér að best væri kannski fyrir mig að gera bara það sem ég elskaði að gera. Eitthvað sem tengdist þá listum og menningu. Þar áður hafði ég ákveðið að skera mig aðeins úr fjölskyldunni og fá mér skynsamlega vel borgaða vinnu. Ég vildi sem sagt ekki feta leið foreldra minna.“

Ástríður Jósefína segir mikla vinnu að vera listmálari.
Ástríður Jósefína segir mikla vinnu að vera listmálari. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir fráfall móður sinnar fékk Ástríður forræði yfir tveimur yngri bræðrum sínum og bjuggu þau í húsi móður hennar þar sem hún tók kornung við ábyrgð á fjölskyldunni. Hún keyrði daglega í skólann, vann og sá um bræður sína eftir bestu getu. Tuttugu og fjögra ára flutti Ástríður aftur til Bologna þar sem hún lauk meistaranámi sínu í borginni. 

Bologna mikil mennta- og menningarborg

„Bologna hefur alltaf heillað mig mikið. Hún er stútfull af ungu fólki, áhugaverðri menntun og menningin í borginni er að mörgu leyti til fyrirmyndar. Bologna iðar af lífi, á hverjum degi. Jafnvel á mánudögum má fara út að gera eitthvað skemmtilegt og upplífgandi. 

Það sem fangaði athygli mína voru m.a. hátíðirnar sem voru haldnar þar reglulega. Sem dæmi um þær má nefna Bologna Jazz-hátíðina, Kvikmyndahátíðina Biografilm festival, eins kann ég að meta Robot-hátíðina, þar sem spiluð er elektrónísk tónlist í bland við sviðslist. Danshátíðin Danza Urbana er áhugaverð, Gender Bender Festival einnig og allskonar tónleikar, leikhús og dans er í hávegum hafður í borginni. 

Listahátíðin Art City Bologna, sem haldin er reglulega, gerir það að verkum að borgin fyllist af samtímalist á alls konar stöðum. Bæði eru sögufrægar byggingar skreyttar listaverkum fólks, en einnig einkennilegir staðir eins og strætóstöð borgarinnar. Að sjálfsögðu taka listaháskólarnir virkan þátt í þessu líka og þannig fá nemendur tækifæri til að kynna sig.“

Hún segir að eitt hafi hún lært í lífinu sem er það að ekkert fæst ókeypis, nema þá kannski skemmtun á aðaltorgi Bologna, á Piazza Maggiore, á sumrin.

„Í tvo mánuði yfir sumarið, var boðið upp á úti-bíó á torginu, þangað sem maður gat farið á kvöldin og horft frítt á allar gömlu kvikmyndirnar sem höfðu skrifað kvikmyndasöguna svo eftir var tekið.“

Nýjasta verkefni Ástríðar Jósefínu er að mála dyggðirnar sjö.
Nýjasta verkefni Ástríðar Jósefínu er að mála dyggðirnar sjö. mbl.is/Árni Sæberg

Ástríður segir að í Bologna hafi hún smitast af áhuganum á því að elda. 

„Ég lærði að elda alla helstu réttina í borginni. Tortellini, tagliatelle al ragú og lasagna svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru dæmigerðir ítalskir diskar sem ég tileinkaði mér að elda.“

Vonar að fólk fylgi fyrirmælum yfirvalda á Ítalíu

Hvernig líður þér núna, þegar þú fylgist með því sem er að gerast á Ítalíu í tengslum við kórónuveiruna og áhrifum hennar á Ítalíu?

„Ég er búin að vera með áhyggjur af veirunni frá því í janúar þegar ég fyrst heyrði af henni. Um leið og ég sá fréttirnar frá Kína á þessum tíma, skrifaði ég bræðrum mínum og bað þá um að fara varlega.

Nú er ástandið þannig á Ítalíu að fólk hefur aldrei upplifað annað eins. Fólk er læst inni í húsum sínum. Almenningur má ekki fara út nema í neyðartilfellum. Einungis einn úr hverri fjölskyldu má fara út, vikulega, þá með uppáskrifað vottorð um að hann sé að fara að kaupa í matinn eða meðul í hverfinu sínu. Fólk er sektað ef það fer ekki eftir þessum reglum. Ég hef velt því fyrir mér hvort Ítalir hefðu átt að loka landinu fyrr. En það er erfitt að átta sig á réttum aðgerðum í fordæmalausu ástandi. En ég er ánægt að sjá að þeir hafa lokað landinu núna og vona að fólkið fari eftir fyrirmælum svo hægt sé að halda vírusnum í skefjum. 

Hjarta mitt er hjá fjölskyldu minni og vinum úti. Þau segja mér að ástandið minni helst á vondan draum, ég ber þá von í brjósti að ástandið verði ekki svona slæmt á Íslandi á komandi vikum. Við ættum öll að vona það besta, en vera viðbúin hinu versta. 

Það sem ég vona að þessir skrítnu tímar muni kenna okkur er að við gefum fjölskyldunni, heilsunni og ástinni meira vægi í framtíðinni. Það mun koma sá tími að við byggjum samfélagið okkar aftur upp. Ég veit að við getum gert það með breyttum áherslum í huga.“

Byrjaði að hugsa líf sitt upp á nýtt

Þegar Ástríður Jósefína missti móður sína á sínum tíma varð það til þess að hún hugsaði lífið upp á nýtt. 

„Með þessa nýju hugmynd í huga, fór ég í listaháskólann í Bologna, Academy of fine arts og tók inntöku próf þar. Ég elskaði námið mitt svo mikið að ég ákvað að taka meistaranám þar einnig. Svo háskólinn varð eins og annað heimilið mitt í fimm ár.“

Hvað ertu að fást við í dag?

„Þegar ég flutti til Íslands í nóvember var ég með sérstakt verkefni í huga að gera hér. Mig langaði að mála dyggðirnar sjö á nútímalegan hátt. Hugmyndin vaknaði fyrir nokkrum árum, þegar ég heimsótti Uffizzi-safnið í Flórens, og dyggðirnar sjö eftir Piero del Pollaiolo og Sandro Botticelli fönguðu athygli mína. Ég velti fyrir mér hvernig hægt væri að teikna þessar dyggðir hvað þær þýddu fyrir okkur í dag. 

Það var svo margt í gangi hjá mér á Ítalíu og mig langaði að taka tíma fyrir mig sjálfa hér á Íslandi að teikna dyggðirnar sem ég ákvað að skyldu allar vera í formi kvenna.“ 

Að mála er vinna

Ástríður segir að það sé áskorun að gefa sér tíma fyrir listina. Ýmislegt annað aðkallandi eigi til að taka frá listafólki tíma. 

„Ég held að þegar við málum þá málum við fyrir okkur. Það er ástæðan fyrir því að stundum er erfitt að gefa sér tíma til að mála. Sér í lagi þegar maður elst upp í umhverfi sem lítur á að list, tónlist og skemmtun sé ekki raunveruleg vinna. Það að mála er að mínu besta viti hins vegar mjög erfitt. Það tekur bæði á líkama og sál. Listmálari skilur vanalega eftir hluta af sér í verkinu.“

Samspil lita á borði Ástríðar Jósefínu.
Samspil lita á borði Ástríðar Jósefínu. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálf segir hún markmiðin í lífi sínu frekar skýr. Að hana hafi alltaf langað að skilja eitthvað fallegt eftir sig hér. 

„Sem barn elskaði ég að teikna. Ég var með gott auga fyrir hlutum og gott vald á blýantinum. Það er hæfileiki sem ég held að ég hafi fengið í vöggugjöf. Í raun trúi ég því að okkur sé öllum eitthvað sérstakt gefið á sængina. Þó að maður verði að sjálfsögðu alltaf að rækta hæfileikann. Enda ekkert frítt á þessari jörðu nema þá kannski bíómyndirnar á Piazza Maggiore.“

Gerir þú öðruvísi list á Íslandi en á Ítalíu?

„Listin mín er alltaf að þróast með tímanum. Á hverju ári breytist eitthvað, enda eru jafnvel frumurnar okkar að breytast með tímanum. Þegar ég var að mála á Ítalíu notaði ég stundum íslensk ævintýri, svo þegar ég mála hér þá er Ítalía mér ofarlega í huga. Ætli maður teikni bara ekki það sem maður saknar hverju sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál