Þóra Lind vekur máls á fordómum

Þóra Lind heimsótti Afríku fyrir fjórum árum.
Þóra Lind heimsótti Afríku fyrir fjórum árum.

Þóra Lind Halldórsdóttir lauk núverið við að skrifa lokaritgerð sína í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hún stefnir að framhaldsnámi í haust enda hefur hún mikinn áhuga á viðfangsefninu stjórnun, jafnréttismál, fjölbreytileiki og samskipti. Hún er með áhugaverðar upplýsingar undir höndum sem varpa ljósi á raunveruleika kvenna í minnihluta í landinu. Konur sem eru sem dæmi af erlendu bergi brotnar hafa lent í því að vera spurðar hvort þær séu komnar að þrífa þegar þær eiga að vera að stjórna á fundum. 

Hvað getur þú sagt mér um ritgerðina þína?

„Ritgerðin er lokaverkefnið mitt til BS-prófs í viðskiptafræði við Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun. Hún fjallar um upplifun kvenstjórnenda sem tilheyra sýnilegum minnihlutahópi á stöðu sinni á íslenskum vinnumarkaði og möguleikum á framgangi í starfi. Tilgangurinn er að varpa ljósi á stöðu þessara kvenna og hvernig þær upplifa samskipti, tækifæri og hindranir í starfi. Ég vona að ritgerðin nýtist í frekari rannsóknir á konum af erlendum uppruna í atvinnulífinu og sé hvatning fyrir konur og fólk yfir höfuð sem tilheyra sýnilegum minnihlutahópi að koma sér á framfæri.“ 

Hvað upplifa þessar konur sem ritgerðin fjallar um?

„Kvenstjórnendur af erlendum uppruna sem tilheyra sýnilegum minnihlutahópi eru ánægðar í stöðu sinni en upplifa takmarkaða möguleika á framgangi í starfi ef þær skyldu t.d. vilja skipta um starfsvettvang eða sækjast eftir stöðuhækkun. Þær eru einnig að upplifa fordóma og mismunun frá fólki í formi þess að fólk gerir ráð fyrir að þær séu í láglaunastarfi, kunni ekki íslensku eða skilgreini þær sem útlendinga þrátt fyrir að sumar þeirra hafi búið á Íslandi í mörg ár og hafi góða íslenskukunnáttu. Síðan líður þeim eins og það sé ekkert svigrúm fyrir mistök í starfi og að þær þurfi sífellt að sanna að þær séu starfi sínu vaxnar. Þær telja að það megi rekja þessar hindranir til uppruna þeirra, skorts á tengslaneti og tungumálaerfiðleika.“

Áttu gott dæmi um viðmót við kvenstjórnanda á fundi sem rýrir sjálfstraust hennar?

„Já það kom fram í rannsókninni að þær hefðu t.d. upplifað það að fara á starfstengda fundi, sem þær hafi átt að stjórna, og þegar þær löbbuðu inn á fundinn þá hafi fólk staðið upp og spurt hvort þær séu mættar til þess að þrífa. Að upplifa fordóma eða mismunun af þessu tagi hefur að vissu leyti áhrif á sjálfstraustið, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað, og getur vakið ótta við að vera sýnilegur í samfélaginu eða minnkað líkurnar á að þær komi sér á framfæri í atvinnulífinu.

Hvaðan kemur áhugi þinn á viðfangsefninu?

„Ég hef alltaf haft áhuga á fjölbreytileika og alþjóðlegum samskiptum og áhugi minn á ólíkum menningum jókst mikið eftir að hafa farið í sjálfboðastarf til Suður-Afríku fyrir fjórum árum. Eftir að hafa tekið tvo áfanga tengda þessu efni í skólanum sem heita Stjórnun fjölbreytileika og Alþjóðleg samskipti fann ég að þetta er eitthvað sem ég vildi skoða betur. Ég hef sterka réttlætiskennd og löngun í að varpa ljósi á stöðu fólks af erlendum uppruna á Íslandi, vegna þess að þó að samfélagið okkar sé alltaf að verða fjölbreyttara er fólk enn þá að upplifa fordóma og mismunun í ýmsum birtingarmyndum.“

Þóra Lind hefur áhuga á vinnumarkaðnum og skrifaði nýverið um …
Þóra Lind hefur áhuga á vinnumarkaðnum og skrifaði nýverið um stöðu kvenna í minnihluta á atvinnumarkaðnum.

Af hverju langaði þig að skoða hvort það séu enn þá hindranir og áskoranir hjá kvenkyns stjórnendum í minnihlutahópi?

„Það er staðreynd að fólk af erlendum uppruna á erfitt með að fá starf sem hæfir þeirra menntun á Íslandi. Mig langaði að skoða hvort kvenstjórnendur í sýnilegum minnihlutahópi væru að upplifa hindranir í stöðu sinni eftir að hafa unnið sig upp í starfi, hvernig leið þeirra var í starfið og hvaðan hindranirnar sem þær standa frammi fyrir koma.“

Hvað dreymir þig um að gera í framtíðinni?

„Mig langar til þess að læra meira um þetta viðfangsefni, og halda áfram að fjalla um stöðu kvenna af erlendum uppruna. Síðan dreymir mig um að vera í gefandi starfi þar sem ég get hjálpað fólki af einhverju tagi. Mig langar einnig að ferðast meira, fara aftur til Afríku og upplifa ólíkar menningar.

Mér finnst mikilvægt að skapa umræðu um stöðu fólks af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Árið 2019 var næstum einn af hverjum fimm starfsmönnum á Íslandi innflytjandi eða 19,2%. Því er fjölbreytileiki í stjórnendastöðum á íslenskum vinnumarkaði mikilvæg auðlind fyrir íslenskt atvinnulíf. Mikilvægt er að meta starfsfólk af erlendum uppruna að þekkingu þeirra og hvetja fólk til að vera sýnilegt í samfélaginu, sama hver uppruni þess eða kyn er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál