„Greindarvísitalan hrapar í eldhúsinu“

Dóra Jóhannsdóttir er á leið í nám í Hússtjórnarskólann þessa …
Dóra Jóhannsdóttir er á leið í nám í Hússtjórnarskólann þessa dagana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dóra Jóhannsdóttir er þúsundþjalasmiður ef svo má að orði komast. Hún er leikkona, leikstjóri, handritshöfundur, stofnandi Improv Ísland og Improvskólans. Hún hefur ákveðið að setjast á skólabekk í haust, nánar tiltekið í Hússtjórnarskólann. Hún segir námið hugsað til að greindarvísitalan hrapi ekki um leið og hún gengur inn í eldhúsið heima hjá sér. 

Hvað er að frétta af þér núna?

„Allt alveg rosalega gott eiginlega. Ég er á fullu að vinna í sjálfri mér og náði takmarkinu sem ég setti mér að vera í besta formi lífs míns, líkamlega og andlega, þegar ég varð fertug í sumar.“

Hvernig hefur sumarið verið?

„Vonum framar. Ég var fyrri part sumars í meðferð í sólinni í Svíþjóð og seinni partinn heima í minni sól en þrátt fyrir það miklum gæðum.“

Hvað varð til þess að þú tókst þessa ákvörðun að fara í Hússtjórnarskólann?

„Mig langaði að taka mér smá frí frá vinnu og álagi en samt gera eitthvað nýtt og út fyrir þægindarammann. Ég hef alltaf verið mjög óörugg í heimilisstörfum einhverra hluta vegna. Finnst greindarvísitalan mín hrapa um leið og ég geng inn í eldhús.“

Dóra er með allskonar hæfileika en langar að læra meira …
Dóra er með allskonar hæfileika en langar að læra meira þegar kemur að heimilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað langar þig að gera við þessa þekkingu?

„Mig langar að geta boðið fólki í góðan mat en ekki alltaf bara taco og búa til eitthvað með höndunum til að geta gefið fólki við tækifæri.“

Stefnir þú að því að verða húsmóðir í miðborginni?

„Ég er reyndar nú þegar, ásamt öðru, húsmóðir í Vesturbænum. Sé ekki fram á að vera það nokkurn tímann í neinu öðru hverfi.“  

Hvert er áhugaverðasta augnablikið sem þú áttir í sumar?

„Mér fannst geggjað að fara í „svett“ með mömmu og 10 ára syni mínum en hann kom mér mjög á óvart og þraukaði allan tímann syngjandi hástöfum í mjög miklum hita og myrkri. Svo var mér eiginlega ýtt út í golf í fyrsta skiptið þegar afi gaf mér einkatíma í golfi og á sama tíma gaf pabbi mér golfnámskeið. Svo kom í ljós að sonur minn er mjög hæfileikaríkur í golfi. Mér finnst stórkostlegt að hafa fundið sport sem við getum stundað saman fjórar kynslóðir.“

Hver er tilgangur lífsins að þínu mati?

„Að gefa af sér.“

Hvað er það erfiðasta sem þú hefur upplifað?

„Að missa einhverja nákomna og næstum missa aðra. Mesta álagið sem ég hef verið undir var líklegast samt þegar ég bjó í New York í fjögur ár og átti engan pening. Við höfðum ekki efni á leikskóla fyrir strákinn og ég var því heimavinnandi og við vorum ekki með neitt stuðningsnet. Svo neyddumst við fjölskyldan til þess að vera með tvo meðleigjendur allan tímann. Það tók á en var á sama tíma mikið ævintýri.“

En það ánægjulegasta?

„Sonur minn, og að hafa kynnst Improv.“

Kemur lífið þér sífellt á óvart?

„Já algjörlega. Ég hugsa reglulega: Ef þú hefðir sagt mér fyrir ári að ég væri að gera það sem ég er að gera í dag þá hefði ég aldrei trúað þér.“

Áttu þér uppáhaldsstað í miðborginni?

„Hverfisgata 18, þar sem Improvskólinn er til húsa. Í sama húsi er verið að opna mjög spennandi veitingastað; Mikka ref, sem nemendur eiga eflaust eftir að sækja mikið eftir námskeið.“

Dóra er með húmor fyrir lífinu en kann að takast …
Dóra er með húmor fyrir lífinu en kann að takast á við erfiðleikana líka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað getur þú sagt mér um Improvskólann?

„Í skólanum verð ég með improv- (eða spuna-) og sketcha-skrifanámskeið sem ég hef haldið í tengslum við leikhópinn Improv Ísland síðastliðin sjö ár. Það hafa komið yfir 700 manns á námskeiðin og flestir á fleiri en eitt. Nemendur hafa verið á aldrinum 18-80 ára og koma úr öllum áttum. Fólk lærir ýmislegt um grín og hvernig maður getur verið fyndinn án þess að reyna að vera fyndinn og lærir á sama tíma margt sem hjálpar manni að verða betri manneskja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál