Skrítið að verða þjóðþekkt 11 ára

Jóhanna Guðrún er viðmælandi Sölva Tryggvasonar.
Jóhanna Guðrún er viðmælandi Sölva Tryggvasonar.

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Jóhanna, sem hefur verið þjóðþekkt síðan hún var aðeins 11 ára gömul hefur um árabil verið ein vinsælasta söngkona landsins. Hún syngur líklega meira en flestir söngvarar í jarðarförum og segir að það kenni henni mikið.

„Maður upplifir sig oft þreyttan eftir þessar aðstæður, sérstaklega þegar eitthvað átakanlegt hefur átt sér stað, sem er oft. Þarna sér maður svolítið skuggahliðarnar á lífinu. En að spila í jarðarförum er góð áminning fyrir mann. Það er enginn að lofa þér deginum á morgun og maður verður að setja athyglina á það sem skiptir máli í lífinu. Það er ekkert sjálfsagt í þessu og í hverri einustu jarðarför reyni ég að minna mig alltaf á að vera þakklát og verja tíma mínum rétt.“

Jóhanna Guðrún var orðin þjóðþekkt aðeins 11 ára gömul og er því líklega ein mesta barnarstjarna sem Ísland hefur átt. Þegar hún horfir til baka segist hún sjá bæði kosti og galla við það núna.

„Jákvæði hlutinn er að þú hefur ákveðið forskot, bæði af því að þú ert búinn að vinna 10 árum lengur en flestir og svo færðu skóla í að gera mistök og mörgu fleiru. Neikvæða hliðin er að fólk þekkti mig mjög snemma, sama hvort ég fór út í búð eða sund, sem kemur með þessum pakka. Það gerir það stundum að verkum að maður reynir að vera ósýnilegur þegar maður er ekki í stuði. Ég var í raun aldrei barn og heldur ekki unglingur. Þegar ég var 11 ára var ég komin með plötusamning erlendis og átti bara að standa mig þar. Þetta hefur á ákveðinn hátt valdið því að ég er oft mjög alvarleg og á svolítið erfitt með að leika mér. Ég vandist því svo ung að þurfa að standa alltaf við mitt.“

Jóhanna Guðrún lenti í leiðinlegu atviki eftir undankeppni Eurovision tveimur árum eftir að hún fór út fyrir Íslands hönd og talar um það í viðtalinu.

„Ég var að keppa þarna ásamt mörgum atriðum. Svo gerist það að Sjonni Brink deyr skömmu fyrir keppnina og eðlilega fara vinir hans með atriðið inn og atriðið vinnur. Síðan eru myndavélarnar í græna herberginu og þær eru settar á mig þegar atriðið er kynnt og klappið úr salnum heyrist í sjónvarpinu. Það klappaði enginn í græna herberginu, en þarna var ég búin til sem eitthvað skrímsli í fjölmiðlum dagana á eftir af því að ég átti að vera svo ósátt og ekki að kunna að samgleðjast. Mér fannst svo hræðileg tilhugsun að fólk héldi að ég væri ekki sátt við að þetta atriði færi út, eins og mér finnist ekki hræðilegt að maður hefði dáið frá konunni sinni og börnum langt fyrir aldur fram. Ég fékk eiginlega bara vægt taugaáfall að þetta væri staðan og fólk héldi að ég væri svona út af þessu. Það tók mig talsverðan tíma að jafna mig á þessu.“

Jóhanna hefur átt gífurlega farsælan feril og meðal annars náð besta árangri Íslands í lokakeppni Eurovision. Í viðtalinu fara hún og Sölvi yfir kostina og gallana við að vera barnastjarna, þátttökuna í Allir Geta Dansað, listina við að koma fram og gefa af sér og fjölmargt fleira.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og einnig í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is