„Það er skrýtið að vera heima og dagurinn getur runnið út í eitt“

Vala Pálsdóttir stundar meistaranám við Listaháskóla Íslands um þessar mundir.
Vala Pálsdóttir stundar meistaranám við Listaháskóla Íslands um þessar mundir.

Vala Pálsdóttir, mastersnemi sýningargerð í Listaháskóla Íslands, formaður verkefnahóps sem hefur haft það með höndum að móta fyrstu matvælastefnu fyrir Ísland og ritari framkvæmdastjórnar Groundfish Forum hefur snúið vörn í sókn í samkomubanninu. Hún reynir að gera allt sem krefst næðis á meðan börnin eru í skólanum, reynir að stunda daglega hreyfingu og elda góðan mat fyrir sig og fjölskylduna.

„Það er auðvitað mjög skrítið að vera komin aftur í þá stöðu sem var uppi í vor. Maður var að vonast til að við gætum siglt í gegnum veturinn án mikilla takmarkana. Maður verður að hlýða en ég held að fólk vilji síður stöðva lífið alveg og vonast til að við getum hægt á þeim vexti sem faraldurinn er í núna. Samt undir niðri vissi maður að þetta yrði svona, við tókum ákvörðun í maí um að fresta sjávarútvegsráðstefnu sem haldin er árlega og átti að halda núna í október í Seattle. Núna verður ráðstefnan á vefnum, fyrir ári hefði það verið óhugsandi en nú eru allir glaðir að fá tækifæri til að hlusta á framsögur um hvernig mál standa í ljósi ástandsins. Mér finnst sem að verkefnin haldi frekar áfram nú og það er minni kyrrstaða, ef svo má að orði komast. En auðvitað allt unnið með fjarfundum að heiman,“ segir Vala í samtali við Smartland. 

Vala er í meistaranámi í sýningargerð við Listaháskóla Íslands og er nú í fjarnámi. 

„Um leið og það kom upp smit í skólanum var allri kennslu sem hægt var að kenna á vefnum komið yfir á Teams. Við höfum hins vegar aðgang að vinnustofum okkar en þar gildir auðvitað grímuskylda og 2 metra fjarlægðarmörk sem og aðrar almennar sóttvarnir. Skólinn er lokaður fyrir utanaðkomandi og það gilda mjög strangar reglur um svæði sem er miðlað mjög skýrt til nemenda og starfsfólks. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir listnemendur að hafa aðgang að svæðum til að vinna og því eru allir tilbúnir að mæta þeim ströngu skilyrðum sem gilda. En það eru líka margir heima og vinna þaðan líkt og ég. Mér finnst skólinn vera að leysa vel úr aðstæðum.“

Hvernig finnst þér það virka? 

„Þetta er búið að ganga mjög vel, við erum öll að læra á nýja möguleika sem tæknin býður upp á og lærum af hvort öðru. Kennararnir hafa verið duglegir að brjóta upp formið, bæði með verkefnum í tímum og svo hafa nemendur verið með kynningar, við höfum fengið gestakennara og svo er auðvitað mikilvægt að fá pásur til að standa upp og fara á klósettið, fá sér kaffi og svona. Það er gott að sjá andlit samnemenda og kennara, það gerir þessa heimavist mun betri. Svo er nú ríkur vilji meðal nemenda að halda góðu sambandi í netspjalli enda stór þáttur af náminu að ræða hugmyndir og útfærslur. En auðvitað viljum við helst vera uppi í skóla og vonumst til að svo verði brátt.“

Hvað gerir þú til að brjóta upp daginn? 

„Að einhverju leyti er gott að vera heima og allt ytra áreiti stöðvast, eins og til dæmis skutl í frístundir eða almennar útréttingar sem eru endilega ekki nauðsynlegar. En það er skrítið að vera heima og dagurinn getur runnið svolítið í eitt. Manni finnst maður ekki endilega hafa áorkað miklu þar sem maður fer ekkert! Þessa stundina er samt mikið að gera hjá mér við undirbúning vefráðstefnunnar sem verður haldin í næstu viku og ég er að leggja lokahönd á uppsetningu matvælastefnunnar auk þess sem skólinn er kominn á fulla ferð. En ég passa að eiga mína stund á morgnana þegar yngri börnin eru farin af stað í skólann, með gott kaffi og lestur Morgunblaðsins undir rólegum tónum áður en formlegur vinnudagur hefst. Stundum veit maður ekki fyrr en maginn gólar að það er komið framyfir hádegi og maður hefur ekkert litið upp úr tölvunni þar sem það er enginn sem hnippir í mann. Ég reyni að vera raunsæ hve mikið maður á að sitja fyrir framan tölvuna. Fyrir utan að stinga í vél eða tala í símann þá fer ég út, sest niður með bók eða jafnvel horfi smá á Netflix. Börnin koma heim í eftirmiðdaginn og þá hverfur kyrrðin. Þá er ágætt að vera búin að sem flestu sem krefst næðis eða einbeitingu.“

Hvað ertu til dæmis að borða í hádegismat? 

„Það er svona nokkuð í hefðbundnum skorðum að ég held. Ég er nokkuð góð með rútínu á morgnana og í hádeginu en er svolítið glötuð þegar líður og daginn. Ég fæ mér stundum trefjabrauð með eggi eða 2 linsoðin egg og til hliðar lekkera hráskinku eða slíkt. Omeletta með tómötum, skinku og osti er klassík eða ég set saman pönnukökur. Svo er auðvitað frábært ef maður á afgang frá kvöldinu áður, sem er nú samt ekki alltaf. Ég legg samt meira upp úr því að elda á kvöldin þegar allir eru í mat frekar en að stússa yfir hádegisverðinum þó mér finnist mjög gott að borða. Te og hafrakex með osti getur oft bjargað miklu.“

Hvað gerir þú til að halda geðheilsunni í lagi? 

„Súrefni er lykilatriði og svo félagsskapur. Allir zoom og Teamsfundir eru góðir hvort sem er fyrir vinnu eða félagsskapinn. Ég sendi líka og fæ send fyndin snöpp yfir daginn, maður verður að halda í húmorinn. Ætli það versta sé samt ekki að ég vil líka alltaf vera að snyrta til í kringum mig, svolítið eins og í gamla daga þegar maður átti að vera að lesa undir próf. Til dæmis í vor fór ég í 15 til 30 mínútur inn í geymslu og tók eitthvað eitt í gegn. Það skilaði sér í rosalega skipulagðri geymslu í maí. Ég er að spá hvort að bílskúrinn verði fyrir valinu núna. Það er eitthvað hreinsandi við að flokka, raða og henda.“

Ertu að hreyfa þig eitthvað? 

„Já en eins og alltaf þarf ég og á að vera duglegri. Ég er með einfaldar bak- og styrktaræfingar sem ég byrja stundum daginn á eða enda kvöldin. Æfingar og teygjur á dýnu gera kraftaverk. Ég fer í göngutúra, ýmist ein eða með vinkonu enda margar frábærar gönguleiðir hér um kring og mér finnst yndislegt að ganga meðfram Nauthólsvíkinni. Ég byrjaði að synda í sumar, fór á skriðssundnámskeið og kom sjálfri mér á óvart. Ég hélt að ég gæti alls ekki synt meira en 25 metra af skriðsundi en nú bíða frekari sigrar í sundbrautinni opnun sundlauga á nýjan leik. Ég ætti kannski að róa eða hlaupa en ég er alveg róleg í þeirri deild.“

Hver er galdurinn við að missa ekki vitið á veirutímum? 

„Við sáum auðvitað í vor að við náðum stjórn á aðstæðum, vorum öll með sóttvarnir á hreinu og hlýddum. Það er góð áminning. Þannig að ólíkt í vor þá vitum við að þetta gengur niður ef allir hlýða. Kannski að árangurinn í vor hafi leitt til þess að við urðum værukærari en við getum þetta aftur. Mér finnst samt mikilvægt að reyna að halda gangi lífsins í sem eðlilegustum takti: Það er mikilvægt að halda úti skólastarfi og að samfélagið lokist ekki alveg en á sama tíma að vernda viðkvæma hópa. Samvera með fjölskyldunni er af hinu góða og það er mikilvægt að gæta að líðan okkar allra. Tilvalið að heyra í vinum nær og fjær, tala nú ekki um þá sem búa einir.“

Hvernig hefur veiran haft áhrif á þig og fjölskylduna? 

„Það hefur enginn veikst af veirunni í nánustu fjölskyldu, sem er gott en þó hafa nokkrir myndað mótefni. Mér finnst það magnað. Það er auðvitað notalegt að allir séu heima og ég tók eftir því við matarborðið hvað börnin voru róleg og oft sátum við lengur en venjulega. Reyndar minnti þetta mig á tímann sem við bjuggum erlendis, því af einhverjum ástæðum var fjölskyldulífið rólegra þar en hér. Nú eru engar æfingar, fjölskyldu- eða vinafundir svo að það er klárlega rýmri tími. Það skipti auðvitað miklu máli að börnin fara í skólann, hitta vini sína og geta leikið. Við reynum að brjóta upp dagana, tökum spil eða horfum á bíómyndir saman. Slagurinn við tölvutíma barnanna eykst ef eitthvað er á tíma heimsfaraldar. En kannski að þetta hafi leitt til þess að samveran er meiri en ellega.“

Uppskrift að pönnukökum (tortilla) í hádeginu

2 Pönnukökur (tortillas)

Rjómaostur

Chipotle majones

sveppir

rifinn ostur

smátt skorinn rauður chili

smátt skorin steinselja

Klettasalat

„Þetta er einfalt og má gera með margs konar afbrigðum. Tilvalið að nota afganga úr ísskápnum. Þessi hugmynd fæddist einmitt af því að það var „ekkert til“ að borða.

Sveppir eru uppáhaldshráefnið mitt þessa dagana og ég hef gætt þess að undanförnu að eiga alltaf íslenska sveppi í ísskápnum. 

Ég nota uppáhalds pönnukökurnar mínar frá Maria and Ricardo tortillas en það má nota aðrar tegundir. Ég smyr aðra pönnukökuna með rjómaosti og hina með chipotle majonesi. Ég sker sveppina í svolítið þykka sneiðar, sker steinselju og rauðan chili smátt og dreifi yfir og að endingu set ég klassískan rifinn pizzaost yfir og legg pönnukökurnar saman. Ég set þetta inn í ofn í svona 7-9 mínútur á 180C, rétt svo að efri tortlillan verði örlítið brún og nóg til þess að sveppirnir bakist aðeins. Ég tók eftir því þegar ég var að ná mér í steinselju út í garð að klettasalatið var enn í vexti svo ég klippti smá með. Þegar ég tók tortilluna út úr ofninum lyfti ég efri tortillunni aðeins upp og setti klettasalatið á milli. Þetta er auðvitað langbest með íslensku vatni,“ segir Vala. 

Á hvern skorar þú til að svara þessum spurningum næst?

„Ég ætla að skora á góða vinkonu mína sem er mikill sælkeri, Ásthildi Sturludóttur. Hún er búin að banna mér að koma í heimsókn næstu vikurnar en kannski að gluggi opnist síðar í vetur til að kíkja á skíði á Akureyri. Ég trúi því.“



mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál