Hætti í vinnunni og hoppaði í djúpu laugina

María Hrund Marinósdóttir.
María Hrund Marinósdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

María Hrund Marinósdóttir hætti sem markaðsstjóri Borgarleikhússins til þess að stofna umboðsskrifstofuna Móðurskipið. María Hrund er gestur Kötu Vignis í hlaðvarpinu Farðu úr bænum þar sem hún segir frá því hvernig það var að hætta í góðri vinnu með launaöryggi og stofna eigið fyrirtæki. 

María er með háskólagráðu í stjórnmálafræði en er ekki viss um hvort að hún hefði valið það nám í dag þar sem hún vann sem markaðsstjóri fyrirtækja í 20 ár. Hún hætti síðan sem markaðsstjóri og stofnaði sína eigin umboðsskrifstofu án þess að hafa unnið sem umboðsmaður áður. 

„Það var kominn tími á mig að gera eitthvað sjálf, að búa til eitthvað sjálf og skapa. Það var líka kannski eitthvað sem var búið að vera innra með mér lengur en ég áttaði mig á.“

María játar að það hafi verið óhugnanlegt að hætta í vinnunni og stofna fyrirtæki. „Já það var mjög „scary“, risastór djúp sundlaug sem að ég bara stökk ofan í. Að vera búin að vera í launaöryggi í öll þessi ár og bara vita að sama hvað þá færðu bara útborgað fyrsta hvers mánaðar. Þurfa að standa ein undir öllu tekjuflæði og svona en það gekk strax mjög vel og ég hef allavega ekki varið einni mínútu í að sjá eftir þessari ákvörðun. Það var bara frábært en ógnvænlegt,“ segir María og segist hafa þurft að vera hugrökk og taka áhættu en hún er fær það margfalt til baka. 

Hún segir vissulega erfitt að segja nei við umsækjendur sem vilja komast að hjá Móðurskipinu en hún reynir að treysta innsæinu. 

„Ég hef alltaf getað treyst innsæinu mínu en ég hef verið misdugleg að hlusta á það. Ég hef átt tímabil þar sem að ég bara hef vanrækt það og notað hausinn á mér kannski stundum of mikið og hugsað hvað er rétt, hvað myndi þessi gera og hvernig á að gera hlutina. En í þau skipti, og ég er búin að vera mjög dugleg undanfarið í þessu, er að þegar maður eltir innsæið sitt þá tekur maður alltaf réttar ákvarðanir. Það er bara þannig, þá koma réttu hlutirnir til manns. Það er svo frábært, það er svo mikið frelsi í því að geta treyst sjálfum sér,“ segir María.

„Ég vil helst vera að framkvæma marga hluti á sama tímanum og vera með marga bolta á lofti, það bara hentar mér vel. Ég lenti í sóttkví í síðustu viku og á þriðja degi þurfti ég að fara út og keyra rosalega hratt. Ég á bara mjög erfitt með einangrun og svona fábreytni, það hentar mér ekki vel. En auðvitað þarf maður að passa upp á sig og líka að gera hlutina á réttum tíma, það er ekki hægt að vera að gera þúsund hluti í einu. En ég held að ég hafi verið svona frá því að ég var pínulítil, ég verð að hafa margt fyrir stafni og hafa fjör í kringum mig, annars vannærist ég.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is