„Nú getur maður djammað yfir hábjartan daginn“

Gísli Valtýsson er einn vinsælasti eldri borgari Vestmannaeyja, en kveðst sjálfur ekkert sérstaklega félagslyndur. Hann segir fólk á besta aldri ótrúlega litríkan, flottan og orkumikinn hóp þar sem margir eru ennþá í fullu fjöri. Hann heyrði eitt sinn skemmtilega lýsingu á þessu aldursskeiði; að nú væri loksins hægt að djamma yfir hábjartan daginn! 

Gísli Valtýsson er Vestmannaeyingur í húð og hár og hefur alltaf búið í Eyjum. Hann er kvæntur sinni elskulegu Hönnu Þórðardóttur eins og hann talar að jafnaði um konu sína og saman hafa þau eignast fjórar dætur.

Það hafa margir fylgst með Gísla í gegnum útgáfu Eyjafrétta sem hann segir að jafnaði hafa verið skemmtilegan tíma, því hann hafi skynjað hjartslátt bæjarlífsins í gegnum blaðið. Það skiptust á skin og skúrir í rekstrinum, þótt í minningunni hafi oftast verið sól.

„Ég ólst upp á heimili þar sem húsasmíðameistarinn pabbi var fyrirvinnan og vann mikið. Hann var einnig mikill félagsmálamaður. Mamma var hins vegar heimavinnandi húsmóðir og hélt utan um sjö manna fjölskylduna. Þetta var sú uppskrift sem ég fékk að heiman, og þótti þá eðlileg,“ segir Gísli.

Hann segir Vestmannaeyjar fyrst og fremst sjávarútvegsbæ og það liti mannlífið mikið bæði nú og hér áður.

„Lífið í Eyjum tekur mið af því hvernig gengur til sjávarins. Nú eru miklar væntingar til loðnuveiða í vetur og Eyjarnar eru stórar í þeim veiðum. Það ríkir því bjartsýni um komandi tíma. Vestmannaeyjar hafa líka gengið í gegnum miklar dýfur þegar illa árar í sjávarútvegi.“

Lærði húsasmíði og vann við það í mörg ár

Gísli segir Vestmannaeyjagosið hafa markað djúp spor í allt mannlífið í Eyjum.

„Nærri 400 hús ýmist brunnu eða urðu undir fargi ösku. Íbúar voru fyrir gos um 5.500 talsins. Nærri 1.700 Vestmannaeyingar sneru ekki aftur eftir gos. Í Eyjum búa núna um 4.400 manns.“

Gísli lærði húsasmíði og starfaði við þá iðngrein í mörg ár.

„Ég vann lengstum við smíðar hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Eitt árið var loðnuleysisár og lítið fram undan í smíðum hjá Hraðfrystistöðinni. Ég skipti þá um starfsvettvang og tók við rekstri prentsmiðju og útgáfu fréttablaðsins Eyjafrétta. Ég hafði lært prentiðn sem ungur maður og endurnýjaði þarna meðal annars kynnin af blýi og prentsvertu og síðar kom gjörbreytt tækni við blaðaútgáfuna. Að starfa við útgáfu Eyjafrétta var oftast skemmtilegt og maður skynjaði vel hjartslátt bæjarlífsins sem stundum var hraður og stundum hægari. Það skiptust á skin og skúrir í rekstrinum, en í minningunni var oftast sól.“

Hér er Gísli ásamt eiginkonu sinni.
Hér er Gísli ásamt eiginkonu sinni.

Afahlutverkið dýrmætt og mikil lífsfylling

Þótt margir líti á Gísla sem félagslyndan mann er hann ekkert endilega á sama máli.

„Mér finnst sjálfum ég ekkert sérstaklega félagslyndur, samt hef ég allt mitt líf verið í stjórnum margvíslegra félaga, lengst af í stjórnum íþróttahreyfingarinnar og nú síðast í stjórn Félags eldri borgara í Eyjum.

Eftir að störfum mínum á vinnumarkaði lauk hefur afahlutverkið að hluta tekið yfir hin daglegu störf. Það er mér mjög dýrmætt og mikil lífsfylling að umgangast barnabörnin og barnabarnabörnin mín, fá að taka þátt í þeirra lífi og starfi, sjá þau þroskast og mótast.“

Hvernig persónuleiki ertu?

„Mér vefst nú tunga um tönn. Ég hef yfirleitt stoppað lengi í þeim störfum sem ég hef sinnt, hvort sem er í félagsstarfi eða hinum daglegu störfum á vinnumarkaði. Hef mikla ábyrgðartilfinningu og gef mig gjarnan mjög að þeim verkefnum sem ég sinni. Svo er ég frekar íhaldssamur í skoðunum, eða kannski eins og máltækið segir „í uppafi skal endinn skoða“.

Það gefur lífinu gildi að vera sáttur við guð og menn. Að elska og vera elskaður, að vera heiðarlegur og sanngjarn og virða aðrar skoðanir en manns eigin.“

Fólk leggst ekki sjálfkrafa í kör við að hætta að vinna

Hvernig er staðið að málefnum eldri borgara í Eyjum?

„Það er ágætlega staðið að málefnum eldri borgara. Bæði er starfandi Félag eldri borgara, sem í kórónulausu ástandi er ágætlega virkt. Vestmannaeyjabær veitir félaginu fjárhagslegan stuðning. Þá er starfandi á vegum bæjarfélagsins sérstakur verkefnastjóri í öldrunarþjónustu. Um 660 íbúar Vestmannaeyja eru 67 ára og eldri, sem er nærri 15% bæjarbúa.

Það er nú einhvern veginn þannig að þegar maður hverfur úr atvinnulífinu tapast sum tengsl við fólk og atvinnulíf. Ný kynni skapast við nýtt fólk og annar taktur í lífinu.“

Hvað lífið hefur kennt Gísla og vangaveltur um tilgang lífsins svarar hann:

„Tilgangur lífsins er að fæðast og deyja og láta eitthvað gott af sér leiða þar á milli. Eitt sinn spurði ég mér eldri og vitrari mann hvort hann vissi hver væri tilgangur lífsins. Hann hélt það nú. „Það er mikilvægast að gefa sér góðan tíma til að gera ekki neitt og borða góðan mat.“

Hvernig er að eldast?

„Það kallar á breytt lífsmynstur að hætta á vinnumarkaði eftir áratuga störf. Sumum finnst eins og það sé alltaf sunnudagur. En lífið heldur auðvitað áfram en á breyttum forsendum. Hjá mörgum verða barnabörnin stærri hluti af tilverunni eftir starfslok. Ýmsar tómstundir sem áður var ekki tími til að sinna fá aukið vægi. Sumir eru vel undir starfslokin búnir, aðrir ekki eins og gengur. Þetta er því ekki einsleitur hópur, heldur ótrúlega litríkur, flottur og orkumikill hópur og margir enn í fullu fjöri og tilbúnir í ný verkefni. Eða eins og einhver sagði: Það er ekki amalegt að vera eldri borgari, nú getur maður djammað yfir hábjartan daginn.

Fólk leggst ekki sjálfkrafa í kör við það að mæta ekki lengur til vinnu að morgni; síður en svo. Þá er einmitt tíminn til að lifa og njóta, njóta og lifa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál