„Eigum við ekki að slaka á karlrembunni?“

Dagný Lind er ein þeirra þrettán kvenna sem lýstu reynslu …
Dagný Lind er ein þeirra þrettán kvenna sem lýstu reynslu sinni í þættinum. Hún er lagerstarfsmaður þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta.

Í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar eru 13 konur til viðtals sem eiga það sameiginlegt að hafa reynslu úr störfum þar sem karlar eru í meirihluta eða með ráðandi stöðu. Sumar lýstu reynslu sinni á jákvæðan hátt og að ástæða þess að þær réðu sig til starfa hafi verið áhugi þeirra og oft einhver nákominn sem vakti þann áhuga.

Hins vegar varpa konurnar ljósi á áhrif og afleiðingar karllægrar menningar sem grundvallast á útilokandi viðhorfum og hegðun, niðurlægjandi orðræðu, öráreiti og áreitni. Nokkrar lýsa því að hafa glímt við langvarandi afleiðingar eftir starfsumhverfið sitt t.d. að hafa átt erfitt með svefn, skipulag eða fengið taugaáfall.

„Mig langaði stundum að segja, jæja, eigum við ekki aðeins að slaka á karlrembunni?“ segir Dagný Lind sem hefur unnið sem lagerstarfsmaður þar sem karlar eru í miklum meirihluta. „Ég fann mun á að vera að tala við einn karl og síðan marga í einu, því þá er eins og þeir magni upp karlrembuna í hverjum öðrum,“ heldur Dagný áfram og tekur dæmi um að jafnvel þótt hún hafi gegnt ábyrgðastöðu að þá hlustuðu undirmenn ekki á skipanir hennar svo karlkyns undirmaður þurfti að koma boðum áleiðis. „Ég gat ekki verið of pirruð í vinnunni því ef ég sýndi pirring þá var ég bara talin vera á túr eða kvenmaður fullur af hormónum.“

Síðan fékk hann vinnuna

„Ég frétti að bekkjabróðir minn frá því í gamla daga hefði verið ráðinn í starfið með engu reynslu,“ segir Guðrún Margrét bílasali eftir að hafa sótt um starf en sagt að hún væri ekki með næga reynslu, þrátt fyrir að hafa töluverða starfsreynslu af sölumennsku. Guðrún lýsir því einnig að sumar konur sem komi á bílasölu vilji jafnvel frekar fá karlkyns bílasala. „Ætli þær haldi ekki bara að ég viti ekki neitt af því þær vita ekkert um bíla,“ segir Guðrún og segir að hún upplifi stundum eins og sumir séu að reyna að testa hana með því að spyrja flókinna spurninga eða kasta fram einhverjum bílaorðum - sem Guðrún kann vel enda með góða þekkingu og reynslu á bílum.

Sjálfkrafa útundan sem stelpa

„Af því ég er eina stelpan þá er maður sjálfkrafa svolítið útundan,“ segir Þórunn Anna bifvélavirki og lýsir því að upplifa sig pínu útundan í félagslegu samhendi á sínum vinnustað, sem hún tengir einungis við kyn sitt. „Maður verður bara að sætta sig við þetta ef maður ætlar að vera í þessu starfi.“

Guðrún Margrét bílasali hefur svipaða reynslu af því að vera ekki alltaf boðið með þegar strákarnir eru að fara að gera eitthvað saman. „Þegar strákarnir eru að fara að gera eitthvað saman, þá er mér ekkert endilega boðið með af því ég er bara einhver stelpa.“

Alltaf að sanna mig

„Mér fannst ég endalaust þurfa að sanna mig,“ segir Helga Dögg grafískur hönnuður og skýrir það með því að hafa nánast engar kvenkyns fyrirmyndir og passa tæplega inn. „Manni finnst maður ekki tilheyra og aldrei nógu góð,“ heldur Helga Dögg áfram. „Þetta er rosa mikið svona Mad man bransi,“ segir Helga Dögg og vísar þar til viðhorfa og orðræðu sem sé ríkjandi. Hólmfríður Rut hefur reynslu úr svipuðum geira og lýsir honum einni með viðlíkingu við Mad man. „Þegar ég er búin að vinna á auglýsingastofu í þó nokkurn tíma þá rennur upp fyrir mér hve mörg samlegðar atriði eru milli Mad man og íslensks auglýsingabransa sem snýst mikið um viðhorf gagnvart konum, hvaða ábyrgð þær fá og samskipti á fundum.“ segir Hólmfríður og tekur dæmi um að vera sett í þjónustuhlutverk og tekið fram fyrir hendurnar á sér. „Ég hef ítrekað verið beðin um að sækja kaffi á fundum, á meðan verið er að kynna mína eigin vinnu fyrir kúnnum.“

Áreitni í iðnaðarvörubúð

„Ef ég mætti fínt klædd þá var ég ítrekað spurð fyrir hvern ég væri að klæða mig svona. Þá er ég að tala um leggings og kjól,“ segir Helga Rós sem starfaði við afgreiðslu í kringum iðnaðarmenn. Hún segist hafa upplifað mikið áreiti og tekur dæmi þegar samstarfsmaður ætlaði að grípa í klofið á sér. „Einn af samstarfsmönnum er að labba framhjá mér og ætlar að grípa í klofið á mér […] Hann var 2 sentímetra frá því að halda í píkuna á mér, þá hættir hann og segir nei, þetta má ekki,“ segir Helga og lýsir því hversu niðurlægða hún upplifði sig þar sem þetta var fyrir framan viðskiptavini og allt starfsfólkið. „Hann upplifði sig hafa þann rétt að grípa í klofið á mér, eins og hann ætti minn líkama“.

Þorsteinn, þáttastjórnandi hlaðvarpsins, dregur saman í lok þáttarins helstu þemu úr viðtölum við konurnar sem hann segir að einkennist af því að þær hafi „þurft að sanna sig, ekki hafi verið hlustað á þær eða tekið mark á hugmyndum þeirra, ekki mátt kvarta eða sýna óánægju, haft lítið rými fyrir mistök, átt erfitt með að fá starf, aldrei orðið alveg hluti af hópnum“ og að margar hafi glímt við töluverðar persónulegar afleiðingar eftir reynslu sína. Þá tekur Þorsteinn fram að mun fleiri konur hafi viljað segja frá reynslu sinni en ekki þorað vegna ótta við að missa af starfstækifærum ef þær myndu lýsa reynslu sinni.

Þátturinn er aðgengilegur á helstu hlaðvarpsveitum og einnig á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál