24 pör hoppuðu frítt í hnapphelduna

Alls voru 24 pör gefin saman af athafnarstjórum Siðmenntar í …
Alls voru 24 pör gefin saman af athafnarstjórum Siðmenntar í gær.

Alls voru 24 pör gefin saman í Höfuðstöðinni við Rafstöðvarveg í gær. Siðmennt bauð upp á fríar hjónavígslur og segir Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, daginn hafa einkennst af gleði og hamingju. 

Fleiri höfðu áhuga á að láta pússa sig saman í gær, en því miður komust aðeins 24 pör að. Siðmennt auglýsti ókeypis hjónavígslur á mánudag fyrir viku og voru plássin fljót að fyllast. 

„Dagurinn var alveg dásamlegur. Þetta var alveg hrikalega gaman. Við fengum 24 pör til okkar og flest þeirra voru pör sem hafa verið lengi saman, allt upp í 30 ár og eiga börn. Þau höfðu bara einhvern vegin ekki látið verða af þessu fyrr en þau heyrðu um þetta og ákváðu að hoppa í hnapphelduna,“ segir Inga.

Tilgangur dagsins var að vekja athygli á þeim réttindum sem fylgja því að vera í hjónabandi og einnig því að lög er varða gögn í tengslum við hjónavígslu breytast um næstu mánaðarmót. Þá verður ekki hægt að ganga í hjónaband með jafn stuttum fyrirvara og núna.

„Þó að hjónavígslur eigi auðvitað að vera rómantískur viðburður í lífi fólks, þá er þetta fyrst og fremst lagalegur gjörningur sem er mjög mikilvægt að ganga í gegnum ef fólk er búið að rugla saman reytum á annað borð,“ segir Inga.

Inga segir pörin hafa verið jafn ólík og þau voru mörg, sum komu í íþróttagallanum á meðan aðrir komu í sínu fyrsta pússi. „Það var alveg fullt af börnum hlaupandi um og mikil gleði,“ segir Inga. Hún segir flest brúðhjónin fædd á 9. áratug síðustu aldar en þó nokkur yngri og nokkur eldri. 

Alls skiptu fjórir athafnastjórar Siðmenntar með sér verkum og svo voru fleiri sem eru að læra athafnastjórn hjá félaginu á staðnum. Ungt tónlistarfólk lék fallega tóna og segir Inga að þrátt fyrir örlitla færibandavinnu hafi dagurinn verið ótrúlega rómantískur.

Ungt tónlistarfólk lék ljúfa tóna.
Ungt tónlistarfólk lék ljúfa tóna.
Pörin sem gefin voru saman eru á öllum aldri.
Pörin sem gefin voru saman eru á öllum aldri.
Flest pörin eru fædd á níunda áratug síðustu aldar.
Flest pörin eru fædd á níunda áratug síðustu aldar.
mbl.is
Loka