Fyrst og fremst gaman að vera dyravörður

Perla Dolon Dögg Jensdóttir er dyravörður.
Perla Dolon Dögg Jensdóttir er dyravörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Perla Dolon Dögg Jensdóttir, dyravörður og meistaranemi í vélvirkjun, hefur unnið við dyravörslu síðan árið 2015. Hún segir starfið gefandi enda umkringd fólki í vinnunni sem er úti að skemmta sér. Starf dyravarðar snýst fyrst og fremst um að gæta öryggis.

„Ég var að æfa bardagalistir. Margir sem ég var að æfa með á þessum tíma voru í dyravörslu. Ég vildi prófa þetta líka og athuga hvernig þetta væri. Ég sótti um á stað niðri í miðbæ og byrjaði þar,“ segir Perla sem sá ekki eftir ákvörðuninni.

„Mér finnst rosalega gaman af djammlífinu sjálfu, skemmtilegri tónlist og góðu andrúmslofti. Allir eru að koma að dansa og skemmta sér. Þetta er aðallega gaman,“ segir Perla um starfið.

„Við erum ekki bara í þessu til þess að segja nei. Við erum í þessu til þess að gæta öryggis fyrst og fremst. Við eigum að vera eitthvað sem fólk vill leita til ef eitthvað kemur upp á. Fólk á að vera öruggara með okkur í kring,“ segir Perla. Hún segir langt í frá aðalatriði að vera sterkur, mikilvægara sé að geta tekist á við þær aðstæður sem upp koma á friðsamlegan hátt. Hún segir einnig betra að búa yfir útsjónarsemi en vöðvastyrk.

Allir glaðir á djamminu

Þegar Perla byrjaði að vinna sem dyravörður árið 2015 var nóg að sækja um skírteini hjá sýslumanni þar sem sýna þurfti fram á hreint sakavottorð og uppfylla rétt aldursskilyrði. Í dag þarf að sækja dyravarðanámskeið hjá Mími en námskeiðið er meðal annars unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Perla sótti námskeiðið fyrr á þessu ári.

Hún segir að það komi dyravörðum vel að sækja námskeiðið. Þannig getur starfsfólk með góða þekkingu brugðist rétt við í vinnunni. „Fólk er eins mismunandi og það er margt. Sumir vita þetta allt og sumir hafa enga hugmynd og allt þar á milli. Það getur aldrei verið neikvætt að fara á svona námskeið og fá smávegis af þessari þekkingu sem þau eru að miðla til fólks,“ segir Perla sem lærði meðal annars ýmislegt um brunaleiðir og skyndihjálp á námskeiðinu.

Það gengur ýmislegt á á djamminu en aðallega segir Perla að fólk sé komið til þess að hafa gaman. Þegar allir eru varðbergi er einnig hægt að koma í veg fyrir uppákomur. „Þetta er í sjálfu sér ekki það voðalegt,“ segir hún róleg og játar að fréttir gefi ekki endilega raunsanna mynd af næturlífinu í miðborg Reykjavíkur. „Þetta er yfirleitt bara ljúft og það eru allir glaðir. Fólk er bara með bros á vör og komið til að skemmta sér. Það kemur hlæjandi inn á staðinn og fer hlæjandi út.“

Verkefni Perlu hafa verið fjölbreytt. Auk þess að hafa unnið á skemmtistöðum í Reykjavík hefur hún unnið á sveitaböllum og séð um gæslu um verslunarmannahelgina á Flúðum.

„Það er öðruvísi að vinna úti á landi. Það er öðruvísi andrúmsloft úti á landi ef maður er kominn á staði eins og Vík í Mýrdal,“ segir Perla sem bendir jafnframt á að starfsaðstæður eru aðrar, staðirnir til dæmis stærri. Í meginatriðum er starfið þó eins – alltaf jafn skemmtilegt. „Fólk er bara komið til þess að skemmta sér hvort sem það er á sveitaballi eða í miðbænum. Þess vegna finnst mér þetta svo rosalega gefandi starf. Fólk spjallar við mann og maður spjallar til baka um hin ýmsu málefni,“ segir hún.

Of mikil félagsvera til að hætta

Er dyravarsla fyrir einhverjar ákveðnar týpur?

„Þetta er fyrir alla sem hafa áhuga á skemmtanalífi og hafa áhuga á að standa vörð um öryggi. Svo er bara persónubundið hvort þetta henti hverjum og einum, þetta er ekki fyrir einhverja eina týpu. Þetta er fyrir alla sem hafa áhuga á að sinna þessu hlutverki hvort sem það er niðri í bæ eða fyrir utan bæjarmörkin.“

Perla snýr sólahringnum við um helgar og jafnar sig svo áður en hin hefðbundna vinnuvika hefst á mánudögum en hún er vélvirki ásamt því að sinna meistaranámi í greininni. „Mér finnst rosalega leiðinlegt að láta mér leiðast,“ segir Perla þegar blaðamaður bendir á að það sé kraftur í henni.

Það eru sífellt fleiri konur sem sinna starfi dyravarða og bendir Perla á að staðalímyndir sem snúa að hefðbundnum kynjastörfum séu að verða úreltar. Allskonar kyn sinna nú allskonar störfum. Perla er vélvirki á virkum dögum og dyravörður um helgar. Það hefði einhvern tímann talist óhefðbundinn starfsferill. „Það eru fleiri konur í báðum greinum en segjum fyrir 25 árum. Ég heyrði stundum að þetta væri óhefðbundið en ég heyri það mun sjaldnar núna. Upp úr 2019 og 2020 fór þessum spurningum að fækka svo mikið að ég tók varla eftir þeim,“ segir hún.

Spurð hvort hún ætli að halda áfram að sinna dyravörslu þegar hún lýkur meistaranáminu segir hún svo vera. „Ég vil halda þessu áfram. Ég er svo mikil félagsvera, það er erfitt að hætta. Maður vill alltaf taka að sér svona störf við og við. Ég er búin að vinna allar helgar síðan ég var á dyravarðanámskeiðinu,“ segir Perla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál