Heillandi heimili Magneu Einars

Magnea Einarsdóttir
Magnea Einarsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Magnea Einarsdóttir, fata- og textílhönnuður og eigandi fatamerkisins MAGNEA, og Yngvi Eiríksson verkfræðingur búa ásamt börnum sínum tveimur, Rökkva, 9 ára, og Eddu Fanneyju, sem er að verða eins árs, á gullfallegu heimili í Laugardalnum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég datt eiginlega um þessa íbúð þegar ég var nýorðin ólétt að dóttur okkar. Það var ekki endilega planið að flytja og við þekktum hverfið ekki neitt en ákváðum að skoða og fundum það bæði þegar við komum hér inn að þetta væri staðurinn fyrir okkur. Við heilluðumst af stóru gluggunum í stofunni og því hvað íbúðin er opin og björt. Hverfið hefur komið mjög skemmtilega á óvart og ég kann virkilega vel að meta að hafa svona mikla þjónustu í göngufjarlægð.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnea og Yngvi keyptu íbúðina fyrir ári og fóru í svolitlar framkvæmdir áður en þau fluttu inn.

„Við gerðum eldhúsið upp alveg frá grunni. Það var orðið lúið og svo sáum við möguleika á breytingu sem fól í sér að nýta plássið betur og útbúa þvottahús inn af því og erum virkilega ánægð með útkomuna,“ útskýrir Magnea en þau fóru einnig í minniháttar framkvæmdir á baðherbergi auk þess sem þau létu slípa upp parketið. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
Spurð segist Magnea eiga svolítið erfitt með að skilgreina stílinn á heimilinu. „Ætli hann sé ekki bara frekar persónulegur. Ég hrífst af því sem er svolítið hrátt eða „industrial“ og mínimalískt. Svo er ég líka mjög meðvituð um umhverfismál. Þetta fer ágætlega saman. Ég kaupi fáa hluti inn á heimilið og reyni að nýta það sem við eigum og það sem fellur til, finnst gaman að fara í fjársjóðsleit á flóamörkuðum og tíni blóm og strá á sumrin og skreyti heimilið með þeim.“
Eftirlætishlutir hjónanna á heimilinu eiga það sameiginlegt að vekja góðar tilfinningar eða minningar, t.d. úr ferðalögum erlendis en þau taka gjarnan með hluti til minningar þegar þau ferðast. „Myndlistin sem prýðir veggina er í miklu uppáhaldi og svo þykir mér sérstaklega vænt um ljósmyndina sem ég tók af litlu hjarta á miðri umferðargötu í París sama kvöld og við trúlofuðum okkur,“ útskýrir Magnea.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Hjónin leggja ríka áherslu á, við innréttingu heimilisins, að heimilisfólkinu líði vel og vilja skapa rými þar sem fjölskyldan getur notið hversdagsleikans saman. 
Fjölskyldan er sammála um að borðstofuborðið sé eftirlætisstaðurinn á heimilinu. „Borðstofuborðið hefur svo mörg hlutverk. Ég nota það sem vinnuborð á daginn og þegar sonur okkar kemur heim úr skólanum breytist það í teikniborðið hans. Um helgar bjóðum við vinum og fjölskyldu í mat eða kaffi og þá sitja allir við borðið, spjalla og borða góðan mat. Mér þykir sérstaklega vænt um þetta borð og stólana vegna þess að ég erfði það eftir ömmu mína og afa. Öll þeirra börn og barnabörn hafa setið við þetta borð, unnið, teiknað og borðað svo í því er mikil saga og karakter sem mér þykir vænt um að fá að viðhalda,“ segir Magnea. Þá segir hún jafnframt eldhúsið einskonar griðastað fjölskyldunnar á heimilinu. „Við erum miklir matgæðingar og finnst gaman að elda og borða saman. Yngvi er meistarakokkur og við hin njótum góðs af því. Það skipti okkur miklu máli þegar við fluttum að útbúa gott eldhús fyrir fjölskylduna. Þar verða einhvern veginn til bestu stundirnar í hversdagsleikanum.“
mbl.is/Kristinn Magnússon
Aðspurð hvar þau versli helst fyrir heimilið segir Magnea sér finnast skemmtilegast að finna faldar gersemar á nytjamörkuðum, bæði hér heima og erlendis. „Bæði er það betra fyrir umhverfið að kaupa notað en nýtt og svo finnst mér úrvalið oft einsleitt hérna heima og annar kostur við flóamarkaði er að þar er hægt að finna einstaka hluti. Annars er orðið mjög fjölbreytt úrval af skemmtilegum og öðruvísi verslunum hér og þar um bæinn sem mér finnst gaman að heimsækja, t.d. keramikstúdíóið Ker, kaffihúsið Lúna Flórens, Pastel blómastúdíó og marokkóska verslunin Nús nús svo eitthvað sé nefnt.“
Aðspurð að lokum hvort að það sé eitthvert eftirlæti í hverfinu segist Magnea íbúðina nánast í hjarta hverfisins. „Hér erum við með frú Laugu og Brauð & co beint fyrir utan dyrnar og aðeins lengra er meðal annars Laugardalslaugin, Grasagarðurinn og ísbúðin Skúbb. Kaffi Lækur sem er hérna beint á móti okkur er í miklu uppáhaldi og góð tilbreyting í fæðingarorlofinu að hafa getað hoppað þangað yfir hvort sem það er í morgunbolla, á fundi eða í góðan hádegismat.“mbl.is/Kristinn Magnússon
Verkið á veggnum er eftir Hörpu Árnadóttur.
Verkið á veggnum er eftir Hörpu Árnadóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Skemmtilega raðað í hillurnar.
Skemmtilega raðað í hillurnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is