Fór úr 67 kílóum í 80 þegar hann breytti um lífsstíl

Mikael Torfason.
Mikael Torfason.

Mikael Torfason, sem hefur ritstýrt mörgum af stærstu fjölmiðlum landsins, er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpi hans. Eftir Mikael liggja fjölmargar bækur og um árabil ritstýrði hann DV, Fréttablaðinu, Fréttatímanum og tímaritum Birtings. Í viðtalinu ræða þeir Sölvi meðal annars hvernig það var að vera blaðamaður þegar Mikael varð fyrst ritstjóri og tímabilið þegar hann tók heilsuna í gegn. 

„Ég fór úr 67 kílóum í 80 kíló, sem er líklega kjörþyngd. En mér fannst þetta ofboðslega smart að vera bara með sígó og líta út eins og Axl Rose ber að ofan. Manni fannst maður líta miklu gáfulegar út ef maður ætlaði að vera blaðamaður og rithöfundur ef maður væri alltaf stressaður og alltaf hlaupandi og drykki kaffi og borðaði bara mat úr sjálfsölum,“ segir Mikael, sem í dag hleypur 50-70 kílómetra á viku og gerir styrktaræfingar með. En það var ekki alltaf þannig. 

Mikael er mjög ánægður með þá byltingu sem átt hefur sér stað í samfélaginu síðan hann ritstýrði DV, þegar það þótti hreinlega slæm hugmynd að ætla að skila skömm gerenda ofbeldis. 

„Ástæðan fyrir því að þetta var svona umdeilt var að við vorum að kroppa í sár sem enginn hafði þorað að kroppa í. Varðandi kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og kynbundið ofbeldi og fleira. Það var á þessum tíma raunverulegt að skömmin var þín ef þú varst fórnarlamb. Við skrifuðum til dæmis frétt um kokk á Hard Rock sem nauðgaði einni þjónustustúlkunni, en hún átti bara að halda áfram að vinna með honum á meðan hann beið dóms. Það var viðhorfið. Við vorum að rífa niður gluggatjöld sem voru raunveruleg. Við vorum með kenningu sem Illugi Jökulsson var í raun meiri höfundur að en ég á þeim tíma, en hann þurfti ekki langa söluræðu við mig, sem var að það þyrfti bara að skila skömminni. Við byrjuðum á þessu  2003 og þetta þótti gríðarlega róttækt og viðbrögð frá fólki voru í raun bara hvort við værum alveg ruglaðir,“ segir Mikael og heldur áfram:  

„Gleymum því ekki að Ólafur Skúlason, biskup yfir landinu, það stíga fram fullt af konum, en hvað verður um málið? Hann segir aldrei af sér, allir þessir kallar og stofnanir styðja hann … það er botnlaus stuðningur, á meðan konan sem var forsprakki í málinu endar með að flytja úr landi. Hann bara vann og klárar alveg ferilinn sinn og núverandi biskup og fleiri prestar gerðu allt til að koma bara á sáttum og hitta konurnar. Þetta voru konur sem voru trúaðar og það átti að plata þær inn í kirkjuna til að láta þær hitta gerendur til að þagga þetta niður og bæla þetta. Þetta var tíðarandinn!“

Í dag býr Mikael með fjölskyldu sinni í Vínarborg, þar sem hann fæst mest við að skrifa handrit fyrir leikhús, kvikmyndir og sjónvarp. Í viðtalinu fara hann og Sölvi yfir stórmerkilegan feril Mikaels, erfiðustu fréttirnar, eigendaafskipti, gildi í blaðamennsku og margt margt fleira.

 

 Hér er hægt að hlusta á þáttinn á Spotify: 

Sölvi Tryggvason er kominn með nýtt hlaðvarp, Podkast með Sölva …
Sölvi Tryggvason er kominn með nýtt hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál