„Við vinkonurnar erum oft og tíðum hræðilega hallærislegar“

Ólöf Birna Tómasdóttir leikstjóri og handritshöfundur er með áhugaverða sýna …
Ólöf Birna Tómasdóttir leikstjóri og handritshöfundur er með áhugaverða sýna á lífið. Hún gerir gamanmyndir með alvarlegum undirtóni enda er ekki allt sem sýnist í veröldinni. mbl.is/Aldís Ósk Böðvarsdóttir

Ólöf Birna Torfadóttir leikstjóri og handritshöfundur, á móður sem er með meirapróf á allskonar vinnuvélar. Hún var ekki alin upp við að vera dömuleg eins og margar stúlkur og hefur fengið á baukinn stundum fyrir það. Hún gerir áhugaverðar kvikmyndir um konur fyrir samfélagið. Hvernig á að vera klassa drusla? er kvikmynd eftir hana sem kom út í febrúar í fyrra og hefur hún nú hafið framleiðslu á kvikmyndinni Topp 10 möst, sem er spennandi gamanmynd með smávegis dramatísku ívafi.

„Hún fjallar um konu á fimmtugsaldri sem hefur fengið leið á lífinu og ákveður að gera eitthvað stórtækt í því. Hún ákveður að fara í ferðalag um suðurlandið og gera hluti sem hún hefur aldrei fengið tækifæri til að gera áður. Á sama tíma kynnumst við þrítugum kvenfanga sem fær þær fréttir að barnsfaðir hennar sem býr á Egilsstöðum, vill að hún afsali sér forræðinu yfir dóttur þeirra og leyfi nýju konunni sinni að ættleiða hana. Hún strýkur þá úr fangelsi, endar óvænt í bílnum hjá þessari fimmtugu á leið út úr Reykjavík og saman uppfylla þær svo þennan topp 10 möst lista.“

„Við vinkonurnar erum oft og tíðum hræðilega hallærislegar“

Af hverju ákvaðstu að gera kvikmynd um klassa druslur?

„Nafnið Hvernig á að vera klassa drusla? var klárlega ádeila á neikvæða merkingu orðsins drusla. Myndin snérist um að taka valdið til baka líkt og við gerum með druslugöngunni. Að konur megi ekki vera frjálslegar í sínu kynlífi án þess að vera kallaðar druslur í neikvæðri meiningu en ef karlmaður gerir það sama er hann alger foli. Boðskapurinn var smávegis „fuck you“ putti í andlitið á þessum hugsunarhætti.

Sagan kom til mín meðan ég var í mjög leiðinlegri sumarvinnu úti á landi og hafði einhvern veginn ekkert að gera nema vinna og horfa á bíómyndir meðan sumarið leið. Ég horfði á mikið af gamanmyndum þar sem maður var að kenna öðrum manni að „hösla“ gellur. Ég veit ég hef sjálf hjálpað vinkonum mínum eða þær mér í strákamálum gegnum tíðina og mig langaði bara að sjá þá hlið af þessari sögu. Því mér finnst konur oft vera í frekar leiðinlegum aukahlutverkum í svona gamanmyndum, einhvern veginn voðalega fullkomnar og alltaf að skamma karlana. Það er bara ekki minn raunveruleiki.

Við vinkonurnar erum oft og tíðum hræðilega hallærislegar, ógeðslega fyndnar, kjánalegar og alveg langt frá því að vera fullkomnar. Mér fannst bara vanta þá hlið í kvikmyndir, það er alveg pláss fyrir bæði kynin.“

Karlar eru folar þegar þeir stunda kynlíf en konur hórur …
Karlar eru folar þegar þeir stunda kynlíf en konur hórur - er upplifun Ólafar Birnu sem leggur þessa hugmynd fram á margskonar hátt í kvikmyndum sínum. mbl.is/Aldís Ósk Böðvarsdóttir

Hefur gaman að því að brjóta upp staðalímyndir

Hvað með Topp 10 möst?

„Ég var byrjuð að vinna í handritinu af þeirri mynd meðan Klassa drusla var í framleiðslu. Ég fékk einmitt fyrsta handritsstyrkinn fyrir Topp 10 möst meðan við vorum í tökunum á Klassa druslu. Sú saga er örlítið flóknari og dýpri en aftur er ég með tvær aðalpersónur sem eru konur. Þær eru gríðarlega ólíkar, eins ólíkar og þær geta verið, en inn við beinið samt svo svipaðar.

Mig langaði að leika mér svolítið með það efni að eins ólík og við erum þá í grunninn erum við öll mannleg og höfum öll svipaðar þarfir til þess að virka sem manneskjur. Í þessari mynd er ég líka að brjóta svolítið vel upp staðalímyndir um fólk. Það sem þú heldur að manneskja sé, er svo miklu meira ef skyggnst er á bakvið tjöldin. Ég hef gaman af því að leika mér með staðalímyndir, en setja svo miklu meira lag yfir þær.

Segjum sem dæmi að ég sé að vinna með mótorhjólagengis-gellu. Konu sem virkar voðalega hörð og öflug, en í frítíma sínum býr hún til dúllur undir potta og pönnur sem hún er að selja á Facebook,“ segir Ólöf Birna og hlær.

Á mestu harðkjarna móður Íslands

Handritin hennar Ólafar Birnu koma beint frá hjarta hennar.  Ef til vill af því hún er kona að skrifa um aðrar konur eða jafnvel vegna þess að hún hefur gaman að því að skjóta á samfélagið menningarlegum þankaskotum eins og fleiri listamenn gera. 

„Hugsunarhátturinn í dag er ennþá frekar úreltur.“ 

Hver voru skilaboðin sem þú fékkst sem stelpa frá samfélaginu?

„Ég man alveg eftir því að það var ætlast voða mikið til þess að ég væri snyrtilegri. Ég átti að vera i fínum kjól í veislum og með hárið greitt. Fólk var ekkert endilega sátt með að ég reif mig alltaf úr kjólnum og fór út að drullumalla. Það var í Reykjaferðinni í sjöunda bekk sem ég var í fyrsta sinn kölluð hóra, af því ég kyssti tvo stráka sitthvorn daginn í einhverjum af þessum kossa leikjum sem allir voru í þá. Það er alveg stimplað inn í mann snemma að þú sem kona átt að vera fín, snyrtileg, dularfull, stillt og prúð. En frá foreldrum mínum fékk ég aldrei þau skilaboð. Móðir mín er mesta harðkjarna kona sem ég þekki. Hún er með öll vinnuvéla og meiraprófs réttindi sem hægt er að fá, mótorhjólaprófið líka.

Mamma vann alltaf í vinnum þar sem voru bara karlar að vinna. Hún var á byggingarkrana, steypubíl og fleira. Hún byggði part af álverinu á Grundartanga þar sem ég vinn núna þegar ég er ekki í kvikmyndagerð. Ég er einmitt eina konan á minni vakt í steypuskálanum. Mamma er öflug fyrirmynd fyrir mig og krafðist þess aldrei af mér að vera dömuleg sem barn. Ég mátti vera það sem ég vildi vera. En samfélagið gerði þær kröfur til mín hinsvegar. Mér finnst ég hafa fundið meira fyrir því þegar ég varð eldri að ég er kona og þarf af leiðandi ekki eins merkileg.“

Það vantar fleiri konur í kvikmyndaiðnaðinn að mati Ólafar Birnu, …
Það vantar fleiri konur í kvikmyndaiðnaðinn að mati Ólafar Birnu, sem segir mikilvægt að konur hjálpi hvor annarri áfram í lífinu. mbl.is/Aldís Ósk Böðvarsdóttir

Finnst húmor vanmetinn

Hvernig er að starfa í kvikmyndagerð?

„Ég elska að vera í kvikmyndagerð. Ég fann mig alveg þar. Ég elska að skrifa og skapa, að leikstýra og framleiða líka. Að búa eitthvað til frá grunni er dásamlegt og vil ég helst ekki vera að gera neitt annað. Að þessu sögðu langar mig að nýta tækifærið og hvetja konur sem eru að spá í kvikmyndagerð að láta verða að því. Það er gríðarleg vöntun á konum sérstaklega í tæknideildum. Það vantar konur í ljósa vinnu, konur að taka upp hljóð eða mynd. Það er erfitt að komast inn í bransann sem kona, en það er veldi í fjöldanum og við getum hjálpað hvor annarri áfram. Því vil ég segja við allar konur að láta verða að því og hvet ég þær að elta draumana sína.“

Hvaða sýn ertu með á hvernig hægt er að nota kvikmyndir til að hreyfa við samfélaginu? 

„Kvikmyndaformið er eitt það besta sem til er, að hreyfa við samfélaginu. Allir horfa á sjónvarp, kvikmyndir eða þætti. Og það eru margar mismunandi leiðir til að hreyfa við fólki í gegnum kvikmyndir, það fer í raun meira eftir hvaða málefni þú vilt fara á eftir. En kvikmyndaformið er klárlega besta vopnið til breytinga.“

Mér finnst húmor mjög vanmetin í kvikmyndum. Ég til dæmis nota húmor mjög mikið til að vekja athygli á ákveðnum málefnum í mínum verkum. Oft finnst mér það komast betur til skila heldur en með dramatík. Dramatíkin er áhrifamikil, að sjálfsögðu, en getur verið svolítið þung að taka, og er kannski ekki endilega fyrir alla. Maður þarf oft að vera rétt stemmdur til að láta vaða á eina þunga mynd. En gamanmynd er einhvern veginn alltaf hægt að grípa í. Ef grínið er gert rétt, þá hlær fólk af því að það er svo satt. Hlær í raun að fáránleikanum að hlutirnir séu svona ennþá í dag árið 2022 og þá svona lúmskt situr það aðeins í fólki. Það er eitthvað sem ég hef tekið eftir.“

Á bakvið eina senu í kvikmynd eru margar persónur og …
Á bakvið eina senu í kvikmynd eru margar persónur og allskonar vinna. Konur þurfa að stíga inn í kvikmyndaiðnaðinn og segja sögur kvenna að mati Ólafar Birnu. mbl.is/Aldís Ósk Böðvarsdóttir

Góð skemmtun er besta meðalið

Er skortur á skemmtilegu efni í kvikmyndum?

„Síðustu þrjú ár hafa sannarlega sýnt það að fólk vill sjá meira af skemmtiefni í kvikmyndahúsum. Þær gamanmyndir sem komu út árin 2020 og 2021 slógu virkilega í gegn og salan hefur stóraukist af bíómiðum. Ég held að það vanti bara að hafa allt í boði. Ekki bara dramatík, eða glæpamyndir en þær mega samt alveg vera með líka. Það er alveg pláss fyrir allar tegundir kvikmynda í bíó. Mig langar líka að sjá meira af íslenskum hryllingsmyndum, spennumyndum, þrillerum. Bara meira af öllu, þannig fáum við líka fleira fólk í bíó ef það er eitthvað í boði fyrir alla. Fólk er allskonar og með smekk eftir því.“

Hvernig ertu að upplifa tímana núna?

„Mér finnst við vera að færast hægt en örugglega í rétta átt. Það er að koma meira af einhverju öðru en því sem við erum vön. Það eru að koma fleiri gamanmyndir, það eru að koma spennumyndir líka, en auðvitað mætti úrvalið vera meira. Dramatíkin er bara svo hátíðavænt efni og ef myndir komast inn á flottar hátíðir er það gott fyrir landið er sagt, það er auglýsing fyrir Ísland.

En við megum ekki gleyma landanum sjálfum, við sem búum hérna eigum líka skilið að hafa aðgang að allskonar efni, meira úrvali af tegundum kvikmynda. Við höfum allt til þess að gera það. Við erum með slatta af bíóhúsum, við eigum allskonar skemmtilegar sögur, bæði þjóðsögur og ævintýri. Við erum með marga færa handritshöfunda, leikstjóra, tökumenn og  kvikmyndafólk yfir höfuð. Það þurfa ekki allar kvikmyndir að vinna Óskarinn. Góð skemmtun er besta meðalið.“

mbl.is