„Við erum ekki að stuðla að fitufordómum“

Guðríður Erla Torfadóttir eða Gurrý eins og hún er kölluð …
Guðríður Erla Torfadóttir eða Gurrý eins og hún er kölluð þjálfar keppendur í Biggest Loser.

Gurrý Torfadóttir Biggest Loser þjálfari sagði við Svala og Svavar í morgunþætti K100 að Biggest Loser hefði hjálpað mörgum að komast á strik. Þættirnir hefðu hvatt þá sem eru í ofþyngd að byrja að hreyfa sig. 

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir sem er í samtökum um Líkamsvirðingu gagnrýndi Biggest Loser harðlega á dögunum. Þegar Svali og Svavar spurðu Gurrý út í Töru og hennar skoðanir sagði Gurrý að það væri kominn tími á að Tara léti til sín taka. Hætti að gagnrýna og færi að skrifa uppbyggilega pistla í stað þess að rakka niður það sem aðrir gera. 

„Við erum ekki að stuðla að fitufordómum. Það er fullt af fólki í ofþyngd sem er farið að æfa eftir Biggest Loser. 

Ég myndi segja við hana Töru að það sé kominn tími til að hún fari að skrifa eitthvað umbyggilegt í staðinn fyrir að gagnrýna aðra,“ sagði Gurrý í þættinum í morgun. Hljóðbrotið má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan. 

mbl.is