Ætlaði að svipta sig lífi en ...

Flugþjónninn Vilhjálmur Þór segir hvetjandi sögu sína í mjög opinskáu viðtali í janúar tölublaði MAN. Vilhjálmur Þór var tvítugur, of þungur og verulega þunglyndur þegar hann tók ákvörðun um að svipta sig lífi. Hann skrifaði kveðjubréf til fjölskyldunnar og var við það að smeygja snörunni um hálsinn. Örlögin komu hins vegar til bjargar og daginn eftir vaknaði hann með aðgerðaráætlun fyrir líf sitt. Tíu árum eftir þennan örlagaríka dag er Vilhjálmur hamingjusamur, í góðu starfi og vinmargur.

„Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti breyst svona mikið, að lífið gæti orðið svona gott,“ segir Vilhjálmur. Hann varð fyrir aðkasti og einelti í skóla frá 14 ára aldri vegna samkynhneigðar.

„Ég dró mig í hlé, borðaði tilfinningarnar mínar, eins og sagt er, og fór að fitna mjög mikið.“

Ástandið versnaði á næstu árum og þegar Vilhjálmur hóf menntaskólanám var hann orðinn 130 kíló og vanlíðanin mikil.

Eftir örlagadaginn mikla vaknaði Vilhjálmur eins og fyrr segir með aðgerðaráætlun. Framundan var stórt verkefni en Vilhjálmur stefndi á að missa 40 kíló, koma út úr skápnum, eignast kærasta og verða hamingjusamur. Fyrst um sinn voru göngur og hlaup aðalhreyfing Vilhjálms en fljótlega áttaði hann sig á því að hér þyrfti meira til.

„Þegar ég byrjaði hljóp ég milli vegstika, móður og másandi. Smám saman efldist þolið og ég gat hlaupið milli sveitabæja án þess að missa andann. Loks fékk ég mér einkaþjálfara og lagði allt mitt í þetta verkefni. Aldrei hvarflaði að mér vantrú á eigin getu eða uppgjöf.“ Einu og hálfu ári síðar og þrjátíu kílóum léttari kom Vilhjálmur út úr skápnum.

„Ég hefði aldrei komið út úr skápnum ef ég hefði ekki grennst. Sjálfstraustið jókst með hverju kílóinu sem fór og að lokum var mér orðið alveg sama um álit annarra. Fyrst ég hafði samþykkt sjálfan mig gat enginn annar verðfellt það hver ég væri.“

Hreyfing skiptir enn miklu máli í lífi Vilhjálms sem hefur gaman af því að hlaupa langar vegalengdir.

„Ég hef hlaupið nokkur hálfmaraþon en keppnishlaup heilla mig lítið.“

Þó Vilhjálmur hafi fundið hinn gullna meðalveg voru öfgarnar miklir á tímabili.

„Ég varð háður því að heyra hvað ég liti orðið vel út og þyngdartapið fór út í algjörar öfgar. Ég borðaði bara Tópas og drakk Pepsi Max. Einu máltíð dagsins borðaði ég seint að kvöldi, um miðnætti jafnvel. Léttastur varð ég 76 kg en hafði þyngstur verið tæp 130 kg svo þetta er ansi stór skali.“

Í dag nýtur Vilhjálmur lífsins, ferðast mikið og hreyfir sig en heldur sig eins og fyrr segir á hinum gullna meðalvegi.

Sólveig Þórarinsdóttir jógakennari prýðir forsíðu MAN.
Sólveig Þórarinsdóttir jógakennari prýðir forsíðu MAN.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál