Tók út sykur, hveiti, kaffi og áfengi

Þórunn Antonía sýndi styrkleika sinn og liðleika í Söngvakeppninni.
Þórunn Antonía sýndi styrkleika sinn og liðleika í Söngvakeppninni.

Þórunn Antonía Magnúsdóttir vakti mikla athygli fyrir frumlegt atriði í undakeppni Söngvakeppninnar um síðustu helgi. Þórunn lét sér ekki nægja að syngja og sýndi að hún er í fanta formi.

Í samtali við Smartland segist Þórunn vera orðin háð Hot yoga í Laugum en þangað reynir hún að fara þrisvar sinnum í viku með karókí-vinkonu sinni henni Dóru Júlíu. Að fara í spa eftir tímann segir hún himneskt. „Tvisvar í viku er er ég í hópþjálfun með mínum uppáhalds konum og besta þjálfara landsins henni Gerðu Jónsdóttur. Hún er alveg mögnuð og þetta er alltaf öðruvísi og skemmtilegt. Áherslan lögð á liðleika og hreysti frekar en að einblína á líkamsparta,“ segir Þórunn. 

„Ég reyni að lesa líkamann minn og orkuna mína hverju sinni og fara eftir því. Stundum þarf maður að hvíla sig og það má svo sannarlega. Þetta á ekki að vera kvöl og pína og ég er með króníska verki sem ég er að vinna mig út úr með hreyfingu og mataræði þannig að suma daga er ég slæm og tek það rólega, þannig að stundum þarf ég bara að sleppa æfingu vegna verkja og hlúa að mér og það er allt í lagi. Lífið er ekki keppni.“ 

Skiptir mataræðið máli?

„Mataræðið skiptir mig öllu máli því að ef meltingin er í ólagi þá fer allt til fjandans. Ég hef til dæmis tekið út sykur, hveiti, kaffi og áfengi allan janúarmánuð til þess að koma mér í gott form. Ég borða mjög hollt yfir höfuð heilsunnar vegna, ekki til að grennast, þvert á móti, ég grennist ef ég borða rusl. Ég borða mikið grænmeti, holla fitu og fisk og ef mig langar í nammi þá fæ ég mér möndlusmjör með kókósolíu sem ég set í klakabox og frysti, meinhollar fitubombur.“

Sterk miðja hjálpaði Þórunni þegar hún hékk í stiganum.
Sterk miðja hjálpaði Þórunni þegar hún hékk í stiganum. skjáskot/Instagram

Þórunn fékk tvær af sterkari konum landsins Annie Mist Þórisdóttur og Arnhildi Önnu Árnadóttur til að vera með sér á sviðinu. Þær héldu til að mynda uppi stiga þar sem Þórunn hékk í sitjandi stöðu og söng. Hún segir að níu ára ballettnám sitt hafi komið að góðum notum auk þess sem  sterk miðja hafi verið lykilinn. 

Ballettnámið kom líka að góðu þegar hún tók splitt í stiganum. „Ég er líka mjög dugleg að teygja og suma daga líður mér eins og spítukalli, sérstaklega í kuldanum en þá er einmitt mikilvægt að fara rólega af stað og hita vel upp áður en maður reynir að henda sér í splitt.“

Þórunn Antonía var meðal keppenda á fyrra undanúrslitakvöldinu.
Þórunn Antonía var meðal keppenda á fyrra undanúrslitakvöldinu. Ljósmynd/RÚV

„Mér finnst mikilvægt að konum og körlum líði vel með sjálf sig og finni hreyfingu sem hentar hverjum og einum, það er bannað að stíga á vigtina og dæsa og pína sig í æfingum sem eru leiðinlegar, best er að finna eitthvað sem er skemmtilegt og mann raunverulega langar til að mæta og þá kemur árangurinn,“ segir Þórunn þegar hún er spurð að því hvort henni finnist mikilvægt fyrir konur að vera líkamlega sterkar frekar en að leggja áherslu á það að grennast. 

„En auðvitað ef fólk er í yfirvigt og þarf að grennast heilsunnar vegna þá er það auðvitað eitthvað sem er í lagi að fókusa á en þetta þarf að koma út frá sjálfsást ekki sjálfshatri. Þannig að númer eitt á hreyfing að vera vegna alhliða heilsu, ekki vegna útlitsdýrkunar eða kílóafjölda, líkaminn er heild og hreyfing ætti að láta okkur líða vel.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál