Fimm leiðir að betri líðan og meiri hamingju

Erna Héðinsdóttir er með jákvæðnina að leiðarljósi.
Erna Héðinsdóttir er með jákvæðnina að leiðarljósi. ljósmynd/aðsend

Erna Héðinsdóttir markþjálfi leggur áherslu á jákvæða sálfræði bæði í leik og starfi. Í nýjum pistli frá henni fer hún yfir það hvernig er hægt að nýta nokkrar einfaldar leiðir til þess að öðlast meiri hamingju og betri líðan.

Öll viljum við vera glöð og hamingjusöm í daglegu lífi. Sumum tekst það nokkuð vel og aðrir þurfa að hafa aðeins meira fyrir því. Ýmsar aðferðir eru færar til að auka vellíðan og hamingju og misjafnt hvað hentar hverjum og einum.

Jákvæð sálfræði hefur rannsakað þónokkrar aðferðir sem hafa þau áhrif að fólk finnur meira fyrir jákvæðum tilfinningum og er hamingjusamara eftir að hafa stundað þær. Aðferðirnar eru í eðli sínu einfaldar, en árangurinn af sumum þeirra er mun betri séu þær ástundaðar daglega. Kannski bara líkt og þegar við æfum okkur fyrir maraþon, regluleg þjálfun gerir okkur betri og betri. Aðrar eru þannig að við gerum þær sjaldnar en áhrifa þeirra gætir samt lengi á eftir. Hér á eftir verður fjallað um fimm aðferðir sem auka vellíðan og hamingju.

1. Skrifaðu dagbók

Það er mikilvægt að halda dagbók þegar þú ert markvisst að vinna að því að auka vellíðan þína og hamingju. Í dagbókina skrifarðu hvað var gert uppbyggilegt hvern dag og gott er að velta fyrir þér og skrifa um hvernig þú upplifir æfingarnar og hvaða áhrif þær hafa til skemmri og lengri tíma. Einnig er gott að geta skrifað um eitt og annað sem maður uppgötvar í eigin fari eða annarra við framkvæmd æfinganna eða í daglega lífinu – því það lætur okkur í hendur alls kyns verkefni sem nýta má til sjálfsþroska.

2. Hugleiddu

Núvitundarhugleiðsla geta haft jákvæð áhrif á heilastarfsemi og starfsemi ónæmiskerfisins. Einnig getur regluleg ástundun núvitundarhugleiðslu bætt samskiptahæfni fólks og gert það þolinmóðara og umburðarlyndara í samskiptum. Hún getur haft jákvæð áhrif á króníska verki og rannsóknir hafa einnig sýnt að návitundarhugleiðsla getur dregið úr einkennum ADHD sé hún stunduð reglulega.

Það eru ýmsar leiðir í boði ef fólk vill prófa sig áfram í núvitundarhugleiðslum. Nokkur öpp bjóða upp á hugleiðslur:

Calm er hugleiðsluapp á ensku með þónokkrum opnum hugleiðslum og mörgum hugleiðslum ef fólk greiðir áskrift. Þetta app er í þónokkru uppáhaldi hjá mér vegna þess hvað það er fræðandi og fjölbreytt. Ný hugleiðsla dagsins á hverjum degi, en svo eru einnig ýmsir flokkar af hugleiðslum í boði s.s. sjálfstraust, þakklæti, einbeiting svo eitthvað sé nefnt. Fyrir byrjendur er frábært að byrja á „7 days of calm“ og fikra sig yfir í „21 days of calm“. Það er farið yfir mismunandi aðferðir af núvitundarhugleiðslum og hvað núvitund er.

HappApp er íslenskt app þar sem í boði er hugleiðsla á að minnsta kosti átta vegu á íslensku,  4-15 mínutur í hvert sinn.

HeadSpace býður upp á tíu ókeypis tíu mínútna hugleiðslu, en svo er hægt að gerast áskrifandi til að fá meira.

Á Sound Cloud má finna núvitundaræfingar á íslensku frá Ásdísi Olsen og einnig hugleiðsla úr bókinni Núvitund – hagnýt leiðsögn til að finna frið í hamstola heimi.

Á Youtube má finna ógrynni af alls kyns hugleiðslu, en vert er að nefna sérstaklega Jon Kabat-Zinn. Hann er einn af stóru nöfnumun þegar kemur að núvitund og gaman að nefna að hann er á leið til Íslands í vor og verður með viðburð í Hörpu.

Svo er boðið upp á ýmis núvitundarnámskeið ef fólk vill læra meira.

3. Rifjaðu upp þrjú jákvæð atvik í lok dags

Í lok hvers dags, rifjaðu upp þrjú jákvæð atvik sem gerðust þennan dag og skrifaðu í dagbókina þína. Veltu líka fyrir þér hvað varð þess valdandi að þessi atvik urðu og hvaða þátt þú áttir í að láta þau gerast.

Æfingin vekur jákvæðar tilfinningar og með því að gera hana daglega yfir lengra tímabil þjálfum við okkur í að taka eftir jákvæðum skemmtilegum atvikum í lífinu og við það aukast líka jákvæðar tilfinningar okkar til okkar sjálfra og umhverfisins.

4. Gerðu fimm góðverk sama daginn

Veldu þér einn dag þar sem þú gerir fimm góðverk sem auðvelda öðrum í kringum þig lífið. Mikilvægt er að þau séu öll framkvæmd sama daginn. Ekki er nauðsynlegt að þau séu undirbúin eða stór, stundum er gaman að grípa tækifærin þegar þau gefast, en einnig má undirbúa þau. Samúð og góðvild í garð náungans dregur úr streitu, eflir ónæmiskerfið og dregur í neikvæðum tilfinningum s.s. reiði, kvíða og þunglyndi.

5. Skrifaðu þakklætisbréf

Veldu eina manneskju í þínu lífi sem þú ert þakklát fyrir og skrifaðu henni bréf þar sem þú tjáir henni þakklæti þitt. Þú velur svo hvort þú sendir bréfið, lest það fyrir viðkomandi eða átt það fyrir þig. Það er vissulega dásamlegt að tjá manneskjunni þakklæti þitt, en æfingin hefur jákvæð á þann sem skrifar bréfið, jafnvel án þess að það sé afhent. Þakklæti er mikilvægur hluti vellíðanar. Það fær okkur til að stíga til baka og skoða hvað við höfum í lífinu og fyrir hverja  við erum þakklát. Þetta myndar mótvægi við það að taka hlutum og fólki sem sjálfsögðu og veitir okkur þannig meiri fullnægju og hamingju.

Það mikilvæga í öllum þessum æfingum er að gefa sér tíma og næði til að framkvæma þær, vera trúr sjálfum sér og gefa sér svigrúm til að ganga það vel stundum og stundum ekki. Þetta er ekki keppni, aðeins ferðalag að betri líðan og meiri hamingju.

Gangi ykkur vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál