Vantaði áskorun og byrjaði að hlaupa

Guðni Páll Pálsson er að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í …
Guðni Páll Pálsson er að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum. Ljósmynd/Aðsend

Guðni Páll Pálsson er einn átta Íslendinga sem keppa fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum sem fram fer á Spáni 12. maí. Guðni Páll æfði íþróttir þegar hann var yngri í Vík í Mýrdal en byrjaði að hlaupa fyrir alvöru fyrir tæpum sex árum. 

Af hverju byrjaðir þú að hlaupa? 

„Það má segja að ég hafi byrjað að hlaupa eftir að ég flutti heim úr námi frá Danmörku haustið 2012. Ég held að ég hafi byrjað að hlaupa af því að mig vantaði einhverja áskorun eftir að námið var búið. Fram að því hafði ég hlaupið eitthvað en aldrei neitt markvisst. Ég tók þátt í Powerade-vetrarhlaupunum þennan vetur og náði strax miklum framförum. Fór úr því að hlaupa á 43:30 í októberhlaupinu og hafna í 70. sæti yfir í að hlaupa á 37:30 í febrúar og hafna í 6. sæti. Eftir þetta var ekki aftur snúið. Ég skráði mig í Laugavegshlaupið það sumarið og byrjaði að æfa af miklum krafti,“ segir Guðni Páll.

„Hlaup eru orðin ansi stór hluti af mínu lífi og af mér sjálfum. Það er margt sem spilar þar inn í. Mér finnst mjög skemmtilegt að hafa einhver markmið og áskoranir til að stefna á. Ekki síst vegna æfinganna og aðdraganda þessara keppna eða áskorana. Það ferli er oft jafnskemmtilegt ef ekki skemmtilegra en keppnin sjálf. Mér finnst líka frábært að upplifa frelsið sem fylgir því að geta hlaupið langar vegalengdir um fjöll og firnindi.“

Er skemmtilegra að hlaupa utanvegar en í götuhlaupum? 

„Í mínum huga er það engin spurning. Það er mun skemmtilegra að hlaupa utanvega eða úti í náttúrunni. Götuhlaup geta verið skemmtileg inni á milli og eru talsvert frábrugðin, en ég kýs oftast utanvegahlaup.“

Segðu mér frá heimsmeistaramótinu sem þú ert að fara taka þátt í.

„Þetta er 85 kílómetra hlaup með 4.900 hæðarmetrum sem haldið er í Penyagolosa-þjóðgarðinum á Spáni. Mótið er haldið árlega á mismunandi stöðum í heiminum. Þetta verður í fjórða sinn sem ég tek þátt fyrir Íslands hönd. Ég hef gaman af svona áskorunum og finnst líka mjög spennandi að fá að keppa fyrir landsliðið. Við erum átta keppendur sem förum fyrir hönd Íslands þetta árið,“ segir Guðni en ásamt honum keppa þau Elísabet Margeirsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, Daníel Reynisson og Sigurjón Ernir Sturluson.

Elísabet Margeirsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir og …
Elísabet Margeirsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir taka þátt í heimsmeistaramótinu. Ljósmynd/Aðsend
Strákarnir í liðinu.
Strákarnir í liðinu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig æfir maður sig fyrir svona hlaup? 

„Það er örugglega hægt að skrifa bók um þetta, en ég get kannski nefnt nokkra punkta. Mikilvægastar eru langar æfingar þar sem maður er að hlaupa og brölta á fjöllum í fjóra, fimm, jafnvel sex klukkutíma. Þannig nær líkaminn að aðlagast því að vera lengi á ferðinni og halda orkunni uppi. Það er nefnilega mjög mikilvægt þegar farið er í svona langt hlaup að ná að halda orkustiginu í líkamanum. Þess vegna er líka mikilvægt að æfa orkuinntöku á æfingum. Ég nota aðallega GU-orkugel sem er handhæg orka sem hægt er að hafa á sér og skella í sig í hlaupatúrum. Þrátt fyrir að maður sé að æfa fyrir langt hlaup þar sem farið er frekar hægt yfir finnst mér mikilvægt að hafa spretti inni í æfingunum til þess að viðhalda góðum hlaupastíl og styrkja vöðva, hjarta og æðakerfi.“

Hvernig æfir þú þig venjulega?

„Þegar ég er ekki að undirbúa mig sérstaklega fyrir keppni þá hleyp ég kannski 80-90 kílómetra á viku með 2-3 sprettæfingum í vikunni. Ég hleyp oftast til og frá vinnu, sex kílómetra hvora leið. Mér finnst það frábær leið til þess að byrja daginn og gott að koma hlaupunum svona inn í fasta rútínu hjá manni.“

Hvað gerir þú til þess að jafna þig eftir löng og erfið hlaup?

„Strax eftir hlaupið finnst mér mikilvægt að borða vel. Líkaminn er búinn að ganga á allar orkubirgðir og missa mikið af vökva og steinefnum. Þennan missi þarf að bæta upp. Síðan vil ég meina að svefn sé mjög mikilvægur. Ef aðstæður leyfa myndi ég reyna að ná inn auka svefni næstu nætur á eftir. Síðan er bara gott að byrja fljótlega að hreyfa sig aftur. Ekki til að byrja að æfa aftur heldur bara til að koma blóðinu á hreyfingu. Það getur flýtt mikið fyrir endurheimt. Svo er oft góð hugmynd að gera eitthvað annað en að hlaupa dagana eftir svona hlaup, til dæmis hjóla eða synda.“

Þarf að huga að mataræðinu fyrir hlaup?

„Ég reyni að passa upp á mataræðið allt árið án þess að fara út í einhverjar öfgar. Þess vegna breyti ég ekki mikið mataræðinu þegar kemur að svona hlaupum. Morguninn fyrir hlaupið reyni ég að borða bara eitthvað einfalt sem ég hef oft fengið mér áður og veit að fer vel í mig. Brauðsneið og banani er eitthvað sem virkar vel fyrir mig og er frekar auðvelt að nálgast hvar sem er í heiminum.“

Áttu þér uppáhaldshlaupaminningu? 

„Mér er mjög minnisstætt þegar ég og Örvar félagi minn hlupum Laugaveg og Fimmvörðuháls sumarið 2016. Leiðin er um 80 km löng með 2.500 hæðarmetrum. Ferðin tók okkur um níu klukkustundir. Við fengum hrikalega flott veður og vorum í algjörri fjallavímu mestallan tímann.“

Örvar og Guðni hlupu Laugaveg og Fimmvörðuháls saman.
Örvar og Guðni hlupu Laugaveg og Fimmvörðuháls saman. Ljósmynd/Aðsend

Hvað myndir þú ráðleggja þeim sem langar til þess að reima á sig hlaupaskóna í vor?

„Það er kannski gömul tugga, en ég myndi ráðleggja þeim að byrja rólega. Það eru allt of margir sem ætla sér of mikið og lenda í meiðslum. Það er svo freistandi að æfa meira þegar maður er að komast í gott form en það er betra að gera þetta hægt og sígandi.“

Hægt er að fylgjast með hópnum á Facebook en einnig er hægt að fylgjast nánar með æfingum Guðna Páls á Strava-síðunni hans en Guðni Páll segir Strava vera eins konar Facebook fyrir hlaupara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál