Árangurinn lét ekki á sér standa

Helga Margrét Gunnarsdóttir er dugleg að deila heilsusamlegum ráðum og …
Helga Margrét Gunnarsdóttir er dugleg að deila heilsusamlegum ráðum og uppskriftum á samfélagsmiðlum. Arnþór Birkisson

Helga Margrét Gunnarsdóttir flugfreyja hefur alla tíð hreyft sig mikið og hugað að heilsunni. Í vetur fór hún að huga enn betur að mataræðinu og með aðstoð næringarþjálfara lét árangurinn ekki á sér standa. 

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Ég hreyfi mig um fimm sinnum í viku og huga vel að næringunni, mataræðið er algjör undirstaða að heilbrigðu líferni og að mínu mati skiptir næringin 85% en hreyfingin 15%. Þetta vinnur auðvitað allt saman, þegar við erum dugleg að hreyfa okkur sækjum við frekar í hollari næringu,“ segir Helga Margrét. 

Hefur þú alltaf hugsað um heilsuna?

„Ég hef verið í íþróttum allt mitt líf og æfði handbolta sem barn. Ég fór í lögregluskólann árið 2004 og fór upp frá því að æfa meira, en ég starfaði sem lögreglumaður í 13 ár áður en ég færði mig yfir í flugið. Ég hef alltaf verið hrifin af hollri og næringarríkri matvöru og yfirleitt valið frekar fæðu sem ég veit að gerir mér gott.“

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að breyta mataræðinu fyrir rúmu hálfu ári?

„Ég var á nokkuð löngum tíma búin að bæta á mig nokkrum kílóum en var samt sem áður að æfa um fimm sinnum í viku. Mig langaði einfaldlega að sjá það í speglinum að ég væri að æfa svona mikið og fór því aðeins að skoða matarræðið. Ég hafði alltaf tekið svona tarnir í matarræðinu, borðað hollt í smá tíma en ekkert endilega hugað að magninu.“

Helga Margrét setur hreyfinguna í forgang.
Helga Margrét setur hreyfinguna í forgang. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hverju breyttir þú?

„Ég byrjaði að telja macros með aðstoð næringarþjálfara, en í því felst að þú borðar visst mikið magn af próteini, kolvetnum og fitu yfir daginn. Ég fór því að vigta matinn sem ég borða til að vera viss um að borða nóg af hverjum flokki og fór að borða meira en ég var vön að gera. Ég skrái svo allt sem ég borða inn í appið myfitnesspal og fylgist þannig með næringunni yfir daginn.“

„Ég var áður að borða mjög holla fæðu en sennilega of lítið suma daga og of mikið aðra daga og of mikið af kolvetnum. Þegar ég fór að borða eftir réttum hlutföllum fóru hlutirnir að gerast. Ég ákvað líka að sleppa þessum blessaða nammidegi þar sem allt er leyfilegt og borða jafnmikið alla daga. Það er ekkert bannað í matarræðinu mínu og ég borða það sem ég vil en passa að halda mataræðinu 85-90% hollu og skrái allt inn í appið.“

Hverju skiluðu breytingarnar?

„Mér fannst ég verða orkumeiri og ég fór að léttast en fyrst og fremst fór ég að finna fyrir bætingu í ræktinni sem mér fannst besti kosturinn.“

Finnst þér mataræðið skipta meira máli en hreyfingin?

„Í rauninni já, mér finnst mataræðið vera um 85% og hreyfingin rest. En þetta er alveg eins og með vítahringinn sem margir kannast við að borða óhollt og nenna þá ekki á æfingu, hjá mér virkar þetta alveg eins nema ég fer á æfingu sem leiðir til þess að ég borða hollt og þannig líður mér best.“

Hvaðan sækir þú innblástur að heilsusamlegu lífi?

„Ég deili ótrúlega mikið af uppskriftum í story á instagraminu mínu, helgamagga og finnst mjög hvetjandi fyrir sjálfa mig að vera góð fyrirmynd fyrir aðra bæði varðandi matarræði og æfingar. Fyrst og fremst vil ég vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín tvö og dásamlegast er þegar þau eru að herma eftir mér þegar ég tek æfingu heima í stofu. Á samfélagsmiðlum reyni ég að fylgjast með heilsusamlegu fólki, mér finnst það hvetjandi og það þurfa allir á hvatningu að halda, líka ég.“

Þú ert flugfreyja, hvernig er að skipuleggja máltíðir og æfingar þegar þú vinnur langa daga og þarft oft að vakna um miðja nótt?

„Þá daga sem ég er að fljúga fer ég yfirleitt ekki í ræktina nema það sé seinnipartsflug. Þess vegna er einmitt svo mikilvægt að hafa næringuna 100% og detta ekki í eitthvað rugl þó maður sé þreyttur. Mér finnst langbest að skipuleggja mig vel og taka með mér nesti hvert sem ég fer og er einmitt dugleg að deila nestishugmyndum á instagram-reikningum mínum, helgamagga. Æfingafötin eru alltaf það fyrsta sem ég pakka ofaní ferðatöskuna en með því að hreyfa mig endurhleð ég orkuna mína og er öll hressari. Ég vel alltaf fyrst að fara á æfingu, þvotturinn og rykið heima fer ekki neitt.“

Hvernig ætlar þú að hreyfa þig í sumar?

„Ég ætla að halda áfram mínu striki en ég reyni að hafa æfingarnar sem fjölbreyttastar. Ég er bæði að æfa í Mjölni í lokuðum Víkingaþreks tímum með vinnufélögum mínum hjá Icelandair. Svo er ég líka að æfa í WorldClass og fer helst í opna tíma þar, hotyoga, spinning, buttlift og tabata.

Með hverju mælir þú fyrir fólk sem er að byrja á því að taka lífstílinn í gegn?

„Huga að mataræðinu númer eitt tvö og þrjú. Skoðaðu hvað þú ert að borða og reyndu að skipta því út fyrir hollari kosti. Ég mæli með myfitnesspal-appinu til að skrá niður það sem þú borðar og að fara á æfingu á laugardegi eða sunnudegi þá ertu líklegri til að eiga hollari helgi. Að byrja hægt og rólega, fara í göngutúra og bæta svo síðar við æfingarnar.“

Helga Margrét er með heimasíðu í vinnslu þar sem meðal annars verður hægt að finna hollar uppskriftir og annað tengt heilbrigðum lífstíl. Þangað til er hægt að fylgjast með Helgu Margréti á Instagram. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál