„Ég var eiginlega bara að kafna úr vanlíðan“

Íris Hildur Birgisdóttir er 28 ára gömul. Hún elskar að …
Íris Hildur Birgisdóttir er 28 ára gömul. Hún elskar að vera úti í náttúrunni og er andlega sinnuð. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Íris Hildur Birgisdóttir er 28 ára og nýlega útskrifuð úr meistaranámi í markaðsfræði. Þrátt fyrir ekki svo háan aldur hefur hún gengið í gegnum hreinsunareld þegar kemur að því að laga andlega og líkamlega heilsu. Hún skrapaði botninn eftir jólin 2017 og ákvað að taka málin í sínar hendur. Í dag er hún miklu léttari á sér en hún þverneitar að segja hvað hún sé búin að léttast mikið því hún segir að kílóafjöldi eigi ekki að skipta neinu máli. 

„Ég ákvað að nú skyldi ég taka skref í átt að betri heilsu eftir jólin 2017. Mér hafði aldrei liðið jafn illa líkamlega, og þá sérstaklega eftir öll jólaboðin með tilheyrandi kjötáti og sukki. Ég var alveg svakalega bjúguð og var eiginlega bara að kafna úr vanlíðan. Ég var á skjaldkirtilslyfjum þar sem skjaldkirtillinn minn var orðinn vanvirkur en ég hef verið á þeim í þrjú eða fjögur ár. Ég var alltaf þreytt, orkulítil og vanlíðanin var mikil. Þótt ég væri á nokkuð stórum skammti af skjaldkirtilslyfjum leið mér ekkert betur og þau hjálpuðu mér alveg klárlega ekki að léttast eins og ég hélt þau myndu gera þegar ég byrjaði á þeim. Blóðprufur sýndu líka að bólgur í líkamanum mínum voru að aukast.

Ég ákvað eftir þessi jól 2017 að ég yrði að gera eitthvað til þess að bæta heilsuna mína. Mig var búið að langa að prófa jóga lengi og hafði heyrt góða hluti af jógastöðinni Sólum sem er úti á Granda. Ég ákvað að nú væri rétti tíminn til að koma mér af stað og fór strax milli jóla og nýárs og keypti mér kort þar. Ég get eiginlega ekki lýst því hvað mér fannst tímarnir þar hjálpa mér mikið. Ég fann ekki bara hreyfingu sem ég elskaði heldur leið mér svo svakalega vel andlega eftir að ég byrjaði að mæta þangað og ég hlakkaði alltaf til að mæta í næsta tíma. Ég ætla ekki að ljúga og segja að tímarnir sem ég mætti í hafi verið auðveldir, þeir tóku svakalega á, ég man eftir nokkrum skiptum í hot jóga þar sem mér fannst ég gjörsamlega vera að deyja en þrjóskaðist alltaf áfram, stundum með tárin í augunum, en neitaði að gefast upp. En vá hvað mér leið alltaf vel eftir á,“ segir Íris. 

Hvernig var lífsstíllinn þinn?

„Ég var ekki endilega að borða óhollt allan daginn en ég hafði komið mér upp slæmum venjum þegar kom að mataræði. Ég keypti til dæmis nánast alltaf nammi, snakk og/eða ís þegar ég fór að versla í matinn. Ég eldaði oft mat sem mér fannst góður en sem mér leið alveg svakalega illa af eftir á. Ég var líka mjög dugleg að kaupa skyndibitafæði og þá sérstaklega þegar ég fann fyrir stressi, þá var skyndibitamatur það sem ég leitaði í til þess að láta mér líða vel. Ef ég var stressuð út af skólanum þá fór ég oft beint eftir tíma og keypti mér skyndibita og jafnvel nammi líka og borðaði það oft ein heima og leið svo svakalega illa eftir á.

Ég hreyfði mig alveg eitthvað, fór í göngutúra og stundum í ræktina, en oftast fannst mér það vera kvöð að mæta í ræktina þar sem ég fór oft svo mikið að hugsa um hvað öðrum fyndist um mig. Ég var algjörlega föst í neikvæðu hugsanamynstri, sérstaklega þegar það kom að hugsunum sem viðkomu mér og líkamanum mínum og ég reif sjálfa mig niður á hverjum degi fyrir að vera of þung. Mér fannst ég vera föst í vítahring þar sem ég borðaði daglega mat sem lét mér líða hrikalega illa. Ég fór alltaf upp í rúm með bullandi samviskubit og vonaði að næsti dagur myndi verða betri. Ég hugsaði alltaf þegar ég fór að sofa að morgundagurinn yrði betri og að á morgun myndi ég bara borða hollt!“

Íris segir að hún hafi þurft að breyta hugarfari sínu til þess að ná árangri. 

„Það sem ég er mest þakklát fyrir í dag eftir að hafa breytt um lífsstíl er að hafa náð að breyta hugarfarinu hjá mér. Um leið og ég náði að breyta því fór ég að hafa trú á sjálfri mér og að ég gæti haft stjórn á því sem að ég borðaði. Ég borða mestmegnis hollan grænkeramat (plant based) en leyfi mér alveg enn þá eitthvert sukk. Ég er nánast alveg hætt að borða þegar mér líður illa og er búin að losna við matarfíknina sem ég var með.“

Hvers vegna hafðir þú þyngst og orðið óánægð með þig?

„Ég held ég hafi verið með matarfíkn frá því að ég man eftir mér og ég var alltaf með frekar óheilbrigt samband við mat. Ég flokkaði allan mat sem hollan eða óhollan og ef ég borðaði óhollan mat fékk ég alltaf svakalegt samviskubit. Ég leitaði oft í óhollan mat þegar mér leið illa, en svo jafnvel líka þegar mér leið vel. Kílóin læddust þannig séð hægt og rólega að mér, sérstaklega eftir 15 ára aldurinn þegar ég hætti að æfa fótbolta.

Heilsan mín fór hins vegar snarversnandi eftir að ég lenti í smá áfalli í lok árs 2012. Ég tók það mjög mikið inn á mig og líkamsímynd mín hafði aldrei verið verri. Ég var líka undir svakalega miklu stressi þegar ég var í sálfræðináminu mínu en ég byrjaði í því haustið 2012. Ég kunni illa að stjórna stressinu tengt náminu og í staðinn fékk ég huggun í mat.“

Hvernig breyttir þú mataræði þínu?

„Fyrsta skrefið sem ég tók var að fasta 12-16 tíma á dag. Ég ákvað líka að hætta að kaupa nammi, snakk og ís þegar ég fór að versla í matinn. Í staðinn setti ég mér það fyrir reglu að ef mig myndi langa í þessa hluti þá þyrfti ég að gera mér sérferð til þess að kaupa mér það, og þá kaupi ég mér bara eins mikið og ég ætla að borða þann daginn þannig það séu ekki freistingar heima daginn eftir. Þetta er alla vega leið sem snarvirkar fyrir mig, ég er ekki hætt að borða þessa hluti en hins vegar borða ég þá miklu miklu sjaldnar þar sem ég nenni oft ekki að gera mér ferð til þess að kaupa þá, og maður nær þá líka oft að hugsa hvort maður sé í rauninni kannski bara svangur, hvort manni líði illa og langi þess vegna í þá, eða jafnvel hvort manni leiðist bara einfaldlega.

Ég ákvað líka að ég ætlaði ekki að neita mér um neitt, ef það er eitthvað sem ég er búin að læra um sjálfa mig þá er það að um leið og ég setti einhvern mat á bannlista þá langaði mig bara meira í hann. Ég náði líka að hætta að hugsa um mat með svona svarthvítum hugsunarhætti.

Í dag er ég mestmegnis á grænkerafæði, en mér hefur aldrei liðið jafn vel á neinu mataræði og það kom mér á óvart hvað þetta mataræði hefur mikið upp á að bjóða. Ég reyni að alltaf velja mat sem er með allra mest af næringu (whole foods plant based diet).

Mér finnst ég hafa endalausa orku. Hugurinn hefur sjaldan verið jafn skýr og mér hefur aldrei liðið betur.

Ég hef líka aldrei verið að telja kaloríur og spái ekkert í því. Mér er alveg sama þótt einhver matur sé hitaeiningaríkur svo lengi sem hann er næringarríkur.“

Hættir þú að borða eitthvað?

„Í rauninni hef ég bara reynt að halda dýraafurðum í algjöru lágmarki, ég er að reyna að kötta það alveg út hjá mér. Annars er ekkert á bannlista þannig séð hjá mér. En ég reyni að forðast unnar matvörur og borða sem mest heildrænt (whole foods).

Ég drekk enga orkudrykki og tek engin fæðubótarefni fyrir utan vítamín.

Ég borða heldur ekki neitt sem stendur á að sé kaloríulaust eða hitaeiningasnautt. Þá er það líklegast bara fullt af einhverjum aukaefnum. Ég er svo nýlega farin að prófa að hætta að nota olíu þegar ég er að matreiða, og ég fór strax að léttast hraðar eftir það.“

Hvað var að eyðileggja mataræði þitt áður fyrr?

„Það var líklegast bara of mikið af nammi, snakki, ís, skyndibita og dýraafurðum. En einnig af því ég var að borða þessa hluti þegar ég var í tilfinningalegu uppnámi.

Magaflóran mín (guthealth?) var líka alveg í ruglinu. En magaflóran er alveg ótrúlega mikilvæg og miklu mikilvægari en fólk gerir sér grein fyrir, en 70% af ónæmiskerfisfrumunum eiga heima þar og 95% af serótónin er búið til í maganum (inthegut). Þannig að lífsstíllinn og þá sérstaklega hvað við borðum getur haft alveg svakaleg áhrif á líkamlega heilsu okkar og hvernig okkur líður.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hvað um hreyfingu? Fórstu á fullt í ræktina við þessa lífsstílsbreytingu?

„Til að byrja með þá fór ég í jóga og fannst það alveg geggjað. Um mánuði eftir að ég byrjaði í því fannst mér ég vera strax orðin svo miklu orkumeiri að mig langaði til þess að hreyfa mig enn þá meira þannig að ég ákvað að prófa líka crossfit. Mér fannst það líka alveg hrikalega gaman en stuttu eftir að ég byrjaði í crossfitinu fór ég að finna fyrir verkjum í mjóbaki og í mjöðm sem leiddi alveg út í annan fót hjá mér.

Bara það að ganga fyrir mig var vont þar sem hvert einasta skref sem ég tók var sársaukafullt. Ég þrjóskaðist samt í nokkra mánuði áfram í crossfit en í lokin var ég farin að vera svo verkjuð að ég þurfti að hætta. Ég var búin að prófa að fara til kírópraktors sem fann ekki orsökina fyrir þessum verkjum. Eina hreyfingin sem ég var þá að stunda voru göngutúrar og sund, en einu skiptin sem mig verkjaði ekki var þegar ég var að synda þannig að ég reyndi að fara nokkrum sinnum í viku að synda aðeins, svo stundaði ég líka að fara í heitt og kalt til skiptis í sundi. Ég komst svo að hjá sjúkraþjálfara í október og hann sendi mig beint í segulómskoðun og þar kom í ljós að ég var með brjósklos og það var ástæðan fyrir þessum miklu verkjum.

Þannig að undanfarið hálft ár er eina hreyfingin sem ég hef verið að stunda göngutúrar og sund.

Þótt ég hafi ekki náð að hreyfa mig mikið fyrir utan göngutúra og sund þá hélt ég samt áfram að léttast, sem mér finnst sýna að það þarf ekki endilega að púla endalaust í ræktinni til þess að ná að léttast.“

Hvað með andlega heilsu, hvað gerðir þú til að bæta hana og verða ánægðari með lífið?

„Ég fór að passa upp á hugsanir mínar og reyndi að finna það jákvæða í öllu og stoppaði af neikvæðu hugsanirnar. Ég fór einnig að vera dugleg að hrósa sjálfri mér og fór í fyrsta skipti að sýna sjálfri mér virkilega væntumþykju.

Ég fór að æfa mig að vera þakklát, ég reyndi að finna alltaf eitthvað til að vera þakklát fyrir. 

Það sem ég gerði meðal annars líka sem að mér fannst hjálpa mér var að lesa eða hlusta á bækur (myndu flokkast sem sjálfhjálparbækur held ég) og einnig hvetjandi hlaðvörp.“

Fórstu til þerapista til að ná tökum á andlegri heilsu?

„Ég fór til sálfræðings árið 2013 eftir áfall sem ég varð fyrir í lok árs 2012, það hjálpaði mér eitthvað við að komast yfir atvikið en annars var þetta eitthvað sem ég náði bara að vinna úr sjálf seinna.“

Hvernig hefur líf þitt breyst eftir allar þessar breyingar?

„Ég get eiginlega ekki lýst því hvað mér finnst lífið mitt mikið breytt. Mér finnst ég vera ný manneskja. Ég tek ekki heilsunni sem sjálfsögðum hlut, bara það að geta gengið án verkja er svo ótrúlega vanmetið, og að vera verkjalaus yfir höfuð. Það að hafa orku til þess að gera alla hluti sem mann langar til er líka svo æðislegt og eitthvað sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut eftir að hafa upplifað gjörsamlegt orkuleysi í nokkur ár.

Mér finnst að helstu mælikvarðanir sem við ættum að miða við þegar kemur að heilsu séu hvernig okkur líður, hvort við séum orkumikil, hvernig samband okkar sé við mat, hvernig samband okkar sé við okkur sjálf og okkar líkama, andleg og líkamleg heilsa, að streitan sé hófleg og svo auðvitað að við séum hamingjusöm.

Ég vildi óska að fólk myndi hætta að fókusera á kílófjölda sem mælikvarða á heilsu. Ég hef fengið spurningar um hvort ég sé búin að ná markmiðinu mínu nú þegar ég er búin að missa öll þessi kíló eða hvort ég ætli að reyna léttast meira og þá hve mikið. En ég gef þau svör að markmiðið mitt var aldrei að missa kíló heldur er það að ná betri heilsu. Þannig að ef ég léttist meira í vegferð minni að betri heilsu þá er það fínt, en ef ég myndi ekki léttast meira þá er mér alveg sama svo lengi sem líkamleg og andleg heilsa mín er góð.

Ég vildi óska þess að allir myndu taka líkama sína í sátt og elska líkama sinn og hætta að brjóta sjálfa sig niður af því líkaminn er kannski ekki nákvæmlega eins og þú myndir vilja að hann væri. Hættum að bíða með að elska líkama okkar þar til eftir þessi „10 kíló“ eða hvaða draumaþyngd það er sem fólk vill missa. Byrjaðu frekar að elska líkama þinn og sjálfa þig eins og þú ert í dag. Borðaðu mat sem lætur þér líða vel og gefur þér orku og stundaðu hreyfingu sem veitir þér ánægju og þú hefur gaman af.

Hvert stefnir þú?

„Ég ætla bara að halda áfram að vinna í sjálfri mér og rækta líkama og sál, mig dreymir um að geta byrjað að stunda jóga aftur, ég vona að brjósklosið muni fara sem fyrst svo ég geti gert það. Mig langar til þess að ferðast meira, kynnast nýju fólki, fara í fjallgöngur og prófa nýja hluti.

En það er eitt sem Íris lærði og það er að hætta að upplifa sjálfa sig sem fórnarlamb. 

„Ég hætti að upplifa mig sem fórnarlamb og fór að átta mig á að lífið er að vinna með mér en ekki á móti mér. Þegar ég lendi í erfiðleikum í dag hugsa ég ekki af hverju er þetta að koma fyrir mig heldur hvað er þetta að kenna mér? 

Mér finnst mjög mikilvægt að lifa í núinu, og mæli ég með núvitundaræfingunum fyrir alla.

Hugsanir okkar hafa svo svakalegan mátt að við þurfum að ekki bara að ritskoða það sem við segjum heldur líka hvað við hugsum. Það er eitthvað sem ég hef virkilega tekið til mín og reyni ég alltaf að hugsa jákvætt.“

mbl.is