Gaf sér ekki tíma til að æfa

Michelle Obama er í hörkuformi enda dugleg að hreyfa sig.
Michelle Obama er í hörkuformi enda dugleg að hreyfa sig. mbl.is/AFP

Fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, er dugleg að hreyfa sig en hún hefur ekki alltaf verið það. Hún segist hafa sett sjálfa sig í aftursætið þegar dætur hennar voru yngri. Hún segir þó að eiginmaður hennar, Barack Obama, hafi alltaf haft tíma til að mæta í ræktina og var það eitt af því sem truflaði hana og varð til þess að þau fóru í hjónaráðgjöf. 

Frú Obama telur líklegt að margar konur kannist við það að gefa sér ekki tíma fyrir hreyfingu og þá sérstaklega mæður.

„Við erum svo uppteknar við að gefa af okkur og gera eitthvað fyrir aðra að við fáum næstum því sektarkennd að taka okkur tíma fyrir okkur sjálfar,“ sagði Obama í New Orleans á dögunum að því fram kemur á vef People. 

„Ég gef mér tíma fyrir ræktina,“ svaraði Barack Obama þegar eiginkona hans spurði af hverju hann hefði tíma til að mæta í ræktina en ekki hún. Hún telur margar konur geta sett sig í hennar spor. 

„Þetta var á þeim tíma sem við byrjuðum í ráðgjföf. Svo þetta var eitt af vandamálunum okkar, vitiði? En ég fann að ég varð reið út í hann af því hann var að gera sem hann þurfti fyrir sig. Og við sem konur, margar af okkur, við eigum í erfiðleikum með að forgangsraða okkur í hag, hvað þá að setja okkur efst á listann.“

Obama stundar fjölbreytta hreyfingu og segist lyfta lóðum og gera erfiðar brennsluæfingar yfir í það að stunda hreyfingu eins og jóga sem gerir hana liðuga. „Mig langar að líða vel og ég vil vera eins hraust og ég get orðið af því ég vil geta notið áttræðis- og níræðisaldursins.“

Michelle Obama hefur verið dugleg að leggja áherslu á mikilvægi hreyfingar. Segir hún konur stundum halda að þær eigi ekki skilið að hugsa um sjálfa sig, þær séu þjálfaðar í því. Að hreyfa sig er eitt af því sem konur ættu að gera og gefa sér tíma í að mati Obama. 

Barack Obama hafði alltaf tíma til að æfa en ekki …
Barack Obama hafði alltaf tíma til að æfa en ekki Michelle Obama. mbl.is/AFP
mbl.is