Best að vera bara mátuleg

Agnes Kristjónsdóttir kenndi í Kramhúsinu fyrir mörgum árum en nú …
Agnes Kristjónsdóttir kenndi í Kramhúsinu fyrir mörgum árum en nú er hún komin aftur. Ljósmynd/Amalía Arnþórsdóttir

Agnes Kristjónsdóttir hefur kennt dans og líkamsrækt frá unga aldri og er í grunninn dansari og kom þannig inn í líkamsræktina. Agnes glímdi á tímabili við mikla streitu eftir áföll í lífinu sem gerði það að verkum að hún þyngdist, en með hjálp fagaðila hefur hún komist á sinn stað og kann að meta það að vera bara mátuleg.

Agnes starfar sem einkaþjálfari, stott pilates-kennari, og svo lærði hún markþjálfun og klassískan söng. Hún hefur einnig starfað við lífsstílsráðgjöf. Nú er Agnes hinsvegar að leita aftur til fortíðar því hún er farin að kenna í Kramhúsinu á ný.

„Ég kem alltaf aftur í Kramhúsið þótt ég vinni annars staðar um hríð, það er svo gott að dansa hér og æfa og auðvitað kenna líka. Andinn er svo glaðlegur og notalegur og fólkið sömuleiðis. Hér er svo dásamlega afslöppuð stemning með alþjóðlegu ívafi með íslenskum og erlendum kennurum. Ég kom hér fyrst rúmlega tvítug og átti þá í meiðslum sem dansari og þurfti að hvíla mig og æfa minna eins og þá var ráðlagt. Hafði heyrt spennandi sögur af Kramhúsinu og Hafdísi Árnadóttur, eiganda og stofnanda, og hennar flottu óvenjulegu tímum. Fyrr en varði plataði hún mig til að leysa af við að kenna djassballett og músíkleikfimi og eitt leiddi af öðru. Þarna opnaðist alveg nýr heimur af alls konar danstímum fyrir mér eins og argentínskur tangó, magadans, afró, samba, spunadans og fleira. Ég átti eftir að kenna í átta ár í kjölfarið og margs konar tíma. Ég hef lært mjög mikið af Hafdísi og lít á hana sem eina af mínum mestu fyrirmyndum, ekki aðeins hvað dans og hreyfingu varðar heldur einnig líka lífsviðhorf og lífssýn. Hafdís er algjör perla,“ segir Agnes og bætir við:

„Það er gaman að rifja upp að einn viðskiptavinurinn í húsinu þarna á þessum árum þegar ég var að kenna fyrst var bresk kona sem ásamt manni sínum rak líbanska veitingastaðinn Marhaba sem var með eindæmum vinsæll og bauð upp á magadanssýningar á hverju kvöldi. Þau voru skyndilega komin í vandræði því magadansarinn þeirra þurfti að fara til Bretlands með engum fyrirvara. Á þessum tíma var ég að dansa og syngja í Evu Lunu í Borgarleikhúsinu og það var bent er á mig sem hugsanlegan kandidat í starfið. Fyrr en varði var ég mætt í stofuna heim til eiginmanns konunnar sem kenndi mér nokkur spor, lét mig fá búninga og vídeóspólu að horfa á og kvöldið eftir var Shabaly mætt á gólfið á Rauðarárstígnum þar sem staðurinn var og kom fram þrisvar á kvöldi. Nafnið fann hann upp og við létum eins og ég væri frá Líbanon. Þetta var ægilega skemmtilegt og enginn þekkti mig með hárkolluna og blæju fyrir andlitinu. Ég kunni auðvitað ekkert í magadansi heldur bara hristi mig eitthvað og sveiflaði mjöðmunum í svakalega flottum glimmerbúningum og þetta gekk svona í þrjá mánuði. Eftir þetta elska ég magadans og er einmitt komin í tíma núna í Kramhúsinu til að læra enda eru þar okkar fremstu magadanskennarar,“ rifjar Agnes upp.

Dansinn mýkir líkamann

Agnes verður með fjölbreytta tíma í vetur og fyrir þá sem vilja detta inn af götunni er hægt að kaupa stakan danstíma ef andinn kemur yfir fólk.

„Ég er með nokkra tíma, meðal annars styrktarþjálfun sem er nýtt í Kramhúsinu. Þá erum við að vinna með lóð og eigin þyngd og fleira skemmtilegt. Svo kenni ég dans og stott pilates. Kramhúsið er eini staðurinn í miðbænum sem býður upp á þjálfun og dans þannig að það er gaman að bæta styrktarþjálfun inn og gott að blanda saman dansi, jóga og lóðum til dæmis. Í danstímana er hægt að kaupa stakan tíma ef fólk vill prófa.“

Hvað gerir dansinn sem lyftingar gera ekki? „Ég stunda bæði lyftingar og dans. Dansinn mýkir upp líkamann um leið og hann styrkir hann en kannski er það mest útrásin og frelsið sem maður finnur fyrir í dansinum. Maður verður bara svo glaður og tengdur líkamanum þegar maður dansar. Lyftingarnar eru líka frábærar en svo er einmitt gott að dansa með til að viðhalda liðleika og minnka stífni. Á tímabili var ég bara í kraftlyftingum en núna blanda ég saman dansi, lyftingum og pilates. Svo elska ég að ganga og synda, segir Agnes.

Hætti að drekka þrítug

Hvað drífur þig áfram í kennslunni?

„Ég er búin að kenna síðan ég var sextán ára; alltaf eitthvað og stundum eins og núna bara nokkra tíma en það er ánægjan að miðla því sem ég kann, sjá árangur og gleði í andlitunum.

Það er mjög þakklátt að kenna líkamsrækt og dans. Það kemur alltaf árangur bæði andlega og líkamlega, það kemur vellíðan og þakklæti yfir að geta meira, líða vel í eigin skinni, efla sjálfstraustið og margt fleira. Svo eru alltaf einhverjir töfrar í gangi þegar verið er að dansa enda dansinn alltaf fylgt manneskjunni. Dansinn er í okkur. Það lifnar eitthvað við innra með manni þegar maður hreyfir sig við tónlist og með öðrum, segir Agnes.

Nú tókstu þig til fyrir nokkrum árum og léttist þónokkuð, er ekkert vandasamt að halda árangrinum? Hvað gerir þú til að halda þér í kjörþyngd?

„Ég er svo lánsöm að hafa langoftast verið bara mátuleg eins og sagt er enda alltaf hreyft mig mikið og ég hef lengi haft áhuga á hollum mat og líferni. En svo komu nokkur ár þar sem ég var að eiga við alvarlega streitu og áföll og þyngdist á því tímabili. Ég svaf mjög illa og borðaði til að ná mér í orku eða til að róa mig. Sérstaklega sykur. Ég náði tökum aftur á lífinu með því að leita mér aðstoðar hjá frábærum fagaðilum. Svo fór ég að skoða mataræðið upp á nýtt og náði að koma mér á góðan stað aftur. Það var á þessu tímabili sem ég fór að æfa kraftlyftingar sem var alveg nýtt hjá mér. Í dag horfi ég allt öðrum augum á þetta allt saman. Það eru engir töfrar eða skyndilausnir. Lífið er ekki bara svart og hvítt, það eru gráir tónar og hver þarf að finna sína sátt með sig. Ég hætti að vigta mig fyrir nokkrum árum; ég var alltaf á vigtinni og alltaf að rífa mig niður fyrir einhver kíló. Ég vil auðvitað að mér líði vel í eigin skinni og þess vegna vel ég að næra mig fallega og hreyfa mig og gera það sem er gott fyrir mig eins og að hugleiða. Ég reyni að sýna sjálfri mér mildi, það er eitthvað svo fallegt við það. Horfa á það sem er jákvætt í mínu lífi, vera þakklát fyrir að geta hreyft mig, geta dansað og lyft og svo margt fleira. Það geta það ekki allir. Ég reyni að vera mátuleg, hlusta á hvernig mér líður, hvíla mig vel og rækta mig andlega og líkamlega. Það gengur oftast mjög vel. Stór partur af þeirri vellíðan er pottþétt líka það að ég hætti að drekka áfengi þegar ég var þrítug og ég elska að vera bara „high“ á lífinu,“ segir Agnes og brosir.

Ljósmynd/Amalía Arnþórsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »