Ástarsorg getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsuna

Karl Andersen hjartalæknir.
Karl Andersen hjartalæknir.

Karl Andersen, hjartalæknir á Landspítala, segir broken heart syndrome (jap. takotsubo) merkilegt fyrirbæri sem hafi ekki verið í textabókum lækna fyrir tuttugu árum.

Einkennið sem stundum er kallað harmslegill, brostið hjarta eða takotsubo, fær nafn sitt frá japönsku kolkrabbagildrunni vegna þess að útlit hjartaslegilsins í slagbilinu þykir minna á lögun gildrunnar.

Brostið hjarta er oftast afturkræft og segir Karl heilkennið áhugavert fyrir margra hluta sakir.

„Þetta heilkenni sem var nánast óþekkt fyrir tveimur áratugum virðist leggjast að mestu á konur [90%].“

Karl segir 30 50 einstaklinga greinast með heilkennið hjá þeim á ári á Landspítalanum.

„Það sem einkennir þá sem koma með þetta heilkenni á spítalann er að það líkist byrjun á hjartaáfalli, oftast með sárum brjóstverkjum. Á hjartalínuriti eru teikn um kransæðastíflu og oftast hækka efni í blóði sem benda til þess sama. Þegar kransæðar eru skoðaðar í hjartaþræðingu sjást hins vegar engar marktækar þrengingar og þá er ljóst að ekki er um kransæðastíflu að ræða. Við ómskoðun á hjarta sést einkennandi svæðisbundin útbungun á vinstri slegli sem líta má á sem tímabundna hjartabilun. Oft hefur áfall, streita eða slys orðið í lífi fólksins skömmu fyrir veikindin og þá virðist hjartað bregðast við streitunni á þann hátt að það blæs út á þessu afmarkaða svæði í vinstra hluta hjartans. Einkennin standa vanalega yfir í þrjá til fimm daga og síðan gengur það aftur og flestir jafna sig að fullu.“

Margt áhugavert þegar kemur að ástinni

Karl segir almennnt viðurkennt af vísindasamfélaginu í dag að andlegt álag geti orsakað líkamleg einkenni hjá fólki á borð við hjartsláttartruflanir, háþrýsting og hjartaáföll. Það er því til mikils að vinna að ná tökum á streitu og neikvæðum hugsunum.

„Það eru hins vegar ekki bein tengsl á milli áfalla og svona heilkenna, því margir sem koma með þessi einkenni til okkar geta ekki rakið þau til einhvers sem hefur gerst í lífi þeirra.“

Þegar kemur að ástinni segir Karl margt einkennilegt gerast sem vísindin eigi kannski erfitt með að útskýra.

„Ég hef löngum furðað mig á því hversu stutt er á milli aldraðra hjóna. Þegar sem dæmi annar aðilinn deyr, þá fer hinn oft fljótt á eftir. Það er erfitt að segja hvað veldur því, en kannski dvínar tilgangur lífsins þegar maki kveður sem maður hefur verið mjög náinn alla ævi. Það er viðurkennt innan læknisfræðinnar að hugur getur haft áhrif á líkamleg einkenni. Það er hins vegar flóknara að setja mælistiku á þessa hluti.“

Finnur friðinn úti í náttúrunni

Karl segir hins vegar til mikils að vinna ef fólk getur náð tökum á streitu og stressi. Hann segir án efa fólk vera að gera sitt besta í þeim efnum og stundum séu aðstæðurnar þannig í lífinu að streita sé eðlilegur fylgikvilli.

„Streita hefur svipuð áhrif á kransæðar og að reykja. Með langvarandi streitu getum við tvöfaldað áhættuna á hjartaáfalli sem dæmi. Í þessu samhengi finnst mér samt nauðsynlegt að taka fram að aðstæður fólks eru alls konar. Sumir eru að upplifa langvarandi veikindi barna sinna sem myndar streitu sem er eðlilegt að fólk upplifi í þannig aðstæðum. Eins getur fjárhagsvandi haft alvarleg áhrif á heilsu fólks, einelti á vinnustað og fleira í þeim dúrnum.“

Það sem Karl gerir sjálfur til að forðast streitu er ýmislegt. Hann fer út úr bænum og hvílir sig þegar hann er ekki að vinna.

„Ég held að við mannfólkið séum misjöfn þegar kemur að streitu. Sumir þrífast vel í umhverfi þar sem stress og álag er mikið. Starfsfólkið hér á spítalanum sem dæmi nær oft að brynja sig fyrir umhverfinu og sumir jafnvel sækja í mikið álag og virðast ekki upplifa neikvæða hluti því tengt. Hjá öðrum koma fram einkenni kulnunar og andlegrar vanlíðunar.“

Ljósmynd/Unspalsh
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »