Bætti á sig 13 kílóum á fimm vikum

Mark Ruffalo.
Mark Ruffalo. AFP

Hollywood-leikarinn Mark Ruffalo þurfti að bæta á sig rúmlega 13 kílóum fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni I Know This Much Is True. Leikarinn greindi frá breytingunni á líkama sínum á fjölmiðlafundi að því er fram kemur á vef Variety.

Ruffalo leikur tvíburabræðurna Dominick og Thomas í þáttunum. Bróðirinn Thomas þurfti að vera feitari þar sem hann tók lyf vegna geðklofa sem hann fitnaði af. Ruffalo kláraði tökur á senum heilbrigða tvíburabróðurins fyrst og hafði svo einungis fimm vikur til að fitna um rúmlega 13 kíló. 

Það er draumur margra að geta borðað kökur og skyndibita allan daginn en Ruffalo segir að ævintýraljóminn hverfi fljótt. 

„Þegar þú ert að neyða mat ofan í þig hverfur rómantíkin af matnum. Þessar fimm vikur voru frekar einmanalegar,“ sagði Ruffalo sem hafði verið frá fjölskyldu sinni um tíma og nýtti tímann til þess að setja sig í spor persónu sinnar sem heyrir raddir. 

Mark Ruffalo.
Mark Ruffalo. AFP
mbl.is