Ólafía Þórunn: „Við höfum öll lent í mismunandi hlutum“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir golfari hóf á dögunum að setja inn hvatningarpistla á sína helstu samfélagsmiðla. Fyrsti pistillinn kom út í vikunni og ræðir þar Ólafía um hvernig maður bætir sig og gerir sitt besta.

Ólafía Þórunn er einn fremsti íþróttamaður okkar Íslendinga en árið 2017 var hún valin íþróttamaður ársins. Hún er atvinnugolfari en segist einnig vera „alt mulig kvinde“.

Síðastliðin ár hefur Ólafía Þórunn haldið góðgerðarmót í samstarfi við KPMG, styrktaraðila sinn. Í fyrra vannst þó ekki tími til þess þar sem dagskrá hennar er síbreytileg og vissi hún ekki hvort hún yrði stödd á landinu til að standa að mótinu. Í staðinn ákvað hún að gera myndbönd og stefnir á að gefa út myndband í hverjum mánuði.

„Mig langaði í rauninni bara að senda út jákvæð skilaboð með einhverju skemmtanagildi og tala við krakka. Það er ótrúlega áhugavert að heyra hvað þau hafa að segja. Þau eru alveg inni í málunum þótt þau séu ung og það alveg mikil viska í því sem þau eru að segja,“ segir Ólafía sem nú er stödd í æfingabúðum í Flórída í Bandaríkjunum.

Í fyrsta myndbandinu ræðir hún við frændsystkini sín. Hún segir það myndband þó eiginlega hafa verið hálfgerða prufu í að taka viðtöl við börn. „Ég vildi athuga hversu djúpra spurninga ég gæti spurt þau og svo voru svörin þeirra svo flott að ég varð að nota myndböndin,“ segir Ólafía Þórunn.

Hún vildi hafa myndböndin stutt og hnitmiðuð en myndböndin beinast ekki að börnum eða einhverjum ákveðnum hópi heldur bara öllum þeim sem vilja heyra jákvæð skilaboð.

„Við getum öll lært af hvert öðru. Við höfum öll lent í mismunandi hlutum og allir hafa mismunandi bakgrunn,“ segir Ólafía Þórunn.

Hægt er að horfa á fyrsta myndband hennar hér fyrir neðan og einnig á Instagram-síðu hennar.

View this post on Instagram

Er einhverntíman ekki nóg að gera sitt besta? #intro

A post shared by Ólafía Kristinsdóttir (@olafiakri) on Jan 13, 2020 at 10:12am PST

mbl.is