Snýst um svo miklu meira en töluna á vigtinni

Berglind Björk fann sig í líkamsræktinni.
Berglind Björk fann sig í líkamsræktinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Berglind Björk Viðarsdóttir einkaþjálfari heldur úti heimasíðunni Personal Online Fitness ásamt því að sinna 15 mánaða gamalli dóttur sinni. Berglind hélst ekki í íþróttum sem barn en fann sig í líkamsrækt á unglingsárunum. Hún hélt lengi að hún þyrfti að vera afreksíþróttamaður eða líta út eins og fitness-drottning til þess að verða einkaþjálfari en veit betur í dag.

„Ég reyni að stunda hreyfingu daglega. Ég lyfti fjórum sinnum í viku ásamt því að fara í jóga einu sinni til tvisvar sinnum í viku. Ég er svo til nýbyrjuð að stunda jóga og finnst það hjálpa mér mikið þegar kemur að grunnstyrknum og tala nú ekki um hugarró. Ég á svo einn „ísbjörn“ sem ég fer með út í göngu daglega,“ segir Berglind um hvernig hún hreyfir sig dagsdaglega.

Líkamsrækt snýst ekki um töluna á vigtinni

Þrátt fyrir að vera einkaþjálfari var Berglind ekki alltaf á fullu í íþróttum sem barn. Berglind ólst upp í Vestmannaeyjum og segist hafa stundað mikla útiveru þar, hljóp mikið um og prílaði í hrauninu.

„Þegar ég var 14-15 ára gömul þá steig ég inn í líkamsræktarstöð í fyrsta skiptið og ég heillaðist strax af þeirri iðju. Á unglingsárunum gekk svona upp og ofan þegar kom að líkamsræktinni og ég var algjört jójó. Ætli áhuginn hafi ekki bara kviknað út frá vellíðaninni sem kom í kjölfar æfinga, ég fann mig styrkjast, brosið breikkaði og mér leið almennt betur.

Mig minnir að ég hafi verið um 16 ára þegar ég heyrði fyrst um einkaþjálfaranámið hjá World Class og langaði mikið að fara í það nám. Því miður þá hafði ég ekki næga trú á mér á þeim tíma því ég hélt að ég þyrfti annað hvort að vera afreksíþróttamaður eða líta út eins og ég væri að fara að keppa í fitness. Sem betur fer þá veit ég betur í dag. Ég náði að nota þessi ár í læra margt. Ég hef lesið mér mikið til og hlustað á margt fagfólk þegar viðkemur heilsu, mataræði og hreyfingu. Ætli áhuginn hjá mér í að mennta mig sem einkaþjálfari hafi ekki kviknað aðallega út frá því að ég hef unun af því að hjálpa öðrum. Ég lít á einkaþjálfun sem kjörið tækifæri til að hjálpa konum að styrkja bæði huga og líkama. Því þetta snýst um svo miklu meira en að sjá einhverja ákveðna tölu á vigtinni. Þetta snýst um hugarfarsbreytinguna sem á sér stað ásamt því að sjálfsöryggið eykst og fólki líður almennt betur.“

Berglind lyftir lóðum fjórum sinnum í viku.
Berglind lyftir lóðum fjórum sinnum í viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað leggur þú áherslu á í fólk sem kemur í einkaþjálfun til þín geri?

„Geri sitt besta! Það eru allir á mismunandi stað og með mismunandi áherslur. Ég legg mikið upp úr samskiptum við kúnnana mína. Þeir geta sent á mig línu hvenær sem er hvort sem þeir þurfa auka hvatningu til að mæta í ræktina eða þurfa aðstoð með næringu. Hver og einn hefur sínar hindranir þegar kemur að því að ná sínu markmiði og ég aðstoða þau við að sigrast á þessum hindrunum.“

Mataræðið skiptir öllu máli

Þrátt fyrir að talan á vigtinni skipti ekki öllu máli þá mælir Berglind með að fólk borði holla og hreina fæðu. Hún segir að mataræðið skipti öllu jafnvel þó svo að fólk sé ekki að reyna að grennast.

„Mataræði skiptir öllu máli, alveg sama hvaða markmið fólk er með. Maturinn er orkan sem líkaminn þarf á að halda og við þurfum að passa að næra líkamann vel með fjölbreyttri fæðu og helst fæðu sem kemur sem mest í sinni náttúrulegu mynd.“

Sjálf borðar Berglind eftir þessari reglu en leyfir sér af og til að fara út af sporinu.

„Ég borða mjög fjölbreytta fæðu. Undirstaðan í fæðunni hjá mér er fiskur, kjöt, egg, hnetur, fræ, grænmeti og ávextir. Ég reyni að velja þann mat sem kemur sem mest  í sinni upprunalegri mynd. Sem sagt mat sem ekki er með langan lista af innihaldsefnum. En svo leyfi ég mér auðvitað að borða líka það sem er ekki kannski jafn gott fyrir líkamann en gott fyrir sálina, því jafnvægið finnst mér nauðsynlegt.“ 

Berglind borðar fjölbreytta fæðu.
Berglind borðar fjölbreytta fæðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilsan þarf ekki að taka frá okkur tíma

Stundum talar fólk um að skortur á tíma komi í veg fyrir að fólk hreyfi sig eða eldi mat frá grunni. Berglind segir að fólk þurfi að forgangsraða. Enginn er hins vegar fullkominn og sjálf segir Berglind að hún þurfi stundum aukahvatningu til að koma sér í ræktina. Hún bendir þó á að fólk geti breytt ýmsum litlum atriðum í fari sínu og venjum til þess að bæta heilsuna.

 „Forgangsröðun er númer eitt. Ég hjálpa einmitt fólki að búa til nýjar venjur og forgangsraða. Við þurfum að setja okkur sjálf í fyrsta sæti svo við getum sinnt fjölskyldunni okkar og heimili. Heilsan þarf ekki að taka tíma frá okkur, það er frekar öfugt því við getum grætt tíma með því að forgangsraða rétt. Þegar kemur að heilsu mundi ég segja að svefninn væri mikilvægastur. Slökkva á sjónvarpinu og símum einum til tveimur tímum áður en farið er að sofa og reyna að fá sjö til níu tíma svefn á hverri nóttu. Svo er það mataræðið. Ef þú eldar alla daga, eldaðu þá aðeins meira svo þú eigir afganga daginn eftir til að borða í hádegismat og jafnvel enn meira til að eiga í kvöldmatinn daginn eftir. Án mikillar aukafyrirhafnar ættirðu að vera komin með tvær mjög góðar máltíðir yfir daginn. Drekka vatn, minnka koffínneyslu ef drukkið er meira en tveir til þrír kaffibollar á dag. Allt þetta tekur engan tíma. Svo er það bara að bæta inn hreyfingu. Tuttugu mínútna göngutúr á dag er eitthvað sem flestir ættu að geta gefið sér tíma í eða jafnvel tekið æfingu með börnunum á stofugólfinu.“

Berglind mælir einmitt með að fólk fari út að ganga þegar blaðamaður biður hana um að nefna eina æfingu sem fólk ætti á gera á hverjum degi. „Það hjálpar til við svo margt bæði andlega og líkamlega,“ segir Berglind sem talar af reynslu enda fer hún út að ganga með stóra hvíta hundinn sinn á hverjum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál