Var þreytt og 20 kílóum of þung en ekki lengur

Lukka Pálsdóttir hefur aðastoðað landsmenn í áraraðir þegar kemur að …
Lukka Pálsdóttir hefur aðastoðað landsmenn í áraraðir þegar kemur að næringu og heilsu.

Unnur Guðrún Pálsdóttir eða Lukka eins og hún er vanalega kölluð segir fáa þekkja hana undir eigin nafni. Hún man eftir símtölum þegar hún var yngri þar sem systkin hennar könnuðust ekki við að Unnur væri heima, enda engin Unnur á heimilinu heldur einungis Lukka. Hún er lærður sjúkraþjálfari og með meistaragráðu í stjórnun (MBA) frá Háskólanum í Reykjavík.

Hún er ein af þeim sem þora að segja hlutina eins og þeir eru. Hún segir landsmenn svolítið meðvirka þegar kemur að ofþyngd og vanheilsu. Að samfélagið þurfi að stíga fast á móti þeirri þróun að íslensk börn séu sem dæmi of þung og greinist nú með sjúkdóma sem áður flokkuðust sem öldrunarsjúkdómar. 

Hún er með stórar hugmyndir fyrir litla Ísland sem hún ásamt félögum sínum hefur pakkað saman í fyrirtæki sem heitir Greenfit. Fyrirtækið vill leggja sitt af mörkum til að hjálpa heilbrigðiskerfinu. 

Fegin að vera ekki kölluð Trölla

Aðspurð hvaðan Lukkunafnið komi segir hún það koma frá pabba sínum. 

„Pabba mínum leist eitthvað illa á litla krílið sitt. Fannst ég úfin og grettin og kallaði mig því lítið lukkutröll strax frá fæðingu. Ég er fegin að það styttist í réttan enda og ég er ekki kölluð Trölla. Það hefði verið öllu verra. Margir hafa bent mér á að láta breyta nafninu mínu í þjóðskrá en ég er skírð eftir ömmu minni og langömmu og þykir vænt um þá tengingu.“

Lukka hefur í nægu að snúast á þessum skrítnu vordögum eins og hún segir sjálf. 

„Kórónuvírusinn setur öll plön á hvolf. En ég hef verið dugleg að nýta dagana vel að undirbúa ný verkefni sem eru á döfinni bæði hjá Happ og Greenfit.“

Hún segir marga reka upp stór augu þegar þeir heyra af nýsköpun í miðjum heimsfaraldri en hún sé handviss um að tíminn fyrir Greenfit sé einmitt núna. 

„Greenfit veitir lausnir sem vantar á markaðinn. Þar sem heilsa og íþróttir mætast. Í minni eigin leit að betri árangri kynntist ég mörgu góðu fólki. Meðal annars Má Þórarinssyni GMB-þjálfara, Sigurði Erni Ragnarssyni þríþrautarkappa og Elínu Eddu Sigurðardóttur hlaupara. Öll koma þau að Greenfit og eru frábært teymi að vinna með. Viðskiptavinir Greenfit fá því ekki einn þjálfara heldur fjóra í einum pakka. Sem er góður samningur að mínu mati.“

Happ komið með nýjan tilgang

Lukka lokaði nýverið veitingahúsi Happ en segir að starfsemin í fyrirtækinu sé ennþá töluverð. 

„Ástríðan að baki Happ hefur alltaf verið sú að hjálpa fólki til betri heilsu. Ég hef sett alla mína krafta í Happ undanfarin 12 ár og sé ekki eftir einni mínútu. Það er hins vegar þannig að rekstur veitingastaða er erfiður bransi og sérstaklega veitingastaða sem eru ekki opnir á kvöldin og selja ekki áfengi.

Starfsemi Happ hefur einungis að hluta til verið rekstur á veitingastað. Hjartað í Happ hefur alla tíð verið bætt heilsa og öll þessi 12 ár hef ég sinnt fólki sem leitar til okkar vegna sjúkdóma sem það glímir við. Það hefur orðið gríðarleg breyting á hugarfari fólks á þessum 12 árum. Þegar ég stofnaði Happ og hélt því fram að það mætti verjast ýmsum kvillum og jafnvel snúa við lífsstílstengdum sjúkdómum með mataræði og breyttum lífsstíl rúlluðu margir augunum og töldu þetta fásinnu.

Mér er sérstaklega minnisstæð heimsókn starfsmanna Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem ávíttu mig fyrir það að halda því fram á heimasíðu Happ að við gætum haft áhrif á heilsuna með mataræði. Þau sögðu ekki leyfilegt að halda slíku fram. Í dag vitum við flest að maturinn er meðferðin og lífsstíllinn er lækningin.

Meðfram rekstri Happ hef ég skrifað ásamt góðum meðhöfundum mínum bækur um næringu og heilsu og hef vonandi náð að sá einhverjum litlum fræjum í þann frjóa jarðveg sem nú er farinn að blómstra.  

Nú er kominn tími til að auka aðgengi að hollum réttum til allra og Happ er að fara í spennandi verkefni með Krónunni og N1. Krónan hefur staðið sig afar vel í að hvetja viðskiptavini sína til hollra lífsvenja og Happ hyggst taka höndum saman með fagfólki á heilbrigðissviði og Krónunni og kynna spennandi valkost fyrir fólk sem vill elda hollan mat úr hreinu hráefni á mettíma.“

Fólk er of mikið að giska þegar kemur að næringu og  þjálfun

Lukka er á því að heilsan sé svo sannarlega ekki heppni, heldur í raun og veru röð ákvarðana sem einstaklingar taka á degi hverjum. 

„Þrjár mikilvægustu ákvarðanirnar sem þú tekur sem hafa bein áhrif á heilsu þína eru: morgunverður, hádegisverður og kvöldverður að mínu mati. Sama má í rauninni segja um árangur, hvort sem er í íþróttum eða lífinu almennt. Við erum höfundar að eigin lífi og ef við viljum ná árangri setjum við okkur markmið og vinnum svo að þeim. Hljómar einfalt en það eru ýmsar aðferðir til sem geta hjálpað okkur að ná settu marki og það er það sem við viljum sérhæfa okkur í hjá Greenfit. Taka stöðuna, setja stefnuna og ná markmiðinu.“

Er fólk mikið að giska þegar kemur að lífinu, næringu og hreyfingu?

„Já, við erum stundum of upptekin af því að elta nýjustu tískusveiflurnar í stað þess að skoða okkar eigin stöðu og taka ákvarðanir út frá því. Sem dæmi má nefna vítamín eða næringarefni sem virðast komast í tísku á ákveðnum tíma. Margir taka t.d. B- og D-vítamín þessa dagana sem getur alveg verið stórsniðugt ef þá skortir þessi vítamín en það er betra að vita hvort þú ert hár eða lágur í þessum næringarefnum og taka svo ákvörðun um hvort þú átt að taka þau inn. Ekki giska á að þig skorti B12 ef blóðið sýnir svo að B12 er í fínu lagi en járnið er lágt og kannski ástæða þess að þú ert sífellt þreytt og getur ekki hlaupið hraðar þrátt fyrir stanslausar æfingar! Viltu ekki frekar vita?“ 

Mætti nota upplýsingar úr blóðrannsóknum betur

Þú hefur oft talað um næringu til heilsueflingar, hvernig seturðu þá hugmynd inn í nýja fyrirtækið?

„Greenfit gengur út á það að greina hvernig ástand þitt er og gera svo betrumbætur. Lengi má gott bæta! Næring er grunnur að góðri heilsu og leikur líka stórt hlutverk í árangri í íþróttum. Við greinum næringarástand út frá blóðgildum og sögu viðkomandi. Greinum svo hreyfigetu og veikleika í stoðkerfi út frá hreyfimati og að lokum þrek út frá álagsprófi. Nýtum svo niðurstöður þessara mælinga til að búa til frábært plan og hjálpa fólki að komast í besta form lífsins. Þeir sem koma til okkar geta æft hvar sem er en við mælum sérstaklega með útiveru og hreyfingu í náttúrunni.“ 

Hvað sjáið þið út úr blóðrannsóknum landsmanna?

„Það er okkar skoðun að það mætti nýta upplýsingarnar sem við öll fáum þegar við förum í blóðprufur mun betur. Það er magnað hvað við getum fengið mikið af upplýsingum úr blóðinu, sem segir mikið til um heilsuna. Við sjáum t.d. að margir mættu passa sig aðeins á sykrinum, sumir mættu fara í sund í hádeginu til að ná sér í D-vítamínskammt og svo er líka algengt að sjá lágt járn, hátt stýrihormón fyrir skjaldkirtilshormón og ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á líðan og heilsu.  

Það er í mínum huga líka jákvætt að eiga prufur til af sjá breytingar á milli ára.“

Mikilvægt að rýna í það sem er raunverulega að

Lukka segir margt hafa áhrif á blóð okkar, svo sem næring, stress og hreyfing. 

„Sumir horfa í kostnað þegar kemur að blóðprufum en það er okkar skoðun að það sé mikill sparnaður fólginn í forvörnum og það að þekkja sínar lykiltölur og fylgjast með breytingum getur verið ein besta fjárfesting sem þú gerir. Við gætum líklega sparað heilbrigðiskerfinu okkar marga milljarða á ári eingöngu með því að skoða blóðsykurgildi og vekja áhuga fólks á að grípa inn í atburðarásina áður en það greinist með áunna sykursýki. Sykursýki er líklegast sjúkdómur sem verður faraldur næstu áratuga og mikil fjárhagsleg byrði á heilbrigðiskerfi landsmanna. Greenfit ætlar sér því að bjarga heilbrigðiskerfinu  einhver verður að gera það!“

Lukka leggur áherslu á hreyfingu, matarræði og fleira hjá Greenfit.
Lukka leggur áherslu á hreyfingu, matarræði og fleira hjá Greenfit.

Lukka er sannfærð um að ef fyrirtækin í landinu vilja fjárfesta í heilsu starfsmanna sinna þá skili það þeim margföldum ávinningi. Það megi búast við færri veikindadögum, glaðari og orkumeiri starfsmönnum og aukinni afkastagetu og vinnugleði.

Aldrei þótt óþægilegt að synda á móti straumnum

Lukka segir að frumkvöðulseðlið sé henni meðfætt. Enda hafi sér aldrei þótt óþægilegt að synda á móti straumnum. 

„Ég hef alltaf verið frekar opin, hreinskilin og óhrædd við að fylgja hjartanu og eigin sannfæringu. Þegar mér finnst að eitthvað mætti betur fara er yfirleitt það fyrsta sem mér dettur í hug að redda því bara sjálf. Fara bara og græja það. Ég er mikið fyrir að breyta til hins betra. Ég held að hausinn minn hafi verið allt frá fæðingu stilltur á stillinguna: Hvernig getum við gert þetta? Í það minnsta dettur mér afar sjaldan í hug að eitthvað sé ekki hægt. Eins er ég alin upp við mikinn dugnað og held að það og seigla sé mikilvægt í viðskiptum og íþróttum, og sennilega í lífinu sjálfu. Það eru alls konar þröskuldar í viðskiptum og líklega fáir í eigin rekstri sem þurfa ekki oft að ná í seigluna sína, rétt eins og í langhlaupi eða þríþraut.

Það er líka endalaust gaman að skapa og búa til nýja hluti og nýjar leiðir og sjá hugmyndir verða að veruleika. Það sem er svo mest gefandi í þessu öllu er að sjá fólk ná árangri. Finna að maður hefur áhrif og getur bætt líf annarra. Það er drifkrafturinn.“

Er eitthvað sem þú forðast að gera í lífinu?

„Markmið mitt er að forðast leiðindi í lífinu. Eins mikið og ég get. Kannski er það veikleiki líka en ég kyngi stundum ósanngirni frekar en að böðlast með leiðindin. Svo reyni ég að forðast sykur. En það gengur aðeins verr!“

Var þreytt og ekki í góðu formi

Með árunum virðist náttúran vera að toga aðeins meira í hana. Hún segir útiveru á fjöllum og almennt í náttúrunni með góðum hópi fólks vera dýrmæta.

„Mér líður best á hreyfingu og með góðu fólki. Ég stunda hreyfingu og útiveru í alls kyns veðri. Hlátur og fíflaskapur, fjölskylda og vinir, já og auðvitað knús og kossar. Það er besta næring í heimi.“ 

Hvað er langt síðan þú tókst heilsuna í gegn og komst í þitt frábæra form?

„Hún Brynhildur Ólafsdóttir ber ábyrgð á því að ég hysjaði upp um mig sokkana og fór að stunda aftur íþróttir á efri árum. Hún sendi mér skilaboð og bauð mér að skrá mig í Landvættina sem væri áskorun um 50 km skíðagöngu, 32 km fjallahlaup, 60 km fjallahjólreiðar og 2,5 km vatnasund. Þetta var árið 2015. Ég var 20 kg of þung, bakveik og þreytt. Ég sagði umhugsunarlaust já enda gleymdist að setja í mig nei-genið. Fljótlega fann ég gömlu glöðu mig aftur, sem elskar hreyfingu og hollan lífsstíl, og þá varð ekki aftur snúið. Núna stunda ég alls konar hreyfingu og keppni en meira fyrir gleði og ánægju en keppnisskapið.“

Hvernig líður þér í dag andlega og líkamlega?

„Mér líður stórkostlega! Hver sagði að miðaldra væri eitthvað glatað? Þetta er að mínu mati skemmtilegasta æviskeiðið hingað til og ég hlakka til áframhaldsins. Það er gott að þroskast og safna lífsreynslu. Verða öruggari og sáttari í eigin skinni og kunna að njóta þess að vera í núinu.“   

Geta allir orðið besta útgáfan af sér í dag?

„Auðvitað. Þetta er bara spurning um að taka ákvörðun. Þú mótar venjur þínar og svo móta venjur þínar þig. Ef þú vilt aðra útkomu  breyttu þá venjum þínum.“

Megum ekki vera meðvirk eða auðsærð

Hvað heldurðu að allir flaski á sem eru ekki á staðnum sem þeir vilja vera á heilsufarslega?

„Eitt af því sem gerist þegar maður eldist og öðlast meiri þroska er að maður fer að vera óhræddari við að segja hlutina eins og þeir eru. Hjá samstarfsfélögum og æfingafélögum mínum í Greenfit fæ ég stundum að heyra setningar eins og „ekkert væl“, „gerðu þá eitthvað í því“ og „drullaðu þér á æfingu“. 

Kannski þykir öðrum þetta ekki tillitssamt en þetta er nákvæmlega það sem við þurfum stundum á að halda. Ég held að við séum stundum of kvartgjörn og auðsærð. Það eru t.d. ekki fitufordómar að tala um ofþyngd og offitu sem vanda. Þá er ekki verið að dæma útlit heldur hafa áhyggjur af heilsufari. Við megum ekki verða svo meðvirk að við hættum að færa hlutina í orð. Það er ekki í lagi í samfélagi eins og okkar að íslensk börn séu of þung og greinist með sjúkdóma sem áður flokkuðust sem öldrunarsjúkdómar svo sem sykursýki 2. Það er ekki börnunum að kenna og ekki hægt að sakast eingöngu við foreldrana heldur. Þetta er samfélagslegt vandamál og við eigum að taka ábyrgð á því og laga það. Strax! Við getum betur. Það ætti að vera fæðingarréttur barna að fá holla næringu þar til þau hafa aldur og vit til að taka ákvarðanir um það sjálf.  

Það eru lífsgæði fólgin í því að vera í góðu formi og ef það stendur okkur til boða að hreyfa okkur reglulega þá finnst mér það vera skylda okkar.“   

Hvert stefnir þú með fyrirtækið?

„Okkur dreymir um að hjálpa fólki, hafa bætandi áhrif á líf fólks, sjá fólk ná markmiðum sem það dreymdi ekki um að væru möguleg. Við höfum séð það gerast margoft og upplifað það á eigin skinni. Svo vitum við líka að við getum stýrt því hverjir verða Íslandsmeistarar í hverri grein því þau lið sem koma í mælingar og ráðgjöf hjá Greenfit munu að sjálfsögðu ná metárangri og skara fram úr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál