„Ef allir kynnu að hrista sig væri ég atvinnulaus“

Margrét Erla Maack hefur magnaða hristigetu eins og sést á …
Margrét Erla Maack hefur magnaða hristigetu eins og sést á myndbandinu hér fyrir neðan. Ljósmynd/Vera Pálsdóttir

Margrét Erla Maack dansari og skemmtikraftur kennir í Kramhúsinu. Nú hefur staðnum verið lokað vegna samkomubanns og því býður Kramhúsið upp á myndbönd með æfingum svo enginn detti úr takti í þessu árferði. Margrét er þekkt fyrir að vera einn skemmtilegasti hóptímakennari Íslands og hér ætlar hún að kenna lesendum svokallaðar fullorðinsæfingar sem ráðlagt er að gera án barnanna. 

„Í þessu myndbandi er ég að kenna nokkrar beisikk en líka flóknar hristur. Þetta er fullkomið ástand til að vinna í danssporum fyrir komandi sumar. Þarna er ég að fara í tæknilega hluti, þetta er aðallega hugsað fyrir nemendur mína sem vilja halda sér við en líka fyrir þau sem vilja prófa. 

Þessi tími er hluti af fjarkennslutímum hjá Kramhúsinu, þar sem flestir kennarar hússins eru búnir að taka upp tíma og svo mjötlum við þeim út, einu til tveimur á dag í Facebookhópinn Fólkið í Kramhúsinu - sem er öllum opinn og það er nóg að hafa Kramhúsið í hjarta sér til að sækja um inngöngu. Núna eru komin inn morgunleikfimi, afró og pilates og svo er von á magadansi, Hips don’t lie, Bollywood, 1920s, jazzballet, burlesque…. og í rauninni megninu af Kramhúsflórunni,“ segir Margrét í samtali við Smartland. 

Hvað gera þessar æfingar fyrir líkamann? 

„Hristur hjálpa mér einfaldlega að koma blóðinu af stað, losa um liði, koma í veg fyrir vöðvabólgu og styrkja allan líkamann. Þær auka þol en eru líka ákveðin hugleiðsla því að það er lítið annað hægt að hugsa um þegar við hristum líkamann, erfitt að skrifa tíst eða lesa vefmiðla á meðan því stendur. Álagið mitt og stress á það til að safnast fyrir í mjóbakinu og ég stífna upp, svo hristurnar losa um það. Eins og að fara í nudd innan frá. Ég var í rosalega fínu formi og gerði þessar æfingar og kenndi fram á 37. viku meðgöngu (já, líka afturábakkollhnísinn eftir rassaklappið) og er að nota þær til að tjasla mér saman aftur. Eina sem er erfitt er að í axlahristunum fyllast brjóstin á mér af mjólk. Dans finnst mér líka svo rosalega mikil slökun og geðrækt. Algjör lúxushreyfing sem örvar hug og hönd. Og rass,“ segir hún en nýlega eignaðist hún frumburð sinn. 

Það er mjög erfitt að gera þessar æfingar rétt, er fólk svona almennt að ná þessu í tímum hjá þér? 

„Já, já, fólk nær þessu en alls ekki í fyrsta tíma!!! En ekki láta það stoppa ykkur! Við verðum að vera þolinmóð við okkur þegar líkaminn er að læra eitthvað nýtt. Barnið mitt er að læra að klappa þessa dagana og hún gefst sko ekki upp. 

Það er alls ekki erfitt að gera þessar æfingar fyrir þau sem geta hreyft sig. Bremsurnar eru oftast í höfðinu - „Ég á ekki að hristast svona, guð hvað ég er með stóran rass, ji hvað ég er asnaleg…“ Að sleppa þessum bremsum er það flóknasta og að leyfa sér að vera smá asnaleg. Mjög oft er erfitt fyrir fólk í mjög góðu formi að hrista sig því þá erum við búin að kenna líkamanum að hreyfa sig með því að herpa sig - lyfta einhverju eða spenna vöðvana. Fyrsti dans sem börn sýna snýst mjög oft um losun á mjöðmum svo við höfum þetta í okkur - en svo skrúfum við fyrir það. Sömuleiðis er oft erfitt að sleppa tökum til dæmis á taktinum í tónlistinni og bara leyfa sér að hristast - en þar aftur kemur hugleiðslan inn og hugarleikfimin. Og ef þetta kemur ekki í fyrsta þá er það mjög eðlilegt. Ef allir kynnu að hrista sig væri ég atvinnulaus og Kramhúsið ekki til. Á nemendum mínum hef ég séð að það tekur svona 2-4 vikur að ná upp góðum hristum, slökuninni, hreyfingunum og þolinu. En ef þetta er of erfitt, skrýtið eða of mikið út fyrir kassann þá er bara hægt að fara í aðra tíma í Kramhúshópnum.“

Hvernig ert þú sjálf að fara í gegnum þetta ástand sem nú ríkir?

„Þetta er bara mjög erfitt. Ég lifi og hrærist á því að vera í kringum fólk og faðmlagabannið er að hafa meiri áhrif á sálina en ég hélt að það myndi gera.“

Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér? 

„Ég þarf að raða öllu lífi mínu í kringum lúra drottningarinnar. Ég er sem betur fer í hálfu starfi hjá Siðmennt og er að raða fermingarbörnum í athafnir og færa til að gera og græja með alls konar sem tengist því. Svo nýti ég tímann í að reyna að semja dansa, hlusta á tónlist og slíkt til að eiga inni þegar Kramhúsið opnar á ný. Og þarna stara á mig nokkrir burlesque-búningar sem þarfnast lagfæringar fyrir sýningar á Búkalú þegar þær hefjast aftur… en það er ekki komið að því strax að ganga í það dundimál.“

Ertu með eitthvað ráð fyrir fólk til að því líði betur? 

„Það sem virkar fyrir mig er að hringja í vini bæði á Íslandi og í útlöndum, elda góðan mat og ég finn mikinn mun á mér við hreyfingu og að fara út að labba með vagninn er það besta sem ég geri. Það virkar fyrir mig. Svo mæli ég með að fólk komi í hópinn Fólkið í Kramhúsinu og hreyfi sig með okkur - og komi svo í Kramhúsið þegar samgöngubanni,“ segir Margrét Erla. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman