Þriðjung fullorðinna vantar meira D-vítamín

D vítamín er nauðsynlegt fyrir þá sem lifa á norðlægum …
D vítamín er nauðsynlegt fyrir þá sem lifa á norðlægum slóðum og fá litla sól. Andres Siimon/Unsplash

Vitað er að D-vítamín leikur mikilvægt hlutverk í að tryggja heilsu beina og vísbendingar eru um að vítamínið bæði efli ónæmiskerfið og minnki líkurnar á ákveðnum sjúkdómum. Ingibjörg Gunnarsdóttir minnir á að D-vítamínskortur er algengur á norðlægum slóðum. 

Reglulega birtast fréttir og viðtöl sem minna á hvað skortur á D-vítamíni er útbreiddur og alvarlegur vandi. Lausnin er ósköp einföld – að taka bætiefni sem innihalda D-vítamín – en samt virðast margir ekki huga að D-vítamínbúskap líkamans sem skyldi eða átta sig á hve brýnt það er að innbyrða nóg af þessu bráðnauðsynlega vítamíni.
Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands.
Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands.

Ingibjörg Gunnnarsdóttir er prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands og segir hún rannsóknir sýna að á norðurslóðum sé styrkur D-vítamíns í blóði fullorðinna undir æskilegum mörkum í allt að þriðjungi tilfella og er hlutfallið jafnvel enn hærra hjá börnum og unglingum. „Í flestum tilfellum er ástæðan einfaldlega sú að neysla D-vítamíns er ekki í samræmi við ráðleggingar.“

Einstaklingar sem búa á norðlægum slóðum þurfa að huga sérstaklega að D-vítamínstöðu líkamans því þeim gefst sjaldan tækifæri til að vera úti í sólinni og leyfa húðinni að framleiða D-vítamín með náttúrulegum hætti. „Núna eftir sumarið eru líklega flestir Íslendingar með ágætis magn D-vítamíns í líkamanum þökk sé útiveru og sólböðum en frá október og fram í mars er náttúruleg D-vítamínframleiðsla húðarinnar sama sem engin og nauðsynlegt að bæta vítamíninu við mataræðið,“ útskýrir Ingibjörg og áréttar að það sé illmögulegt að fá nægilegt magn D-vítamíns úr matvælum eingöngu, s.s. úr feitum fiski, sumum tegundum sveppa og vítamínbættum mjólkurvörum. Því verði að taka D-vítamínbætiefni, t.d. lýsi, lýsisperlur eða önnur bætiefni sem innihalda D-vítamín. „Til að viðhalda æskilegum styrk D-vítamíns í líkamanum ætti að byrja ekki síðar en þegar skólarnir eru opnaðir á haustin og halda áfram að taka D-vítamín a.m.k. út mars þegar framleiðsla húðarinnar getur tekið við, það er að segja ef fólk nýtur útiveru og við erum heppin með veður. Ágætt er að minna á að það er ekkert lögmál að það eigi að taka lýsi á morgnana, svo ef það gleymist er ekkert sem bannar að taka lýsi með hádegis- eða kvöldmatnum.“

Hvorki of mikið né of lítið

Fyrir dæmigerða fullorðna manneskju er ráðlagður viðhaldsskammtur af D-vítamíni 15 míkrógrömm á dag en til samanburðar eru í kringum 10 míkrógrömm D-vítamíns í 5 millilítrum af þorskalýsi. „Þeir sem fá sér teskeið af þorskalýsi ættu því að fá alveg nóg til viðbótar við það D-vítamín sem fæst úr matvælum.

Sé hins vegar til staðar skortur á D-vítamíni í líkamanum, þá gæti verið þörf fyrir hærri skammta af D-vítamíni, að minnsta kosti tímabundið. Í þeim tilfellum er ráðlagt að nota annað D-vítamínbætiefni samhliða lýsinu frekar en að auka skammtinn af lýsi. „Það er mikilvægt að einstaklingar taki að jafnaði ekki hærri skammta en 100 míkrógrömm á dag (4000 AE) nema samkvæmt læknisráði, enda hafi læknir þá niðurstöður blóðsýnatöku því til stuðnings að þörf sé á háum skömmtum tímabundið,“ segir Ingibjörg en D-vítamín er eitt þeirra vítamína sem valdið geta eitrun ef það er innbyrt í of miklu magni. Eru fyrstu einkenni D-vítamíneitrunar ógleði, uppköst, orkuleysi og tíð þvaglát. Ingibjörg segir mjög erfitt að innbyrða fyrir slysni svo mikið magn D-vítamíns úr fæðu einni saman að hætta sé á eitrun.

Hjálpar líklega ónæmiskerfinu

En hvað er það sem D-vítamín gerir fyrir heilsuna? Ingibjörg segir að áhrif D-vítamíns á beinheilsu hafi verið rannsökuð mjög vandlega og ljóst að vítamínið skiptir miklu máli við að viðhalda sterkum beinum. „Undanfarin ár hafa jafnframt komið í ljós vísbendingar um að D-vítamín eigi þátt í að draga úr líkum á ákveðnum krabbameinum, hjarta- og æðasjúkdómum, en ekki er búið að staðfesta þá virkni á sama hátt og áhrif D-vítamíns á beinin,“ útskýrir hún. „Að sama skapi eru vísbendingar um að D-vítamín leiki hlutverk í ónæmiskerfi líkamans og skipti máli fyrir andlega heilsu.“

Snemma í kórónuveirufaraldrinum fóru fréttir á kreik um að læknar hefðu komið auga á tengsl á milli D-vítamínskorts og þess að fólk veiktist meira af völdum veirunnar. Ingibjörg segir að ekki liggi fyrir nægilega mikil og vönduð gögn til að fullyrða um þetta samband, en þó megi leiða líkum að því að sé D-vítamínskortur til staðar gæti líkaminn átt erfiðara með að glíma við hvers konar veirusýkingar. „Samt vitum við nógu mikið um D-vítamín í dag til að get fullyrt að við töpum aldrei á því að tryggja að líkamann skorti ekki D-vítamín.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál