Hætti að vinna í banka og fór að hjálpa fólki

Sólveig Ösp Haraldsdóttir.
Sólveig Ösp Haraldsdóttir.

Sólveig Ösp Haraldsdóttir hefur farið í gegnum margt í lífinu. Hún segir það lykilinn að lífshamingjunni að læra að elska sjálfan sig. 

Sólveig Ösp ber það með sér að henni líður vel. Hún er fimm barna móðir og amma í dag og er að byggja upp líf sitt með leiðum sem breyttu lífi hennar á sínum tíma. Hún vann áður í banka en er nú kennari í þerapíunni „Lærðu að elska þig“.

„Ég er menntaður viðskiptalögfræðingur og fljótlega eftir útskrift fór ég að vinna í banka og starfaði þar í tæp 14 ár. Ég fór sjálf í þerapíuna „Lærðu að elska þig“ á sínum tíma þegar ég var komin á verulega slæman stað og með mikla vanlíðan innra með mér. Guðbjörg Ósk sem bjó til þerapíuna upphaflega árið 2010 er mágkona mín og kynnti mér þessa leið sem mér fannst í upphafi frekar skrítin og hálfkjánaleg. Mér fannst ég alveg elska mig á þessum tíma en ég gerði mér ekki nægilega vel grein fyrir því hvað ég var í raun að rífa mig mikið niður.“

Þurfti hugrekki til að breyta til

Breytingarnar létu ekki á sér standa og hún ákvað því að læra að verða kennari í þerapíunni sjálf.

„Á þessum tíma var ég í fullri vinnu í bankanum. Það tók mig því smávegis tíma að ákveða mig. Ég hef reyndar alltaf vitað það innst inni að ég hef mikla ástríðu fyrir því að hjálpa öðrum og hef fundið þörfina fyrir það að leggja mitt af mörkum með því gera heiminn að betri stað. Námskeiðið er þannig uppsett að það er hist í 12 skipti á þriggja vikna fresti í 90 mínútur í senn. Á milli tímanna fær nemandinn áhugaverð og skemmtileg verkefni til að vinna með. Ef þau verkefni eru unnin vel og samviskusamlega, þá getur viðkomandi í raun ekki annað en umbreytt lífi sínu til hins betra.“

Sólveig segir að allt sem hún hafi lært í gegnum þerapíuna og þau fræði sem hún fylgir sé eitthvað sem hún hefði viljað læra fyrr.

„Ég vildi að ég hefði kynnst þessu sem barn. Í raun finnst mér að allir ættu að eiga aðgang að þessu. Því þerapían breytti svo miklu fyrir mig. Eða eins og Ósk segir alltaf þá er þerapían sjálf byggð 80% upp á vísindum og síðan eru 20% hennar andleg.“

Trúir því að hugsanir hafi áhrif á líkamann

Sólveig bendir á að margar rannsóknir í dag sýni mikilvægi hugsana og hvernig áhrif þær hafa á líkamann.

„Fyrir áhugasama þá mæli ég með að kíkja á dr. Joe Dispenza og dr. Bruce Lipton. Svo er myndin Heal á Netflix alveg frábær fyrir þá sem vilja fara að huga betur að sinni heilsu en vita ekki hvernig þeir eiga að byrja.“

Sólveig segir samanburð eitthvað sem fólk ætti að forðast.

„Samanburður er í mínum huga það versta sem við getum gert okkur. Ástæðan fyrir því er sú að við verðum aldrei eins og annað fólk. Hvert og eitt okkar þarf að sjá hversu stórkostleg og mögnuð við erum. Að senda kærleiksríkar hugsanir og tilfinningar til þeirra sem maður fer í samanburð við lætur manni líða betur.“

Í dag er Sólveig dugleg að minna sig á að hún er alltaf að gera sitt besta.

„Ef ég geri mistök eða ruglast, þá er það bara í góðu lagi líka af því þannig læri ég.“

Hún segir að andleg heilsa skipti miklu máli enda trúir hún að hugur, sál og líkami spili saman.

Hætti sjálf að drekka áfengi og reykja

Hverjar eru fyrirmyndir þínar þegar kemur að heilsu?

„Allir sem hafa náð að umbreyta lífi sínu með sem dæmi breyttu mataræði, andlegri sjálfsvinnu og bættum lífsstíl. Ég horfi mikið til Louise Hay heitinnar og dr. Joe Dispenza. Það er í raun svo magnað hvað við getum gert með því að hugsa vel um okkur. Bæði þegar kemur að maga okkar og huga.“

Hvað gerðir þú hér áður sem þú myndir ekki gera í dag?

„Ég bæði drakk áfengi, reykti og borðaði ekki nægilega hollt. Áfengið hentaði mér bara alls ekki og hætti ég að drekka fyrir tæpum 5 árum. Einnig hugsaði ég ekki nægilega vel um mig andlega sem ég sé í dag hvað skiptir okkur virkilega miklu máli. Ég er sem dæmi hætt að rífa mig niður fyrir það ef mér verður á, heldur reyni ég að leyfa mér að gera mistök eða ruglast eins og ég kýs frekar að orða hlutina. Síðan hvet ég mig áfram. Ég hugsa og tala allt öðruvísi til mín.“

Er mikilvægt að elska sjálfan sig til að ná upp andlegri vellíðan?

„Já, ég myndi segja það. Því þá ertu í sátt við þig alveg eins og þú ert og þarft þar með ekki að reyna að breyta þér til að passa inn í eitthvert form sem þú telur þig eiga að passa inn í. Þú ert svo stórkostleg og dásamleg manneskja alveg eins og þú ert og það er eitthvað sem allir þurfa að finna. Finna að þeir séu þess virði, eigi gott skilið, séu nóg og áfram mætti telja. Það er enginn einn betri en annar. Við erum öll jöfn!“

Hvað getur þú sagt mér um vegferð þína í lífinu?

„Ég tel mig hafa fengið þetta hefðbundna uppeldi síns tíma. Ég er elst fjögurra systkina en mamma mín giftist stjúppabba mínum þegar ég var 1 árs. Þannig að mamma mín og blóðpabbi voru aldrei saman. Við fluttum til Danmerkur í kringum þann tíma sem þau gifta sig og erum úti í sex ár. Ég man að sem barn fannst mér ég oft ekki passa inn í umhverfið sem ég var í og að ég væri eitthvað öðruvísi en flest börn. Í dag held ég að mörg okkar upplifi þessa tilfinningu sem börn eða unglingar; að vera öðruvísi og passa ekki inn í það umhverfi sem er í kringum okkur.

Ég hef gengið í gegnum ýmislegt í mínu lífi eins og flestir. Þær tilfinningar sem mér fannst einkenna lífið voru höfnunartilfinning, óöryggi og skortur á sjálfstrausti. Mér fannst ég skipta minna máli en aðrir. Að ég væri ekki nóg og að ég þyrfti stöðugt að vera að sanna mig. Ég var alltaf að reyna að geðjast öðrum. Þurfti að hafa alla góða í kringum mig.

Ég fór líka í gegnum töluvert af áföllum. Ég var misnotuð af ókunnugum fyrir utan húsið okkar í Danmörku þegar ég var fjögurra eða fimma ára að aldri. Ég missti blóðföður minn þegar ég var 9 ára. Ég var í mikilli uppreisn sem unglingur. Fór að heiman þegar ég var 16 ára og var orðin einstæð tveggja barna móðir þegar ég var 23 ára gömul. Á þeim tíma var ég með nýfæddan son minn og fékk mikið fæðingarþunglyndi.

Svo voru ákveðin atriði úr æskunni sem mörkuðu mig en ég áttaði mig í raun ekki á þeim fyrr en ég fór í þerapíuna.

Æskan segir okkur einmitt samt svo margt og í raun mótumst við að þeirri persónu sem við verðum að á aldrinum frá fæðingu til sjö ára aldurs. Það tökum við svo með okkur inn í fullorðinsárin. Því má í raun segja að 7 ára gamalt barn sé að stjórna því hvernig við hugsum og tölum til okkar ef við gerum ekkert í málunum.“

Mikilvægt að hafa gaman af lífinu

Hvað skiptir mestu máli?

„Að hlúa að sjálfum sér. Ekki bara með því að mæta í ræktina – sem er gott og blessað, en líka að hlúa að andlegu hliðinni. Að hafa gaman af lífinu og njóta augnabliksins. Andartaksins sem kemur aldrei aftur.

Lífið snýst um ferðalagið sjálft en ekki um það hvert þú ert að fara.

Svo skiptir miklu máli að finna fyrir þakklæti og leita eftir því ef við finnum ekki fyrir því. Ég tel það skipta miklu máli að hugsa eins mikið og við getum út frá kærleika og ást. Líka að samþykkja það að við séum alltaf að gera okkar besta á hverjum tímapunkti. Alveg eins og allir aðrir. Allt fer eins og það á að fara. Eins og flestir þekkja, þá vex allt það sem við veitum athygli. Þegar við erum í þakklæti fyrir það sem við höfum hverju sinni, sama hvað það er – þá vex það. Þegar við æfum okkur í því að hugsa allt út frá ást og kærleika, þá vex það líka í kringum okkur.

Það að fylgja hjartanu og innsæi skiptir líka miklu máli að mínu mati og að tileinka sér jákvætt hugarfar. Með því að reyna að sjá alltaf bestu mögulegu niðurstöðuna úr öllu, sama hversu fáránleg hún kann að hljóma, þá getur það komið í veg fyrir kvíða. Þetta lærði ég meðal annars af vini mínum honum Echart Tolle.“

Hvað skiptir engu máli að þínu mati?

„Álit annarra og hvað öðrum finnst um hitt og þetta. Það eina sem virkilega skiptir máli, er það hvað þér raunverulega finnst.

Að mínu mati ætti þerapían „Lærðu að elska þig“ að vera kennd í grunnskólum, því í henni lærum við að treysta á innsæið okkar og efla sjálfstraustið en ekki fylgja straumnum. Innsæið okkar er í raun eini áttavitinn sem við þurfum í lífinu. Þegar við komum á fullorðinsárin eru flest okkar búin að týna innsæinu og við erum búin að búa okkur til alls konar hindranir sem aftra okkur frá því að lifa hamingjusömu og gleðilegu lífi. Þannig erum við að svíkja okkur sjálf en ekki að elska okkur án skilyrða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »