Ertu í svitakófi á nóttunni?

Margir vakna í svitakófi á nóttunni. Það hefur áhrif á …
Margir vakna í svitakófi á nóttunni. Það hefur áhrif á gæði svefns. Úr safni

Það geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að við vöknum í svitakófi á nóttunni. Þegar líkaminn hitnar um of á nóttunni raskast jafnvægi þeirra hormóna sem tryggja góðan svefn og þess vegna vöknum við þegar okkur verður of heitt. Öll viljum við sofa vel og því um að gera að hafa þessi fjögur ráð á bak við eyrun til þess að forðast svitakóf.

Fjórar algengar ástæður þess að við svitnum á nóttunni eru sagðar þessar: 

1. Kvíði

Rannsóknir hafa sýnt fram á það að tengsl séu á milli kvíða og nætursvita. Aðallega vegna þess að streituhormónið kortisól hækkar líkamshitann. Sérfræðingar mæla með því að ráðast að rót vandans og finna leiðir til þess að draga úr kvíða. Líkamsrækt hefur til dæmis verið góð leið til þess að takast á við kvíða.

2. Líkamsrækt seint á kvöldin

Æfirðu of seint á kvöldin gæti líkaminn enn verið að brenna þegar þú loks ferð að sofa og þar með verður þér heitt á nóttunni. Betra er að þjálfa líkamann á morgnana þar sem líkaminn leysir þá út serótónín sem heldur þér hressum yfir daginn.

3. Að borða of seint á kvöldin 

Rannsóknir hafa sýnt að líkaminn hitnar ef hann þarf að melta mikinn mat á nóttunni og þá sérstaklega hafi maturinn verið mjög sterkur á bragðið. Forðastu að borða of seint og forðastu kryddaðan mat.

4. Breytingaskeiðið

Svitakóf eru algeng á breytingaskeiðinu. Sértu á breytingaskeiði þá er um að gera að leita til læknis og fá viðeigandi ráð um hvernig meðhöndla eigi þessar hormónabreytingar.

mbl.is