Gista á hóteli í Reykjavík og detoxa með Gunnari

Gunnar Már Kamban hjálpar fólki að núllstilla sig með detoxi sem fer fram á hóteli í Reykjavík. Áhersla er lögð á slökun og að fólk nái tökum á mataræði sínu á stuttum tíma. Hann heillaðist af detoxi hjá Jónínu Benediksdóttur heitinni fyrir um áratug og segir að það hafi breytt lífi hans. Hann notaði veirutíma til að þróa dagskrá sem hann segir að virki vel. 

Í stuttu máli hentar detoxið fyrir alla þá sem vilja núllstilla líkamlega og andlega heilsu. Þetta fer hönd í hönd og heilsumeðferðin býður upp á mjög nærandi mataræði ásamt mikilli áherslu á slökun og hvíld. Fólk mun vinda ofan af þreytu og léttast hressilega á þessum tíma. Ég fór í mína fyrstu heilsumeðferð 2010 vegna þreytu og í baksýnisspeglinum sé ég að ég var bara alveg búinn á því og flokkast sennilega að hafa verið í kulnun. Ég svaf nánast alla fyrstu dagana og kom bara fram að borða. Á degi 6 var ég farinn að fara í göngutúrana og gufurnar og svo gerðist bara eitthvað innra með mér og ég fann að ég fór að fá kraftinn aftur og orkuna. Í stuttu máli gekk ég út eftir 14 daga með endurnærða orku og meira en tíu kílóum léttari. Mín upplifun er að svona virkar detoxið fyrir flesta og ég hef persónulega aldrei gert betri hlut fyrir mína eigin heilsu og hef notað hana reglulega síðan,“ segir Gunnar.

Nú finnst kannski einhverjum furðulegt að gista á hóteli í Reykjavík en er það betra en að gista úti á landi?

„Já góður punktur. Mér fannst þetta pínu skrýtið þegar ég var að setja saman meðferðina en þetta er eiginlega þannig að maður er í sínum eigin litla heimi á hótelinu svo upplifunin er svolítið eins og maður sé erlendis þegar maður tékkar sig inn. Það upplifa það allir þannig að það er þægilegra að hafa athvarf á hótelinu og sofa til að ná slökuninni og svolítið að kúpla sig út svo þetta virkar algerlega eðlilegt þegar fólk er komið á staðinn. Þægindapunkturinn er líka að ef fólk gleymir einhverju heima eða þarf að fara í búðina eða jafnvel fá heimsóknir frá maka eða vinum er það leikur einn þegar maður gistir í bænum,“ segir hann.

Þegar Gunnar er spurður að því hvernig prógrammið sé byggt upp segir hann að það sé alltaf morgunverður klukkan níu á morgnana.

„Eftir það liggur leiðin út í frískandi morgungöngu þar sem við göngum beint yfir götuna í gegnum garðinn við Ásmundasafn og þaðan í Laugardalinn og gegnum grasagarðinn. Ótrúlegar náttúruperlur við hliðina á helstu umferðaræðum bæjarins. Eftir morgungönguna teygjum við alltaf vel á og tökum jafnvel stutta hugleiðslu og síðan fara allir í spa-ið. Það býður upp á gufur, potta, kalda potta og flotlaug. Spa-ið er stór hluti af slökunarferlinu og þar eyðir fólk góðum tíma. Eftir það er hádegisverður sem er borðaður klukkan 13:30. Eftir hádegisverð er hugmyndin að fólk hvíli sig. Þar gefst þó einnig tími ef fólk þarf að vinna aðeins með detoxinu og hægt að nýta þennan tíma. Seinni hlutarnir hefjast svo 16:30 með rólegu jóga, slökunaræfingum eða hugleiðslu og svo er það kvöldverður klukkan 17:30. Síðan er það eiginlega rúsínan í pylsuendanum en eftir kvöldverð ljúkum við alltaf deginum á saunuþerapíu. Hún fer þannig fram að við sláum upp smá mini-partýi. Ég set góðan ilm á steinana í saununni og spila góða tónlist og hækka síðan hitastigið í gufunni markvisst og veifa handklæði um til að ýta hitanum á fólkið. Þetta er ótrúlega magnað að upplifa og síðan fer fólk í kælingu á eftir með því að fá sér frískt loft eða fara í kaldan pott eða sturtu. Líðanin verður mjög góð eftir þetta og fólk nær að slaka mjög vel á eftir svo þetta hefur góð áhrif á svefninn,“ segir Gunnar.

2020 var furðulegt ár vegna kórónuveirunnar. Þegar Gunnar er spurður að því hvort fólk hafi farið illa með heilsuna segir hann að hans upplifun sé sú að fyrri bylgjan hafi farið betur með fólk.

„Þetta ástand hefur klárlega mikil áhrif á heilsuna og ekki bara það að hreyfingin hefur minnkað hjá flestum heldur er það þessi óvissa og álag tengt því. Það hafa flestir þurft að gera þó nokkrar breytingar á lífi sínu og háttum og ekki alltaf á jákvæðan hátt svo ég held að andlega hliðin sé það sem þurfi að hlúa vel að. Það jákvæða er að nú er ljós í enda ganganna og ég er persónulega bjartsýnn á að við, svona sem þjóð, munum verða fljót að hrista þetta af okkur en það gerist ekki sjálfkrafa og því er mikilvægt að taka skrefið fyrir okkur öll og fara nú þegar að huga að því hvernig við ætlum að næra okkur, vinda ofan af áhyggjunum og finna hreyfingu við hæfi.“

Hvað er það helst sem fólk er að gera í dag sem það ætti ekki að gera?

„Það er örugglega hægt að telja upp langan lista af ósiðum en að mínu mati er það versta eiginlega frestunarárátta. Að taka ekki á málunum áður en þau eru komin í óefni er slæmur siður.

Þetta á bæði við um andlega og líkamlega heilsu og nánast allt í lífinu ef við skoðum þetta í stóra samhenginu, vinnu, samskipti og fleira og fleira. Ég tengi þetta sterkt við sjálfan mig en ég var lengi búinn að upplifa þreytu, vanlíðan, vanmátt og líkamlegt ójafnvægi áður en ég leitaði mér aðstoðar og hafðu það í huga að ég vann við að bæta heilsu fólks svo þetta er í raun galið. Þetta lagast ekki að sjálfu sér, maður verður að taka skrefið og eins og ég var búinn að nefna þá var það mitt mesta gæfuspor að hafa gengið inn í detoxið hjá henni Jónínu Ben, Guð blessi minningu hennar. Síðan þá hef ég unnið markvisst í að fresta ekki hlutunum og tvinnað það inn í mína hugmyndafræði, þjálfun og mitt detox,“ segir hann.

Hvað um mataræðið á þessu detoxi? Borðar fólk bara agúrkur og vatn?

„Það eru svo sannarlega bæði agúrkur og vatn inni í matarprógramminu en líka töluvert mikið annað. Við erum að bjóða upp á þrjár leiðir að fara varðandi matinn. Detox er það mataræði sem flestir fara á og er blanda af grænmeti, salati, grænmetissúpum, söfum og næringarríkum smoothie-drykkjum. Þessi leið er lág í kaloríum en stútfull af næringu og sem dæmi samanstendur hádegisverðurinn af fersku salati með grænmetismaukum, bökuðu grænmeti og grænmetissúpu svo enginn verður svangur í detoxinu get ég fullyrt. Við höfum einnig grænmetissúpu og tebar sem er opinn allan daginn fram á kvöld ef svengdin sækir að. Síðan er það Wellness mataræðið sem er sami grunnur og detoxið en inniheldur einnig skammt af próteinum eins og fisk, kjúkling, kjöt eða baunir og fitur eins og ólífuolíu eða osta. Þetta er mjög nærandi og mettandi leið að fara fyrir fólk sem vill aðeins meira af kaloríum. Síðan eru það safarnir en við erum nú i fyrsta sinn að bjóða upp á safa og þá eru það ferskpressaðir grænmetissafar sem eru uppistaðan og er kærkominn kostur fyrir þá sem eru síður hrifnir af salati eða bara fyrir fólk að skipta yfir á í dag eða tvo til að fá smá fjölbreytni í þetta. Það er Vox veitingastaðurinn sem hefur þróað mataræðið ásamt mér og ég get fullyrt það að maturinn og framreiðslan er sú besta sem ég hef nokkurn tímann upplifað í detoxi hvar sem er í heiminum.“

Lumar þú á einhverri reynslusögu frá manneskju sem hefur farið í detoxið?

„Já, ég á margar reynslusögur frá fólki og hérna er ein sem mér þykir vænt um en við Inga ræddum mikið saman meðan á meðferðinni stóð og áttum í smá erfiðleikum að finna leið fyrir hana í mataræðinu þegar hún kæmi út. Ég leysi alla út með áætlun varðandi mataræðið og það tók okkur ansi langan tíma að finna út hvað virkaði fyrir hana en duttum svo niður á frábæra lausn sem hentaði henni og hún náði stórkostlegum árangri í framhaldinu og hélt áfram að uppskera bætta heilsu og léttari líkama,“ segir Gunnar.

„Að fara til Gunnars í detox er það besta sem ég hef gert fyrir mig lengi. Ég var búin að missa alla trú á að ég gæti létt mig, var orðin allt of þung, illt í liðum og bara gömul fannst mér. Vonleysið yfir stöðu mála var þó verst. En svo fór ég til Gunnars. Hafsjór af fróðleik var hann vakinn og sofinn yfir okkur hópnum sínum og með sinni einstöku ljúfmennsku var hann alltaf til reiðu, til í spjall og að gefa ráð. Hann var óþreytandi að uppörva, nokkuð sem gaf mér vonina til baka. Með dyggri aðstoð lét hann okkur sjálf finna út hvað hentaði í baráttunni við kílóin þegar dvölinni lyki. Verkfærið sem við í sameiningu fundum út að hentaði mér persónulega hefur reynst mér vel. Ég get ekki fullþakkað að ég fór í detox til Gunnars og var námskeiðið hverrar krónu virði. Að mínu mati myndu Íslendingar ráða betur við offitufaraldurinn ef þeir ættu fleiri Gunnara,“ segir Inga.

Hvað gerist þegar fólk fær pásu frá lífinu í sjö til 14 daga?

„Mín upplifun og upplifun margra er að það gerist eiginlega lítið kraftaverk. Fólk fær nýja sýn á hlutina. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera á skömmum tíma í þessu umhverfi og með þessu mataræði sem detoxið gengur út á. Hlutir sem við erum búin að humma fram af okkur í mánuði og ár og jafnvel áratugina virðast ekki lengur vera vandamál að tækla og það sem gerist á þessum dögum gefur fólki aukinn kraft og orku og von um þetta sé hægt. Það smá segja að detoxið sé hálfgerð flýtimeðferð til að koma hausnum og líkamanum á betri stað og það er nákvæmlega það sem gerist. Detox er ekki nýtt af nálinni og þessi tegund af heilsumeðferðum hefur verið stunduð í áratugi um allan heim og ekki að ástæðulausu. Ég held að það hafi þó aldrei verið meiri þörf fyrir það þó en nákvæmlega núna. Heimurinn 2021 snýst hratt og álag er mikið svo í mínum huga er eðlilegt og sjálfsagt að vinda ofan af þessum þeytingi reglulega með því að taka sér frí frá í raun öllu og hugsa bara um eigin heilsu og vellíðan.“

Hvernig leggst 2021 í þig sjálfan? Ætlar þú að gera eitthvað öðruvísi í ár en í fyrra?

„Árið leggst afar vel í mig en síðasta ár gerði það svo sem líka og árið þar á undan. Það sem ég fann í fyrra var að þegar mín grein fór eiginlega á hliðina vegna lokana fann ég fyrir sköpunarmættinum í mér blossa upp því það að leggjast í kör var aldrei inni í myndinni og við það að þróa þessa meðferð og fá að vinna við detoxið, þótt það hafi verið með hléum á síðasta ári, hef ég fundið fyrir mestu starfsánægju sem ég hef upplifað. Það er magnað og það er ég þakklátur fyrir svo mitt markmið er að halda áfram að þróa þessa heilsumeðferð, halda áfram að vera ánægður í starfi og halda áfram að þroska sjálfan mig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál