„Við eigum ekki að dæma fólk eftir útliti eða klæðaburði“

Sigurlaug Ýr er með ákveðinn smekk.
Sigurlaug Ýr er með ákveðinn smekk. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurlaug Ýr Gísladóttir er ákveðin, sjálfstæð kona sem er ófeimin við að láta álit sitt í ljós. Hún er einhleyp og barnlaus og leggur mikla áherslu á að lifa heilsusamlegu lífi. Kórónuveiran hefur ekki haft nein áhrif á hreyfingu hennar og æfir hún daglega. 

Sigurlaug Ýr er með kandídatspróf í endurskoðun frá Háskóla Íslands og meistarapróf í endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfar sem sérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hún setur heilsuna ávallt í fyrsta sætið, æfir reglulega úti í náttúrunni, heima eða í líkamsræktarsal og hugar að góðu mataræði.

„Ég er með mjög ákveðinn smekk um alla hluti, sjálfa mig og fólkið sem ég kýs að umgangast,“ segir Sigurlaug Ýr.

„Mér finnst heillandi í fari fólks þegar orð fylgja athöfnum.“

Sigurlaug Ýr segir að þótt henni finnist að mörgu leyti gott að búa á Íslandi finnist henni samfélagið lítið og fáir kostir í boði.

„Ég hef alltaf verið sjálfri mér nóg, allt frá því ég var lítil stelpa. Það mátti til dæmis sjaldan leiða mig.

Ég er elst þriggja systkina minna og ef til vill er það innbyggt í mig úr uppeldi mínu, sem var reglufast og stöðugt. Ég stundaði og keppti í fimleikum fram á unglingsár. Agi og ákveðni hefur ef til vill mótast frá íslenskum og rússneskum fimleikakennurum mínum sem ég hugsa enn hlýlega til, enda voru þeir frábærir í sínu hlutverki.“

Sigurlaug fer út að hjóla reglulega.
Sigurlaug fer út að hjóla reglulega. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurlaug Ýr hefur brennandi áhuga á jafnrétti kynjanna og því að bæði konur og karlar hafi frelsi til að vera nákvæmlega eins og þau vilja án þess að vera dæmd eða lögð í einelti fyrir sín sérkenni.

„Mér finnst gott að segja hlutina eins og mér koma þeir fyrir sjónir án þess að flækja málin að óþörfu. Í því samhengi vil ég nefna eitt atriði eins og aldur kvenna. Ég man mjög vel eftir því þegar seinna sambandið mitt endaði árið 2013, þá var ég þrjátíu og átta ára gömul og barnlaus. Ég fann mikið fyrir því hvernig karlmenn líta mismunandi á konur eftir því á hvaða aldursskeiði þær eru. Með því finnst mér verið að hlutgera konur. Við verðum hvorki betri né verri með árunum, ekki frekar en karlmenn.“

Sigurlaug Ýr er með lyftingabekk heima hjá sér.
Sigurlaug Ýr er með lyftingabekk heima hjá sér. mbl.is/Árni Sæberg

Ætti ekki að vera bannað að vera kynþokkafullur

Hún hefur gaman af því að draga fram kynþokkann fyrir sjálfa sig.

„Það er einfaldlega hluti af því að standa með sjálfri mér, mér finnst að það ætti ekki að vera tabú fyrir konur að vera kynþokkafullar. Við eigum ekki að dæma fólk eftir útliti eða klæðaburði. Smekkur er eitt, atferli annað. Þannig að þegar ég klæði mig á minn hátt er ég ekki að gefa annað í skyn en rétt minn til kynfrelsis og tjáningar.“

Sigurlaug Ýr segir heilsuna í raun undirstöðu gæða lífsins.

„Á tímum kórónuveirunnar hefur gengið mjög vel að halda sig við fasta liði. Ég hef verið að vinna heima undanfarin misseri. Ég æfi jafnt úti og inni þar sem ég hef ég komið mér upp góðri æfingaaðstöðu hér heima.“

Sigurlaug Ýr borðar vanalega ekki morgunmat en tekur lýsi og drekkur heilsudrykk.

„Á morgnana drekk ég frekar bragðvondan heilsudrykk sem inniheldur eplaedik, rauðrófusafa, engiferskot og sítrónusafa. Vatn stendur svo fyrir sínu allan daginn þar sem ég drekk hvorki te né kaffi.

Um helgar geri ég stundum sparihafragraut sem inniheldur tröllahafra, vatn, hampfræ, chiafræ, hörfræ, hunang, kanil, kakó og ber.“

Hvernig hugarðu að heilsunni daglega?

„Ég borða mest grænmeti og ávexti og svo er fiskur í uppáhaldi hjá mér. Ég borða helst ekki rautt kjöt, nema um stórhátíðir. Ég fæ mér kjúklingakjöt einstaka sinnum. Ef mig langar í eitthvað á milli mála finnst mér gott að eiga til möndlur, döðlur, popp, dökkt súkkulaði, gulrætur, gul epli og hnetusmjör.“

Sigurlaug Ýr á góðri stund í Dubai.
Sigurlaug Ýr á góðri stund í Dubai.

Hefur lært að allt er best í hófi

Sigurlaug segir að það sé eðlilegt að það taki tíma fyrir fólk að finna jafnvægi á milli hreyfingar og hvíldar.

„Heilbrigður lífsstíll hefur alltaf verið í fyrsta sæti hjá mér og á þeim vettvangi keppi ég einungis við sjálfa mig. Ég hef alltaf stundað íþróttir af einhverju tagi. Ég stundaði fimleika hér á árum áður og síðar tóku dans og líkamsrækt við. Í seinni tíð hef ég fundið hvað það er mikilvægt fyrir mig að vera dugleg að æfa reglulega til að vinnuorkan sé næg.“

Sigurlaug segist hafa lært með árunum að allt sé best í hófi.

„Ég fer sem dæmi ekki í megrun. Góð heilsa snýst um að temja sér heilbrigðan lífsstíl án öfga.

Ég borða holla fæðu í stað þess að nota duft.“

Uppáhaldsæfingafatnaðurinn er frá Nike og vörumerkið Women's Best.

„Mér finnst þægilegt að æfa snemma á morgnana en þá er það venjulega æfing í ræktinni eða á tímum kórónuveirunnar útihlaup snemma morguns. Þá hleyp ég vanalega þrjá til fimm kílómetra.

Síðan geri ég þrekæfingar heima sem ég hef búið mér til og henta líkama mínum. Ég nota TRX-kerfið, lyftingabekk, bozu, bolta, lóð, rúllur, dýnu, teygjur og fleira í þeim dúr.“

Hvernig er draumamaðurinn í þínum huga?

„Það er maður sem veit hvað hann vill og lætur orð fylgja athöfnum. Hann hefur gaman af íþróttum og ferðalögum, er jákvæður og ævintýragjarn og ástríðufullur fyrir markmiðum sínum í lífinu. Ef slíkur draumaprins er þarna úti einhvers staðar, þér er ég Sigurlaug Ýr á Instagram.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál