Anna Kristjáns er búin að léttast um 8,9 kíló

Anna Kristjánsdóttir er búin að léttast um 8,9 kíló árinu.
Anna Kristjánsdóttir er búin að léttast um 8,9 kíló árinu. Ljósmynd/K100

Vélstjórinn Anna Kristjánsdóttir er búin að léttast um 8,9 kíló það sem af er ári. Það er þó aðeins bara byrjunin því Anna ætlar sér að léttast um 22 kíló á árinu. Þótt árangurinn sé góður þá segir Anna frá því í dagbókarfærslu sinni á Facebook í dag að hún hafi ekki náð markmiði sínu, sem var að vera komin undir 90 kíló þann 1. mars. Hún birtir mynd af vigtinni sem sýnir 90,7 kíló. 

„Fyrir fimm vikum síðan gaf ég út það loforð að ég skyldi vera komin undir 90 kg hinn 1. mars en nú verð ég að játa synd mína. Ég bið lesendur mínar afsökunar á stóryrðum mínum. Mér tókst ekki ætlunarverkið eins og sjá má. Kannski var ég of bjartsýn eða þá að ég var of dugleg við neysluna, of margar safaríkar nautasteikur með bernaise sósu og bökuðum kartöflum og of lítil hreyfing, of fáar fjallgöngur og of miklar harðsperrur.

Það þýðir ekkert að láta deigan síga. Þótt ég hafi minnkað um sem svarar einu númeri í fatastærð er lokatakmarkið enn hið sama, að komast í kjólinn fyrir jólin og að ná af mér 22 kílóum á árinu og mér til huggunar eru 8,9 kg farin það sem af er ári,“ segir Anna.

Hún bætir við að nú sé markmiðið sett á að vera komin niður fyrir 88 kíló fyrir páska, sem eru í byrjun apríl. Hún viðurkennir að þótt hún hafi ekki náð markmiðið sínu nákvæmlega þá sé árangurinn samt sem áður góður.

Anna hefur það sem af er ári verið gríðarlega dugleg við að hreyfa sig og ganga á fjöll í næsta nágrenni við Los Cristianos.

mbl.is