„Ég er stórkostlegur“

Það tíðkast að fólk sé að leita allra leiða til að huga betur að heilsu sinni með nýjum leiðum. Jón Kristinn Jónsson og Erling Adolf Ágústsson fóru á helgarnámskeið hjá Andra Iceland á dögunum og var námskeiðið haldið í uppsveitum Árnessýslu á hóteli.

Á námskeiðinu styrktu þeir líkama og sál, gerðu öndunaræfingar, ögruðu mörkunum sínum, lærðu að kæla og fundu betri tengingu við sjálfa sig. 

„Við félagarnir horfðum á hvorn annan og hugsuðum með okkur að þetta gæti verið sniðugt. Við höfðum báðir farið á námskeið hjá Andra sem heitir „Hættu að væla komdu að kæla“ sem hefur náð gríðarlegum vinsældum. Andri er health and personal development coach sem er að vinna með Wim Hof aðferðarfræði sem hefur einnig notið gríðarlegra vinsælda á erlendri grundu. Hann kennir einnig þekktar aðferðir eins og Oxygen advantage, Buteyko and XPT,“ segir Erling. 

Námskeiðið hófst klukkan níu á föstudagsmorgni og stóð fram að kaffitíma á sunnudegi. Jón Kristinn er mikill öryggisfíkill og það var því töluvert úr karakter að fyrir hann að fara í slíka ferð og vita ekki nákvæmlega hvað hann var að fara að gera. Það voru margar hugsanir sem fóru í gegnum kollinn á honum áður en hann lét til skara skríða. 

„Það sem ég hugsaði með mér var eitthvað á þessa leið. Hvað var ég eiginlega að spá að fara að eyða þremur dögum úti á landi með 11 öðrum körlum þar sem okkur myndi vera kennt að takast á við marga af þeim andlegu og líkamlegu þáttum sem hrjá nútíma karlmenn og konur. Það eina þægilega við tilhugsunina er það að ég er bara að fara með körlum og því aðeins auðveldara að vera kjánalegur,“ segir hann og bætir við. 

„Ég var mættur á slaginu níu á gistiheimili sem er rétt við Hellu. Ég fór inn með allan minn farangur sem innihélt allt til útiveru og fleira. Ég hitti Andra sem vísaði mér á mitt herbergi. Þar kom ég mér fyrir og virti fyrir mér umhverfið. Ég áttaði mig ekki á því hvort ég væri kvíðinn eða spenntur.  

Þegar allt var komið á sinn stað kom Andri inn til mín og bað mig um að klæða mig í léttan klæðnað til útiveru og vera klæddur í stuttbuxur innanundir. Þegar ég var búinn að þessu átti ég bara að hugleiða aðeins hvað við værum hugsanlega að fara gera. Þar sem ég er, eins og áður segir með mikla óvissufælni þá fór hugurinn á fullt. Ég hugsaði að nú værum við að fara ganga til að komast í ískalt vatn eða eitthvað mjög óþægilegt,“ segir hann. 

Jón Kristinn segir að óvissan hafi verið mikil. 

„Við höfðum aðeins séð brot af því sem átti að gerast en vissum aldrei hvenær það átti að gerast. Fyrir marga er það stórt skref að fara út í eitthvað sem þeir hafa ekki stjórn á og var það stærsta áskorunin fyrir flesta til að byrja með. 

Tilgangur námskeiðsins er að yfirstíga hræðslu við óvissu og hið óþekkta ásamt öðrum hlutum sem námskeiðið bauð upp á og verðum við að segja að þetta kom okkur verulega á óvart.“

Jón Kristinn segir að hann hafi haft mjög gott af þessu. 

„Það sem við gerum nefnilega þegar okkur er ögrað er að ákveða að þetta sé ekki hægt. Það er ótrúlegt hvað við getum gert, ef við stillum hugann rétt áður af stað er farið. Orðatiltækið „Þú getur allt sem þú ætlar þér“ á vel við á þessu námskeiði,“ segir hann. 

Erling tekur í sama streng og segir að þeir félagar hafi komist að því þessa helgi að þeir geti miklu meira en þeir héldu. 

„Þegar maður nær tökum á huganum og hugsunum sínum, þá er allt hægt. Án þess að uppljóstra of miklu, þá gerðum við öndunaræfingar að hætti Wim Hof, fórum í kaldar sturtur, okkur var kennt að anda rétt, náðum tökum á hugsunum okkar, fórum í kuldaþjálfun úti í náttúrunni og lærðum hvernig líkaminn hitar sig upp eftir kuldann. Við fóru í hreyfiflæði, nærðum líkamann með hreinum mat og lærðum morgunrútínu til þess að koma öllu kerfinu í gang og láta ekkert stoppa sig,“ segir hann. 

Báðir eru þeir sammála um það að svona helgi hafi gert mikið fyrir þá. 

„Það er stórkostlegt að læra inn á líkama sinn og sjá hvað hann er raunverulega magnað fyrirbæri. Á svona námskeiði lærir þú að vera stórkostlegur ásamt því að láta huga þinn aldrei stoppa þig í því sem þú ætlar þér,“ segir Erling og Jón Kristinn tekur í sama streng. 

„Þetta námskeið er svo miklu meira en bara námskeið sem kennir þér að kæla og anda. Þetta kennir þér að þú getur gert allt sem þú vilt. Leiðtogahæfni og nærgætni Andra er slík að ég hvet alla karlmenn til að stíga út fyrir þægindaramman og tileinka sér það sem hann hefur upp á að bjóða. Upplifunin er einstök, ég lofa! Námskeiðið var þvílíkt gæfuspor fyrir okkur félagana og lítum við björtum augum á framtíðina með þessa tækni með okkur í farteskinu,“ segir Jón Kristinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál