Stefnir á að vera í betra formi eftir tuttugu ár

„Þegar fólk áorkar einhverju, setur sér markmið og nær því, þá batnar bæði sjálfstraustið og sjálfsálitið og manneskjan fer að trúa því að hún geti meira. Náð fleiri markmiðum. Hún skapar sér sýn og leggur sig svo fram um að komast þangað en ef illa gengur að móta þessa sýn og markmið þá þarf bara að setjast niður og skoða það betur,“ segir Sylvía Sigurðardóttir, ferðamálafræðingur, einkaþjálfari og markþjálfi með meiru.

Sylvía er sjálfstæð mamma sem flutti til Spánar fyrir fimm árum, ásamt barnsföður sínum og syni. Sambandinu við barnsföðurinn lauk fyrir tveimur árum og síðan hefur hún tekist á við að vera bæði einstæð mamma og sjálfstætt starfandi heilsuráðgjafi á Spáni. Geri aðrir betur. Hún segir þetta stundum erfitt, en það sem er skemmtilegt og gott hafi þó betur enda blómstra þau mæðginin í sólinni á Spáni.

Leggja áherslu á að sleppa öfgum í mataræði og að heilsuferðalagið sé skemmtilegt

„Ég bý í strandbænum Denia sem er í suðurhluta landsins og þar er mjög fjölskylduvæn stemning. Á Spáni eru börn alls staðar velkomin líka. Í hvaða partý sem er og út að borða á kvöldin. Þau eru aldrei ein að leika sér heldur eru allir alltaf saman. Fólk á öllum aldri. Það getur líka verið erfitt að vera ein með barn, þar sem allar áskoranir og ákvarðanir í daglegu lífi velta mest á manni einum, en sem betur fer á ég yndislegan og þægilegan strák þannig að áskoranirnar eru ekki margar,“ segir Sylvía og bætir að vinir hennar úti séu orðin eins og fjölskylda hennar en í þeim hópi eru bæði aðfluttir og heimamenn.

„Við hjálpumst að, lítum eftir börnum hvert annars og eyðum mjög miklum tíma saman. Ég er mjög þakklát fyrir þetta og finn það alla daga. Það gerbreytir lífinu að hafa gott fólk í kringum sig. Svo er ekki verra að flestar vinkonur mínar eru í æfingartímum hjá mér og börnin okkar góðir vinir,“ segir Sylvía sem gegnir ýmsum störfum á sviði heilsueflingar, bæði á Íslandi og Spáni. Til dæmis vinnur hún sem fjarþjálfari hjá Hiit fit en það er heilsusamfélag á netinu þar sem fólk kemur saman og vinnur út frá heildrænni nálgun á heilsueflingu. „Við leggjum mjög mikla áherslu á hugarfarið og þar kemur það sterkt inn að ég er líka markþjálfi. Til dæmis leggjum við áherslu á að mataræðið sé skoðað án öfga og svo viljum við gera bæði áskoranirnar og heilsuferðalagið skemmtilegt. Pörum til dæmis vinkonur innan hópsins saman svo að þær hafi skemmtilegan félaga á ferðalaginu. Mjög margir sem eru hjá okkur búa úti á landi svo er margt fólk sem vill heldur æfa heima hjá sér á tímasetningum sem henta,“ segir Sylvía og bætir við að hjá Hiit fit sé unnið með mjög margvíslegar æfingar, bæði einfaldar og erfiðar, til dæmis ketilbjöllur, jóga, pílates og slökun.

Mætir heim til fólks og sinnir einkaþjálfun í garðinum

Á Spáni hefur Sylvía í mörgu að snúast en hún er bæði með hóptíma og einkatíma fyrir heilsuiðkendur. „Ég ákvað að byrja með hóptíma úti og fyrir valinu varð almenningsgarður í Denia. Þetta hefur gengið vonum framar og hópurinn er orðinn stór. Við gerum æfingarnar úti í fallegum garði fullum af blómum og í honum er lækur þar sem skjaldbökur hafa það gott,“ segir Sylvía sem er líka með fólk í einkaþjálfun.

„Ég fer heim til þeirra og við æfum yfirleitt í garðinum hjá þeim sem er mjög skemmtilegt. Svo hef ég líka verið með fólk í markþjálfun en mér finnst alveg geggjað að sjá fólk taka skref í átt að því lífi sem það vill lifa,“ segir Sylvía sem stundar sjálf ræktina, crossfit, göngur, heimaæfingar, hugleiðslu og jóga. „Ég geri allt sem ég get til að hreyfa mig! Ég myndi vilja vera í dansi og sjósundi líka en það er bara ekki tími.“

Sylvía hefur einnig starfað á svokölluðu heilsu „retreat“ á Spáni þar sem þátttakendur voru að frá morgni til kvölds að hlúa að bæði andlegri og líkamlegri heilsu.

„Það var einstakt að hitta fólk frá öllum hlutum heimsins, úr ólíkum stéttum og með alls konar bakgrunn. Yfirlæknir á stórum spítala á Englandi, fyrrum hermaður frá Bandaríkjunum, kennari frá Írlandi eða eigandi heilsustofnunar í Ísrael svo dæmi séu nefnd. En þegar allir eru saman á svona stað með sama markmið, að bæta heilsuna, þá verður staða fólks algert aukaatriði og það myndast mjög falleg tenging þegar fólk sýnir bæði veikleika sína og deilir draumum og óskum með öðrum þátttakendum.“

Fékk fyrst áhuga á andlegu hliðinni

Áhugi Sylvíu á líkamlegri heilsueflingu byrjaði með áhuga hennar á andlegri heilsu, persónulegri þróun og þroska en hún segir að þetta tvennt sé tengt órjúfanlegum böndum.

„Að rækta líkamlega heilsu er fyrir mér tól til að bæta andlegu heilsuna og auðvitað lífsgæðin í leiðinni. Fólk gerir alltaf sömu mistökin þegar það byrjar og ég var þar líka. Maður var alltaf að prófa einhverja kúra sem mistókust og maður fór í sama farið en hélt samt alltaf áfram að prófa nýja kúra. Þegar þetta er svona þá þarf að stoppa og skoða málin dýpra. Nákvæmlega hvað er það sem stöðvar viðkomandi í því að trúa á að það sé hægt að ná tökum – og fylgja því svo eftir. Það er algert grundvallaratriði að skoða þetta áður en lengra er haldið því leiðin í áttina að bættri heilsu og betri líðan byrjar alltaf í höfðinu.“

Sjálfsþekking er grunnurinn að árangri

Hvað kom til að þú sjálf fékkst áhuga á persónulegum þroska?

„Sko. Þegar augun hafa einu sinni opnast þá er einfaldlega ekki hægt að loka þeim aftur. Eftir að ég gerði breytingarnar á mínu lífi fór ég ekki bara að finna áhrifin sem það hafði á mitt líf heldur líka fólksins í kringum mig. Ég hef núna mikið meira að gefa og mig langar að vera góð fyrirmynd fyrir strákinn minn. Þetta er auðvitað það sem allir segja en það er svo ótrúlega gaman þegar maður virkilega sér hvernig eigin bættu viðhorf og athafnir hafa áhrif á börnin. Sjálfsþekking er snilld, að sjá sín mynstur, af hverju við gerum það sem við gerum, og hvaða hugmyndir við höfum skapað sem hindra okkur í að taka af skarið, að breyta því sem við erum að gera til að áorka því sem við viljum,“ segir Sylvía og leggur um leið áherslu á að fólk virkilega skoði hvaða gildi skipta máli í lífinu. „Hvað skiptir þig mestu? Hvað drífur þig af stað? Hvað gefur þér orku? Hverjir gefa þér orku? Þegar við byrjum að vinna á einum þætti í heilsunni, þá er algengast að við tæklum fleiri. Ef við byrjum að hreyfa okkur þá fylgja oftast betri ákvarðanir sem snúa að mataræðinu. Svo eykst núvitundin og hugsanamynstrin breytast í kjölfarið. Ef þú byrjar að hugsa vel um þig, sýna þér kærleika og hlýju og taka góðar ákvarðanir fyrir þína heilsu, þá smitar þessi jákvæða orka út frá sér.“

Ætlar sér að verða í betra formi með hverju árinu

Sylvía segist hafa þann eiginleika að sýna fólki mjög mikla hluttekningu eða vera mjög „empathetic“ eins og það kallast á ensku. „Ég þarf að passa mig að beina hugsunum mínum í réttar áttir. Ef ég er ekki í tengingu við sjálfið þá byrja ytri þættir að taka yfir og ég hætti að stjórna,“ segir hún og leggur um leið áherslu á hvað innsæið skiptir miklu máli í þessu sem öðru en þó geti það verið vandasamt að greina á milli þess hvað getur verið innsæi og hvað er ótti. „Það er reyndar umræðuefni í heilt viðtal,“ segir hún íhugul.

Sylvía segist hafa skoðað sín eigin gildi í þaula og nú er svo komið að þegar hún hættir að lifa eftir þeim eða gefur afslátt af þeim finnur hún það umsvifalaust. „Ef ég gleymi að halda í gildin mín þá finn ég fljótt muninn. Ég verð ósátt og það smitast út í umhverfið og mitt daglega líf,“ segir hún. „Í sumar hefur til dæmis verið hrikalega mikið að gera í vinnunni sem hefur tekið á. Ég horfi fram á veginn og tel bara niður dagana þar til allt fer að róast því þá get ég farið að sinna mér eins og ég vil gera. Ég ætla einfaldlega að vera í betra formi eftir tuttugu til fjörutíu ár en ég er núna. Staðfest.“

Stöðnun er ekki rétta leiðin til að lifa

Hún heldur því fram að heilsusamlegur lífsstíll verði ávandabindandi ef fólk heldur sínu striki. „Að komast yfir fyrsta hjallann getur verið mjög erfitt en þegar búið er að skapa nýjar venjur og lífsgleðin, orkan og krafturinn eru orðin hluti af lífinu þá viltu ekki fara til baka. Að gera sitt besta er alltaf nóg.

Ég trúi því að við eigum sífellt að vera að skora á okkur, fara út fyrir þægindahringinn. Við erum gerð fyrir þróun og lærdóm og þroska. Án þess að gera nýja hluti, að skora á okkur, þá getum við auðveldlega byrjað að upplifa okkur sem „föst“ og það er ekki leiðin til að lifa,“ segir Sylvía að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »